Klara Guðmundsdóttir fæddist 12. ágúst 1925 í Ytri-Drápuhlíð í Helgafellssveit. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 10. apríl 2022.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Jóhannsson, f. 1896, d. 1984, og Kristín Sigurðardóttir, f. 1902, d. 1991.

Systkini Klöru eru: Hinrik, f. 1923, d. 1999, Unnur, f. 1926, d. 2014, og Reynir, f. 1937.

Klara giftist 1947 Haraldi Sigurjónssyni, f. 24. júní 1917, d. 14. maí 1995.

Börn þeirra eru:

1) Sturla, f. 1947, maki Anna Ólafsdóttir, f. 1952. Börn: a) Borghildur Sölvey, maki Anders M. Nielsen, börn Kári Sölvi, Anna Salka, Per Lukas og Una Beate. b) Haraldur Örn, maki Íris Jónsdóttir, synir Sturla, Flóki, Torfi og Brynjar. c) Orri, í sambúð með Dagnýju Rún Ágústsdóttur, börn Benedikt Ágúst og Klara Rún.

2) Guðmundur, f. 1950, maki Rannveig Jónsdóttir, f. 1951. Börn: a) Guðrún Elín, maki Birgir Hauksson, dóttir Íris. Börn Guðrúnar og fyrri maka eru tvíburarnir Elísa og Arnór Guðjónsbörn. Sambýlismaður Elísu er Margeir Ingi, sonur Atlas Freyr. b) Klara, maki Sigurjón Gíslason, dætur Birta Sól og Telma Líf.

3) Hildur, f. 1952, maki Ingvar Ásgeirsson, f. 1955. Börn Hildar og fyrri maka, Ólafs Skúlasonar: a) Tinna Rut, sonur Bjarki Már Svansson. b) Snorri Páll, í sambúð með Höllu Björt Ármannsdóttur, börn Sóley og Kári Hrafn. Börn Ingvars með fyrri maka, Guðbjörgu, eru Ásgeir Þórarinn og Ísold, dóttir hennar er Dimmalimm.

4) Ingimar, f. 1956, í sambúð með Bjarnfríði Ósk Sigurðardóttur, f. 1965. Dóttir Ingimars og Hlínar Hermannsdóttur er Ylfa Björk, maki Andreas W. Willadsen, börn Kara, Hermann og Alfred. Sonur Ingimars og fyrri maka, Halldóru Mathiesen, er Matthías Árni, maki Alma Jónsdóttir, börn Jón Ingi, Íris Ylfa og Eyþór Árni. Dóttir Ingimars og fyrri maka, Halldóru B. Jónsdóttur, er Kristín Björk.

Á uppvaxtarárum sínum í Ytri-Drápuhlíð sinnti Klara m.a. bústörfum heima við og sótti barnaskóla á Skildi í Helgafellssveit. 17 ára fór hún að heiman til Hafnarfjarðar, en þar beið hennar starf í kaffihúsinu Strýtunni. Til Hafnarfjarðar var Klara komin til að afla sér tekna fyrir skólagjöldum á húsmæðraskólanum á Staðarfelli. Daglegur gestur í Strýtunni var ungur, myndarlegur piltur, Haraldur Sigurjónsson, og félagar hans héldu því staðfastlega fram að Halli fengi alltaf besta kaffisopann. Þarna kynntust Klara og Halli, en Klara lét það ekki stoppa sín áform og fór í húsmæðranám á Staðarfelli veturinn 1943-1944.

Klara réð sig til starfa á heimili séra Bjarna Jónssonar vígslubiskups. Þar sinnti hún heimilisstörfum, barnagæslu og aðstoðaði við brúðkaup og skírnir sem gjarnan voru á heimili prestsins. Þar bjó Klara og starfaði þar til hún fluttist til Hafnarfjarðar. Klara og Haraldur hófu búskap á Hverfisgötu 45 en foreldrar Haraldar, Sigurjón og Jónfríður, byggðu húsið 1926 og bjuggu þau á miðhæðinni. Þarna ólu Klara og Haraldur upp börnin sín fjögur í risinu. Það var einstakt fyrir börnin að hafa vinnustað foreldranna á jarðhæðinni og ömmu og afa á miðhæðinni. Árið 1954 hófu þau rekstur matvöruverslunar á jarðhæðinni, Hallabúðar, sem þau ráku til ársins 1977. Kjörorð Hallabúðar var „eitthvað gott á hverjum degi“. Síðustu starfsárin vann hún á Hörðuvöllum. Eftir að Klara missti eiginmann sinn 1995 var hún virk í félagsstarfi eldri borgara í Hafnarfirði.

