Gunnar fæddist á Bjarnastöðum á Grímsstaðaholti 5. september 1941. Hann lést 12. apríl 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Guðjón Bjarnason, f. 28. ágúst 1888, d. 16. ágúst 1951, útvegsbóndi á Bjarnastöðum, og Guðrún Valgerður Guðjónsdóttir, f. 24. júní 1896, d. 22. janúar 1988, húsmóðir og hænsnabóndi á Ægisíðu.

Systkini Gunnars voru Björn, f. 11. nóvember 1921, d. 2008, trilluútgerðarmaður við Ægisíðu, Þorbjörg, f. 11. apríl 1923, d. 2017, garðyrkjukona við Gróðrarstöðina, Bjarni, f. 17. ágúst 1927, þjónn á Hótel Flugleiðum, d. 2015.

Börn Gunnars eru Ólöf, f. 28. desember 1968, Hlynur, f. 23. apríl 1973, Ásdís Birta, f. 13. maí 1978, Dagmar Evelyn, f. 31. mars 1986, Alexandra Aníta, f. 20. desember 1988, og Erik Bjarni, f. 21. júní 1991. Gunnar skilur eftir sig stóran hóp afa- og langafabarna.

Útför hans fer fram frá Neskirkju í dag, 28. apríl 2022, klukkan 15.

Elsku pabbi minn.

Þakklæti er mér efst í huga á okkar kveðjustund. Mikið er ég heppin að hafa fengið að vera dóttir þín. Þú varst svo hlýr og faðmlagið þitt var það besta sem ég vissi um.

Þú varst pabbi minn og vinur, traustur og hvetjandi og ég gat alltaf leitað til þín. Ef ég var í vafa sagðir þú mér að láta vaða, ef ég hringdi og var í vanda eða bara langaði að hitta þig sagðir þú „ég fer í skóna“ og varst mættur stuttu seinna. Þegar ég var um 10 ára þurfti ég að fara í smá aðgerð á eyrum. Ég kveið því mjög og vildi ekki fara en þú sagðir við mig „ef þú ferð skal ég kaupa handa þér 13 páskaegg þegar við erum búin“. Ég fór og eftir aðgerðina keyptum við 13 páskaegg.

Svo fórum við út um allan bæ og gáfum fólki egg, frændfólki, ókunnugu fólki, vinum og ég fékk að eiga eitt egg. Þú kenndir mér gjafmildi og að það er allt í lagi að líða eins og manni líður. Maður á sína góðu og slæmu daga. Ég fékk að róa með þér til sjós og ég smurði heilt samlokubrauð af samlokum með kæfu á meðan þú fiskaðir.

Þú passaðir upp á mig. Það er ekki skrítið að fólk laðaðist að þér, þú dæmdir aldrei aðra og varst æðrulaus gagnvart áliti annarra á þér.

Það lifði allt og dafnaði í höndum þér, bæði dýr og gróður og líka vinabönd. Þú hafðir gaman af því að sjokkera svolítið og hræra í pottunum og fórst þínar eigin leiðir, hvort sem var í listsköpun eða klæðaburði.

Málverkin þín eru jafn litrík og þú, yfirnáttúruleg, hlý, óvænt, gáskafull, einstök og sköpuð af ástríðu og innri þörf. Þau voru hluti af þinni veröld og verða alltaf hluti af okkar veröld, yndisleg minning um hversu heppin við vorum að hafa þig í lífi okkar.

Þú leiddir hönd mína í gegnum lífið og ég fékk að að halda í höndina þína á meðan þú tókst þinn síðasta andardrátt. Fyrir allt sem við áttum saman verð ég ævinlega þakklát, fyrir allar stundirnar, sögurnar, hlýjuna og allt sem þú kenndir mér, börnunum mínum og Sigga.

Minning þín mun lifa í hjörtum okkar og ég trúi því að lífsglaði andinn þinn svífi nú eins og dúfa yfir Þingvallavatni, Ægisíðunni, Snæfellsnesinu og undraperlum náttúrunnar.

