Á Boðnarmiði yrkir Ólafur Stefánsson og kallar „Smávæmin heimkomulanghenda“:
Síðan að ég sæll frá borði
sveif, svo naumast snerti tá,
kem ég varla upp köpurorði
en kæra Ísland horfi á.
Tvær limrur eftir Helga Ingólfsson:
Að hausti til hitti ég Ólínu
á Hestfjalli, rétt neðan snjólínu.
„Hvað ertu að gera?“
„Ég er búin' að vera
að útbúa glænýja skólínu.“
Ljóðskaparlistin er fögur,
en laun, sem hún færir, þó mögur.
Það seint bætir haginn
að sitja' allan daginn
og semja tvær vesælar bögur.
Í skugganum skelfur hrísla,
skekin er bankasýsla,
með skott milli lappa
sést skolli vappa
og skýst í holuna mýsla.
Þarna er leiðsögumaðurinn ljóti,
mig langar að kasta í hann spjóti.
Ef verð ég of sein
þá vel ég mér stein
og hendi í helvítið grjóti.
Fyrr en nokkurn varði Varði
varði spyrnu Sveins í Garði
sem varð til þess að Barði á Barði
barði Stefán Jón á Skarði.
Aka á nöglum ekki má
ef menn vilja heiminn betri
og sanngjarnt væri að sekta þá
er sumardekkin nota á vetri.
Á Alþingi voru einlægt er gerður hvellur
ausið af reiðiskálum með glæsibrag
en innanhússheimsmet í heimsku og
leiðindum fellur
hiklaust án atrennu sérhvern einasta
dag
halldorblondal@simnet.is