Útför Klöru fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 28. apríl 2022, klukkan 13.

Nú hefur elsku Klara tengdamamma mín kvatt þessa jarðvist á 97. aldursári, eftir farsæla ævi lengst af, þótt síðustu árin hafi verið henni erfið. Hún lést á Hrafnistu, þar sem hún hafði dvalið sl. rúm þrjú ár þegar heilsu hennar fór að hraka.

Ég naut vináttu hennar í yfir 50 ár og aldrei bar skugga á okkar samband. Hún var mér eins og önnur móðir, því ég var ung þegar við Gummi sonur hennar fórum að búa saman.

Klara hafði mikinn áhuga á öllu sem viðkom heimilishaldi, hvort sem var bakstur, matreiðsla eða hannyrðir, var nýtin, hún hafði verið í húsmæðraskólanum á Staðarfelli í Dölum þegar hún var ung kona og minntist þess tíma oft með gleði.

Klara var mjög myndarleg, vildi vera vel tilhöfð, var sterkur karakter, ákveðin og gat stundum staðið föst á sínu, en yndisleg, hjálpsöm og mátti ekkert aumt sjá.

Henni var alltaf mjög umhugað um velferð afkomenda sinna.

Barnabörnin eiga margar góðar og fallegar minningar um heimsóknirnar á Hverfisgötuna til ömmu og afa, þar sem vinsælt var að leika sér og garðurinn heillaði.

Klara og Halli ráku matvöruverslunina „Hallabúð“ á Hverfisgötu 45 í Hafnarfirði, í sama húsi og fjölskyldan bjó og foreldrar Halla höfðu byggt. Í búðinni unnu þau bæði oft langan vinnudag, ásamt því að ala upp fjögur börn.

Ég minnist þess hve heimilið var myndarlegt og fínt þótt plássið væri ekki alltaf mikið.

Eftir að Halli lést árið 1995 flutti Klara á Miðvang 16, fjölskyldan var orðin stærri, langömmubörn bæst í hópinn og í síðustu matarboðunum sem Klara hélt á jóladag vorum við orðin yfir 30 og allir sátu til borðs. Þannig vildi hún hafa það.

Klara og mamma voru góðar vinkonur og fóru stundum saman á viðburði og í ferðalög með Félagi eldri borgara í Hafnarfirði. Þær áttu m.a. það sameiginlega áhugamál að hlusta á fallega tónlist og söng, ekki fannst þeim verra ef það voru karlaraddir. Þær sóttu gjarnan tónleika saman og oft áttum við skemmtilegar samverustundir á tónleikum, m.a. með Þröstum og Karlakór Reykjavíkur.

Ég er þakklát fyrir samfylgdina með Klöru minni.

Guð blessi minningu hennar.

Rannveig.

Mín fyrstu kynni af Klöru, þá væntanlegri tengdamóður minni, voru bæði ánægjuleg og eftirminnileg. Það var ekkert hik á Klöru og hún sagði bara blátt áfram: „Velkominn í fjölskylduna!“ Segja má að öll samskipti okkar þar á eftir hafi einkennst af gagnkvæmri virðingu og væntumþykju.

Klara fæddist og ólst upp í torfbænum Ytri-Drápuhlíð. Hún talaði um þann mikla mun sem varð á bænum þegar Guðmundur faðir hennar gat útvegað tréfjalir á gólfið sem þó dugðu ekki út í öll horn og þá saumaði Kristín móðir hennar ábreiður úr strigapokum til að hylja það sem á vantaði.