Bless á meðan, pabbi minn.

Þín dóttir,

Ásdís Birta.

Elsku pabbi minn.

Það var alltaf hægt að treysta á þig og lífið þitt var stórbrotið. Við vorum með svipaðan húmor. Man svo vel eftir þér akandi með opinn gluggann að spekúlera í náttúrunni og málverkum þínum. Þú sagðir gjarnan: „Þetta er bara hamingja.“ Með þakklæti fyrir að hafa verið þér náin og með söknuði kveð ég þig í dag.

Alexandra Aníta

Gunnarsdóttir.

Gunnar I. Guðjónsson listmálari, móðurbróðir minn og vinur, fór ekki hefðbundnar leiðir í lífinu. Hver rétta leiðin er geta hinsvegar fáir dæmt um.

Hann var fæddur og uppalinn á Grímsstaðaholtinu, við Ægisíðuna, þar sem mannlífið þreifst við sjóinn. Karlarnir reru til fiskjar, veiddu grásleppu, rauðmaga, stórlúðu og annað það sem hafið gaf. Þar var hans leikskóli. Og þar átti hann eftir glíma við sjóinn á eigin bát, ásamt hinum körlunum. Þeir reru eldsnemma að morgni og komu síðdegis. Þá biðu viðskiptavinirnir í fjörunni eftir að geta keypt sér í soðið. Þar var einnig Bjössi bróðir hans á sínum báti. Þar voru gömlu beitingaskúrarnir. Grásleppan hengd upp og látin síga. Allavega einn stendur enn. Þetta var leiksviðið.

Gunnar starfaði einnig við annað leiksvið, sem sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu. Þar hitti hann ýmsar litríkar persónur. Hann nærðist á því að kynnast margbreytilegu mannlífi.

Sem unglingur fékk hann vinnu hjá Pétri í Málaranum, þar sem listmálararnir gátu fengið litatúpurnar sínar. Þar kynntist Gunnar listagyðjunni, sem aldrei yfirgaf hann. Þangað kom Kjarval og prufaði litina á föðurlandinu sínu. Þar kom Stefán frá Möðrudal, nýfluttur í bæinn. Þeirra leiðir áttu eftir að liggja sundur og saman í fjöldamörg ár. Þar hittust listmálararnir. Seinna fór Gunnar í listnám til Barcelona, og þar þróaðist listferill hans.

Á hverju sumri fór hann um landið til að festa náttúruna á striga. Hann átti sér sína staði, og var Snæfellsjökull og Snæfellsnesið í miklu uppáhaldi. Konur rötuðu oft á strigann hjá honum sem myndefni. Honum leið vel í návist kvenna, og löðuðust þær oftar en ekki að honum. Börn hans, sem eru ákaflega vel gerð, eru ekki öll sammæðra, en það hefur ekki torveldað þeirra samband.

Fyrir um 30 árum fékk hann landspildu úr landi Króks við Þingvallavatn. Þar kom hann sér upp sínu athvarfi í samræmi við sinn lífsstíl.

Sá staður heitir Hónef. Þar var hann með hestana og dúfurnar, sem fylgdu honum alla ævi. Stundum nokkrar hænur. Vatnið var gjöfult og skaffaði í matinn, og stundum rúmlega það. Þá var vinum gefið í soðið. Húsakosturinn þróaðist og varð að einu allsherjar galleríi. Þar leið honum vel. Eldaðar dýrindis máltíðir, silungur, kartöflur og íslenskt smjör. Hrafninn og refurinn sáu um uppvaskið, eða þá næsti ullarsokkur. Þarna blómstraði listin.

