Hún er áhugaverð þessi sérsniðna stóra mynd sem ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilja að einblínt sé á í tengslum við Íslandsbankasöluna. Að stjórnvöld hafi selt hlut í Íslandsbanka fyrir 108 milljarða í tveimur atrennum.

Hún er áhugaverð þessi sérsniðna stóra mynd sem ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilja að einblínt sé á í tengslum við Íslandsbankasöluna. Að stjórnvöld hafi selt hlut í Íslandsbanka fyrir 108 milljarða í tveimur atrennum. Að það eigi bara að horfa á þá mynd en ekki þetta „smotterí“ sem misfórst í seinni sölunni. Þið vitið, þetta með þóknun upp á 700 milljónir, óþarfan afslátt upp á tvo milljarða, ógegnsæi í framkvæmd og ósamræmi við sett markmið með sölu til smárra aðila sem sumir eru vinir, vandamenn og starfsmenn þeirra sem báru ábyrgð á sölunni. Þetta eru smáatriði í stóru myndinni þeirra.

„Ég flyt ykkur fréttir. Það er ríkissjóður Íslands sem heldur á 42,5 prósentum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um hver hefði hagnast mest á því að gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hefði hækkað eftir útboðið. Og þar með skipti það engu að misjafnlega hæfir fagfjárfestar hefðu fengið óþarfa afslátt og hagnast fyrirhafnarlaust yfir nótt.

Ég ætla líka að flytja ykkur fréttir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur með dyggum stuðningi Framsóknarflokks og VG klúðrað þessari bankasölu þannig að ekki verður lengra gengið í bili. Ríkisstjórnin hefur hætt við frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Það eru í sjálfu sér eðlileg viðbrögð við því sem ríkisstjórnin hefur svo sannarlega fengið að finna fyrir, því að traust almennings til hennar er farið. Ríkisstjórn sem ber ekki virðingu fyrir því að hér þarf að ríkja traust á fjármálamarkaði endar á því að verða sjálf rúin trausti.

Viðreisn hefur stutt sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Forsendan hefur verið að salan yrði á grundvelli almannahagsmuna með gegnsæi, jafnræði og traust í fyrirrúmi. Svo fór ekki, eins og þekkt er orðið. Í kjölfarið er sala á þeim hluta bankans sem eftir stendur í eigu ríkisins fyrir bí – og þar með sú 100 milljarða fjárfesting í innviðum og niðurgreiðslu skulda sem fyrirhuguð var til viðbótar. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að mæta þessari breyttu stöðu? Með því að draga úr nauðsynlegri innviðauppbyggingu? Með frekari skuldasöfnun? Með skattahækkunum?

Lærdómurinn er sá að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að selja ríkiseignir. Þar virðist lítill áhugi á að tryggja það lykilatriði sem Viðreisn hefur alla tíð lagt áherslu á þegar kemur að sölu ríkiseigna, að salan þurfi að vera í þágu almennings. Ekki útvalinna.

Takk fyrir ekkert Sjálfstæðisflokkur.

hannakatrin@althingi.is

Höfundur er Þingflokksformaður Viðreisnar.

Höf.: Hanna Katrín Friðriksson