Á efri árum ferðaðist Klara með eldri borgurum vítt og breitt um landið og í einni slíkri ferð var stoppað í Glaumbæ í Skagafirði. Ferðafélagar hennar fóru forvitnir inn að skoða bæinn en Klara sat ein úti í rútunni og sagði að þarna væri ekkert inni sem hún hefði ekki séð áður og fór hvergi.

Klara var vel gefin og átti auðvelt með að læra, var mjög minnug og skipulögð. Það var henni þungbært að hafa ekki getað haldið áfram námi eftir barnaskóla, en aðstæður heima við buðu ekki ekki upp á það. Hún flutti að heiman 17 ára til að afla sér tekna til að láta draum sinn rætast um skólavist í húsmæðraskólanum á Staðarfelli. Hún talaði alltaf um þann skólatíma með mikilli gleði og þar eignaðist hún góðar og traustar vinkonur ásamt hagnýtri menntun sem nýttist henni allan hennar búskap og í starfi.

Gestrisni Klöru var annáluð og matar- og kaffiboðin eftirminnileg. Allt heimagert og fram borið samkvæmt Klöru-staðli en þá er hangikjötið skorið nákvæmlega í 5 mm þykkar sneiðar, allt kjöt skorið þvert á þráðinn og aldrei færri en tvær tegundir af heimagerðum ís í eftirrétt og á eftir máltíð smákökur og kaffi drukkið úr mávastelli, sem hún hafði mikið fyrir að eignast.

Tónlist var Klöru hugleikin og sótti hún reglulega tónleika og studdi Karlakórinn Þresti af heilum hug og sleppti aldrei tónleikum þeirra. Þegar falleg og hrífandi tenórrödd hljómaði mátti sjá tár á hvarmi. Á síðari árum, á meðan heilsa hennar leyfði, bauð hún árlega börnum og tengdabörnum á nýárstónleika Sinfóníunnar og var það okkur öllum til mikillar ánægju. Klara var traustur vinur vina sinna og ræktaði hún vel samskipti við vini og ættingja og vildi vita um hagi þeirra. Klara vildi öllum vel og lagði sig eftir að gera ekkert á hlut annarra og því átti hún marga trausta góða vini á öllum aldri. Hún var staðföst og heiðarleg og lét í sér heyra ef henni var misboðið eða gert var á hlut annarra. Ef einhvers staðar hallaði undan fæti þá vildi hún án allra skilyrða leggja sitt af mörkum til að aðstoða og hvetja til dáða.

Síðustu ár Klöru voru henni erfið, getu hennar hrakaði og hún varð háð umönnun annarra og það var ekki hennar vilji. Heyrn hennar hrakaði mikið og það skerti verulega lífsgæði hennar og þátttöku í félagsstarfi. En alltaf var hún þakklát fyrir það sem henni var rétt og lét það óspart í ljós.

Að lokum vil ég þakka Klöru tengdamóður minni fyrir allar góðar stundir og óska henni góðrar ferðar.

Ingvar Ásgeirsson.

Elsku besta Klara amma. Þegar við hugsum til þín hlýnar okkur um hjartarætur. Við hugsum um allar þær góðu minningar og stundir sem við áttum með þér og Halla afa á Hverfisgötunni og svo með þér á Miðvanginum.

Þú varst alltaf klár í að bralla með barnabörnunum í eldhúsinu og smyrja ofan í okkur endalaust af kæfubrauði, leyfa okkur að brasa og ramba úti í garði, róla uppi á lofti (en samt alveg bannað að gera gat á þakið) og þá má ekki gleyma öllum jólaboðunum við barnaborðið eða skemmtilegu sögunum af fólkinu þínu úr Drápuhlíðinni og Hólminum.

Amma, þú varst alltaf svo stolt af þínu fólki og öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Í þínum augum vorum við öll „fallegustu börnin“ og vorum við aldrei í efa um hvað þér þótti vænt um okkur.

Elsku amma, við systkinin munum sakna þín, en við yljum okkur við þá hugsun að þið Halli afi eruð nú sameinuð aftur eftir öll þessi ár og mun minning ykkar beggja lifa áfram hjá okkur og öllu ykkar fólki um ókomna tíð.

Þín barnabörn,

Ylfa Björk, Matthías Árni

og Kristín Björk.