Trjáplöntur sem ekki var spáð brautargengi í gróðrarstöðinni í Laugarási fengu ný tækifæri í Hónefi. Þar er kominn myndarlegur skógur. Þá voru elduð hrossabjúgu með hnausþykkum grænkálsjafningi. Ekkert var betra. Stundum rauðvínstár með. Hörður frændi kom oft með. Hann var „unik“.

Peningar héldust ekki vel í vistinni hjá Gunna móðurbróður mínum. Þeir áttu það til að bregða sér af bæ. Hann sagði það engu skipta. Aðrir þyrftu meira á þeim að halda. Þeir kæmu einhvern tíma aftur. Hann lét ekki áþján auðæfa angra sig.

Gunnar var sögumeistari. Hann naut sín við að segja sögur af vinum sínum og athyglisverðu fólki. Þær gátu verið langar og þroskuðust við endurtekningar. Þegar hann náði sér á strik, datt hann í karakter. Enginn sagði betur sögur.

Fyrir 4 árum varð hann fyrir áfalli. Fékk heilablóðfall. Sögurnar fóru fyrst, síðan lá leiðin niður brekkuna, þar til yfir lauk.

Nú er hann eflaust með gengnum vinum sínum að segja sögur.

Vernharður Gunnarsson.

Gamall heimilisvinur er horfinn á vit feðra sinna. Og án efa hvíldinni feginn. Gunni var veiðimaður og listamaður af guðs náð og í sérstöku vinfengi við náttúruna.

Það er okkur öllum ógleymanlegt þegar hann birtist á Snæfellsnesi á vorin, eins og lóan, til að fanga það sem við honum blasti með pensilinn að vopni. Fjöllin, hraunið, huldufólkið, dýrin, orkuna, fiskana, fólkið, sjóinn, jökulinn.

Hann fangaði athygli dýranna og einnig kvenna af því hann var eins og hann var og kunni réttu orðin, rétta handtakið. Gunni sá það sem við hin sáum ekki og sat dögum saman fyrir framan strigann undir berum himni, við spóasöng og gagg tófunnar, berjablár og brosandi.

Mamma og pabbi skutu yfir hann skjólshúsi í Ólafsvík, eða amma og afi á Staðastað, en helst hefði hann kosið að leggja sig á milli stokka og steina og bíða eftir réttri birtu. Þá héldu honum engin bönd. Í flæði varð hann ósýnilegur og þá tóku við töfrar, strokur og hinn eini sanni tónn var sleginn.

Þegar Gunni birtist í sveitinni og opnaði skottið á bílnum dró hann flösku upp úr stígvéli svo lítið bæri á og rétti afa. Svo var drukkið, hlegið, sungið og málað. Og vakað. Á nóttunni var dregið á í Vatnsflóanum undir björtum himni. Bleikja í netið og seinna í pottinn. Hausinn soginn en sporðurinn frátekinn fyrir grjótkastarann.

Eins og gengur rofnuðu tengslin þegar árin færðust yfir en í þau skipti sem við rákust hvor á annan hlýddi ég á litskrúðugar frásagnir listamannsins. Eitthvað var kryddað, annað spunnið en hann kunni sannarlega að segja frá.

Hann talaði um Þingvelli, hestana, sveitina, mannfólkið á svo einstakan hátt að ég dró ávallt upp minnisbókina til að taka niður punkta. Til að nota seinna, í réttu samhengi.

Listamaðurinn lagði ekki net einhvers staðar í Þingvallavatn heldur tók hann mið af náttúrunni. Hann leit til fjalla og þegar ákveðið kennileiti bar við annað lagði hann netin. Og upp komu boltar. Hann vissi hvað hann söng enda lífsreyndur maður og veðurbarinn. Þannig vildi hann vera.

Við systkinin vottum fjölskyldu og vinum Gunnars I. Guðjónssonar okkar dýpstu samúð. Minningin um hlýjan mannvin mun lifa og hver veit nema hann birtist okkur í hrauninu á Snæfellsnesi þegar síst varir. Það væri í hans anda.

Þorgrímur Þráinsson.