Gas Morawiecki sagði að Pólverjar myndu ekki láta undan Rússum.
Gas Morawiecki sagði að Pólverjar myndu ekki láta undan Rússum. — AFP/Janek Skarzynski
Orkumálaráðherrar Evrópusambandsins ætla að funda á mánudaginn eftir að rússneska jarðgasfyrirtækið Gazprom ákvað í fyrradag að loka fyrir sendingar á jarðgasi til Póllands og Búlgaríu, þar sem ríkin hefðu ekki greitt fyrir gasið í rúblum, líkt og...

Orkumálaráðherrar Evrópusambandsins ætla að funda á mánudaginn eftir að rússneska jarðgasfyrirtækið Gazprom ákvað í fyrradag að loka fyrir sendingar á jarðgasi til Póllands og Búlgaríu, þar sem ríkin hefðu ekki greitt fyrir gasið í rúblum, líkt og Rússar krefjast nú.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, fordæmdi í gær ákvörðun Rússa, og sagði hana „beina árás“ á Pólland. Hét hann því að ekki yrði látið undan því sem hann kallaði „fjárkúgunartilraun“ Rússa, og sagði að Pólverjar myndu ekki þurfa á neinum birgðum frá Rússlandi að halda í haust.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að önnur aðildarríki ESB væru nú að hlaupa undir bagga með ríkjunum tveimur. „Við munum tryggja að ákvörðun Gazprom muni hafa eins lítil áhrif á evrópska neytendur og mögulegt er,“ sagði von der Leyen.

Sagði hún að Kremlverjar hefðu ekki náð að sá misklíð milli aðildarríkjanna líkt og þeir hefðu ætlað sér. „Tímabil rússnesks jarðefnaeldsneytis í Evrópu er að líða undir lok.“

Pútín Rússlandsforseti lýsti því yfir í marsmánuði að Gazprom myndi einungis taka við greiðslum í rúblum frá „fjandsamlegum ríkjum“ og var það hugsað sem svar við refsiaðgerðum vesturveldanna.

Von der Leyen varaði innflytjendur innan Evrópusambandsins við því að hefja greiðslur í rúblum, þar sem það gæti þýtt að refsiaðgerðirnar myndu einnig ná yfir þau fyrirtæki. Auk þess væri það skrifað skýru letri í um 97% af þeim orkusölusamningum sem gerðir hafa verið við Rússa að greitt yrði fyrir orkuna í evrum eða dölum.