Engilbert Sumarliði Ingvarsson fæddist 28. apríl 1927 í Unaðsdal, Snæfjallahreppi, N-Ís. Hann bjó í Unaðsdal fyrstu árin með foreldrum sínum en þau fluttust á nýbýlið Lyngholt í sömu sveit í janúar 1936. Á Lyngholti var heimangönguskóli og var Engilbert í barnaskóla þar og eftir það tvo vetur í Reykjanesskóla.
Hann flutti til Ísafjarðar 17 ára gamall árið 1944 og þar kynntist hann konu sinni, Kristínu Ragnhildi Daníelsdóttur, sem ávallt var kölluð Adda. Engilbert og Adda bjuggu á Ísafirði til 1953. Á Ísafirði vann hann um tíma hjá Finnbirni Finnbjörnssyni málarameistara, en fór svo á námssamning á bókbandsverkstæðinu hjá Prentstofunni Ísrún. Engilbert útskrifaðist sem bókbindari frá Iðnskólanum á Ísafirði 1952 og stundaði oft bókband á veturna.
Snemma árs 1952 bauðst Engilbert og Öddu að kaupa eyðijörðina Tirðilmýri í Snæfjallahreppi. Þegar hann hafði lokið sveinsprófinu vorið 1952 fóru þau að huga að jörð sinni sem var nánast húsalaus. Þangað fluttu þau Adda með þremur ungum sonum sumarið 1953 og hófust handa við að byggja upp bæði jörð og hús. Engilbert og Adda bjuggu á Tirðilmýri til 1987 er þau fluttu til Hólmavíkur. Þau hófu að gera upp gamla bæinn á Lyngholti á Snæfjallaströnd þegar þau voru um áttrætt og luku þeim framkvæmdum 2012. Eftir það dvöldu þau mikið á Lyngholti á sumrin. Engilbert og Adda fluttu svo til Ísafjarðar og keyptu íbúð á Hlíf II árið 2014 og býr Engilbert þar áfram eftir lát Öddu.
Engilbert hefur unnið mikið að framfara- og félagsmálum fyrir sitt hérað. Hann hafði forgöngu um það ásamt Ásgeiri Sæmundssyni og fleirum að stofna Rafveitu Snæfjalla og stuðla að rafvæðingu Ísafjarðardjúps. Engilbert var í nefnd um stofnun Orkubús Vestfjarða og sat þar í stjórn um árabil. Hann átti sæti á aðalfundum Stéttarsambands bænda í tæpan aldarfjórðung og sat einnig á Búnaðarþingum. Engilbert var framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Nauteyrar- og Snæfjallahrepps um árabil og var á sama tíma formaður Búnaðarfélags Snæfjallahrepps og í nefnd um Inn-Djúpsáætlun. Engilbert var einnig formaður stjórnar Djúpbátsins hf. og stjórnarformaður Íslax hf.
Engilbert var kosinn formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1978 og gegndi því hlutverki til 1987 og sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á sama tíma. Hann var enn fremur stofnfélagi og fyrsti formaður félags eldri borgara í Strandasýslu og fyrsti formaður Snjáfjallaseturs.
Engilbert fór að skrifa á áttræðisaldri bækur um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd sem hann nefndi Undir Snjáfjöllum. Auk þess skrifaði hann bókina Þegar rauði bærinn féll um Ísafjarðarár sín og rit um Kolbein Jakobsson í Dal. Engilbert sinnir enn skrifum þó að sjónin sé orðin léleg. „Ég er að grípa í að skrifa í tölvunni með stærri stöfum á lyklaborðinu, mér til dægrastyttingar. Annars bý ég hér einn og líkar vel og fæ hér góða heilbrigðisþjónustu. Það hefur verið lítið um að vera hér út af covid, en ég hlusta talsvert á hljóðbækur og sæki tónleika eftir föngum.“
Fjölskylda
Hinn 27. mars 1948 kvæntist Engilbert Kristínu Ragnhildi Daníelsdóttur (Öddu), f. 10.6. 1928 á Uppsölum, Súðavíkurhreppi, d. 8.6. 2021 á Ísafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Soffía Magdalena Helgadóttir, f. 28.11. 1910, d. 1.1. 1986, húsfreyja á Ísafirði, og Daníel Rögnvaldsson, f. 11.5. 1902, d. 28.4. 1974, skipasmiður á Ísafirði.Börn Engilberts og Öddu: 1) Grettir, f. 27.9. 1948, d. 1.6. 2015, kennari í Svíþjóð, maki Kristina Karlsson. Synir þeirra eru Sæmundur Jóhann, Einar Snorri og Kolbeinn Ari, maki Annagreta Berg. 2) Daníel, f. 19.12. 1950, vélstjóri og bókbindari á Selfossi. Synir Daníels eru a) Valur Bjartmar, sem á tvo syni, Daníel Bjartmar og Alexander, b) Auðun, maki Ruth Margrét Friðriksdóttir, og c) Grímur. 3) Ingvar, f. 20.10. 1952, húsgagnasmiður og kennari á Akureyri, maki Sigrún Hulda Steingrímsdóttir. Börn þeirra eru a) Halla, b) Engilbert, maki Aðalbjörg Rósa Sigurðardóttir, börn þeirra eru Sigrún María, Soffía Sunna, Kristbjörg Hekla, Ingvar Emil og óskírð Engilbertsdóttir, og c) Adda Soffía, maki Heiðmar Guðmundsson, dóttir þeirra er Viktoría Eva. 4) Jón Hallfreð, f. 22.11. 1955, kennari og tónlistarmaður á Ísafirði, maki Helga Sigfríður Snorradóttir. Börn þeirra eru Snorri Sigbjörn, maki Heiðdís Lára Viktorsdóttir, og Kristín Harpa. 5) Ólafur Jóhann, f. 6.9. 1960, menningarmiðlari í Reykjavík, maki Gyða Sigríður Björnsdóttir. Sonur þeirra er Dagbjartur Sigurður. Stjúpsonur Ólafs er Úlfur Kolka, sonur hans er Pétur Hafsteinn. 6) Atli Viðar, f. 9.9. 1961, listamaður á Akureyri. 7) Salbjörg, f. 30.7. 1967, skrifstofustjóri á Hólmavík, maki Sverrir Guðbrandsson. Börn þeirra eru Jakob Ingi, Kristín Lilja og Júlíana Steinunn. Sonur Salbjargar er Andri Freyr Arnarsson og var hann löngum í fóstri hjá Engilbert og Öddu. Sonur Sverris og stjúpsonur Salbjargar er Guðbrandur Emil, maki Jennifer Isabell Land Pedersen, og synir þeirra eru Sverrir Nickolai og Christopher Jóhann.
Systkini Engilberts: Ásgeir Ingvar, f. 29.1. 1919, d. 27.9. 1989, Jón Hallfreð, f. 1.8. 1921, d. 29.4. 1945, og Jóhanna Sigrún, f. 1.1. 1933, búsett í Hnífsdal.
Foreldrar Engilberts voru hjónin Salbjörg Jóhannsdóttir ljósmóðir, f. 30.9. 1896, d. 28.12. 1991, og Ingvar Ásgeirsson bóndi, trésmiður og bókbindari, f. 15.8. 1886, d. 11.4. 1956.