Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Heildarlaun fólks í fullu starfi á vinnumarkaðinum voru að meðaltali 823 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Árið 2019 voru þau til samanburðar 754 þúsund kr., á árinu sem lífskjarasamningarnir voru gerðir og hafa hækkað um rúm níu prósent. Inni í heildarlaununum eru einnig greiðslur fyrir yfirvinnu en ef eingöngu er litið á regluleg laun fólks í fullu starfi, þ.e.a.s. greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu, kemur í ljós að þau voru að meðaltali 711 þúsund krónur á síðasta ári. Voru 80 þúsundum kr. hærri á mánuði að jafnaði í fyrra en á árinu 2019 og höfðu hækkað hlutfallslega meira en heildarlaunin eða um 12,5%.
Þetta má lesa út úr viðamikilli launatölfræði sem Hagstofa Íslands birti í gær. Meðaltöl sem slík gefa þó aðeins takmarkaða mynd af launadreifingunni í landinu, sem er mismunandi eftir starfsstéttum. Fram kemur að regluleg laun 63% launafólks eru undir meðallaununum og tæpur fjórðungur var í fyrra með heildarlaun undir 600 þúsund krónum á mánuði. Ósérhæft starfsfólk var með 582 þúsund kr. í heildarlaun að jafnaði í fyrra en stjórnendur fyrrtækja og yfirmenn deilda fengu að meðaltali tæplega 1,3 milljónir kr. á mánuði. Hagstofan bendir á að um helmingur stjórnenda voru með heildarlaun á bilinu 800 til 1.300 þúsund kr. á mánuði en um helmingur verkafólks var með heildarlaun á bilinu 400 til 650 þúsund kr.
Tölur Hagstofunnar um laun eftir starfsstéttum og hópum benda ótvírætt til þess að lægst launuðu hóparnir, ósérhæft starfsfólk, verkafólk og sölu- og afgreiðslufólk, hafi hækkað hlutfallslega meira en aðrir hópar frá 2019. Þannig hafa t.d. regluleg laun verkafólks í fullu starfi hækkað úr 441 þúsund kr. á mánuði á árinu 2019 að meðaltali í 517 þúsund kr. í fyrra eða um 17,2% og heildarlaunin hækkuðu úr 574 þús. kr. í 658 þús. kr í fyrra eða um 14,6%. Til samanburðar voru regluleg laun sérfræðinga um 74 þús. kr. hærri í fyrra en á árinu 2019 eða 774 þús. kr. að meðaltali (rúmlega tíu prósent hækkun) og regluleg laun tækna og sérmenntaðs starfsfólks voru að jafnaði 740 þús. kr. á mánuði í fyrra eða 56 þús. kr. hærri en á árinu 2019. Fram kemur að tæpur fjórðungur iðnaðarmanna var með heildarlaun yfir einni milljón króna á mánuði í fyrra og að einn af hverjum þremur í sölu- og afgreiðslustörfum var undir 500 þúsund krónum.
471 þús. og á þriðju milljón
Verulegur launamunur er á milli starfa skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. „Sé horft til einstakra starfa voru forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana að jafnaði með hæstu launin eins og verið hefur síðustu ár eða rúmlega tvær milljónir króna að meðaltali á mánuði árið 2021,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar. Lægstu heildarlaunin fyrir fullt starf voru fyrir störf við barnagæslu eða 471 þúsund kr. á mánuði. Heildarlaun afgreiðslufólks í dagvöruverslunum voru að meðaltali um 514 þús. kr. í fyrra, í umönnun og aðstoð í heilbrigðisgreinum og félagsþjónustu voru þau um 524 þús.kr., og í iðnaði og fiskvinnslu 563 þúsund kr. á mánuði, svo dæmi séu nefnd.„Dómarastörf, sérfræðistörf við lækningar, sérfræðistörf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa, sérfræðistörf tengd skipa- og flugsamgöngum og störf æðstu embættismanna ríkis og sveitarstjóra eru dæmi um störf þar sem heildarlaun eru að meðaltali 1,5 milljón krónur eða hærri á mánuði,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.