Kristín Eiríka Gísladóttir fæddist 22. júlí 1939 í Reykjavík. Hún lést 11. apríl 2022.
Foreldrar Kristínar voru Emilía Kristín Þorgeirsdóttir, saumakona og húsfreyja, f. 18. maí 1908, d. 24. desember 1965 og Gísli Eiríksson trésmiður frá Eyrarbakka, f. 30. júlí 1906, d. 26. september 1982. Kristín átti einn bróður, Gylfa Gíslason, teiknara og myndlistarmann, f. 19. desember 1940, d. 1. febrúar 2006.
Kristín giftist 31. október 1970 Jóni Jósefssyni flugvirkja, f. 16. apríl 1942, d. 24. nóvember 2011. Foreldrar Jóns voru Jósef Hartmann Sigurðsson frá Akureyri, f. 15. apríl 1910, d. 28. febrúar 2007 og Sveinbjörg Ágústa Jónsdóttir frá Norðfirði, f. 28. ágúst 1920, d. 12. febrúar 2009.
Kristín og Jón eignuðust fjögur börn og þau eru: 1) Brynja Hrönn, f. 15. júní 1973, 2) Hildur Edda, f. 20. janúar 1975, 3) Sverrir Már, f. 14. september 1980 og 4) Gunnar Hrafn, f. 9. júní 1986. Ömmudrengirnir, synir Hildar og Braga Smith, eru Helgi Hrannar, f. 2003, Brynjar Orri, f. 2006 og Birgir Hrafn, f. 2013
Kristín ólst upp á Laugavegi 4 í Reykjavík. Hún gekk í Ísaksskóla, þaðan lá leiðin í Miðbæjarbarnaskólann. Kristín hóf árið 1952 nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Við útskrift þaðan hlaut hún viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Kristín tók landspróf utan skóla og útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1960. Um haustið hóf hún nám í Háskóla Íslands í dönsku og jarðfræði en lauk ekki námi.
Árið 1963 hélt Kristín til Þýskalands í þýskunám í Heidelberg. Eftir námið fékk hún vinnu hjá BASF í Ludwigshafen. Hún talaði þýsku eins og innfædd og átti alla tíð sterk tengsl við vini og kunningja í Þýskalandi.
Kristín hóf störf hjá Flugfélagi Íslands sem flugfreyja 1966 og starfaði þar óslitið til 1972. Þau Kristín og Jón kynntust í fluginu þar sem hann starfaði sem flugvirki. Hún naut starfsins og fannst gaman að ferðast. Hún flaug innanlands en einnig til annarra Evrópulanda. Kristín var virk í félagsstarfi. Hún hafði yndi af tónlist og söng og var í kórum, m.a. með sínum gömlu útskriftarfélögum í MR60 kórnum. Þá hitti hún fyrrverandi flugfreyjur í Svölunum og Sexunum.
Kristín var bókelsk og fær handavinnukona og eftir hana liggja fjölmörg útsaumsverk.
Útför Kristínar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 28. apríl 2022, klukkan 13.
Kristín var stóra systir hans pabba, rúmu ári eldri en litli bróðir hennar, og þau ólust upp við Laugaveg. Það sem flestir tóku eftir sem hittu hana var hvað hún var alltaf glaðvær. Það sem einkenndi hana var hvað hún var frá á fæti og kvik í hreyfingum.
Hún sagði gjarnan sögur með hliðarsögu og hafði jafnvel enn aðra hliðarsögu tilbúna á takteinunum en tókst með einhverjum hætti að halda samt þræðinum enda var hún vel gefin og minnug með afbrigðum. Það var ekki í kot vísað þegar kom að veislum hennar þar sem borðið svignaði undan kræsingunum.
Kristín starfaði sem flugfreyja framan af og talaði nokkur tungumál. Hún kom iðulega færandi hendi þegar hún kom úr þessum flugferðum og færði okkur ýmsar fallegar gjafir, s.s. útlend páskaegg, sem var nú aldeilis spennandi. Svo ekki sé minnst á eftirminnilegar jólatrésskemmtanir hjá Flugfélagi Íslands, sem hún bauð okkur á, þar sem við fengum heilan jólasokk með erlendu sælgæti heim með okkur, sem ekki þekktist mikið í þá daga hér á landi.
Kristín frænka gegndi mikilvægu hlutverki í lífi okkar. Eftir skilnað foreldra okkar hélt hún vinskap og stuðningi við okkur systkinin og mömmu m.a. með því að fara með okkur í bíltúra út fyrir bæinn, t.d. lautarferðir í Heiðmörk með nesti. Það var mikil upplifun í minningunni og fyrir það erum við þakklát.
Að leiðarlokum sendum við Brynju Hrönn, Hildi Eddu, Sverri Má, Gunnari Hrafni og öðrum aðstandendum hugheilar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Kristínar frænku.
Margrét, Kristín Edda,
Unnur, Freyja og Þorkell Gylfabörn.
Við kynntumst í Kvennaskólanum í Reykjavík á sjötta áratug síðustu aldar. Kristín var mikill námsmaður, hlaut verðlaun og gegndi ábyrgðarstöðu í skólanum. Hún var okkar fyrirmynd.
Á skólaárunum stofnuðum við, nokkrar úr Z-bekknum, saumaklúbb sem starfaði með hléum, þar til fyrir stuttu. Þessi klúbbur var ólíkur öðrum saumaklúbbum, því í honum var nefnilega saumað eða prjónað af kappi. Mikið var líka talað og alltaf var fyrsta flokks bakkelsi á borðum.
Kristín ólst upp í hjarta Reykjavíkur, við Laugaveginn. Þau voru tvö systkinin auk foreldranna. Gylfi, bróðir Kristínar, var ári yngri en hún. Hann er nú látinn fyrir nokkru og var missir hans Kristínu mikið áfall.
Kristín gekk i hjónaband með Jóni Jósefssyni árið 1970 og eignuðust þau fjögur börn. Jón lést í nóvember árið 2011 og eftir það bjó Kristín með þremur af börnum sínum í húsi fjölskyldunnar í Garðabæ.
Nú, nærri 70 árum eftir okkar fyrstu kynni, þökkum við Kristínu vináttuna, sem aldrei bar nokkurn skugga á, og hugsum með hlýju til þeirra þriggja, sem farnar eru úr klúbbnum okkar.
Börnum Kristínar og ömmustrákunum þremur sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þeirra missir er mestur.
Ásdís (Dísa), Edda og
Sigurlaug (Sissa).
Nú er víst komið að kveðjustund, eitthvað sem maður vill í raun og veru ekki. Því að kraftur þinn, elja og atorkusemi hefur ávallt verið svo mikil frá því ég man eftir mér sem lítilli stúlku inni á heimilinu ykkar.
Það voru svo góðar og nærandi stundirnar í Hlíðarbyggðinni hjá ykkur. Í mínum augum varstu mikil atorkukona og þú varst svo sannarlega mikil húsfreyja.
Ég man þegar fjölskyldur okkar komu margoft saman við Hafravatn, þar sem kveiktur var varðeldur og grillaðar voru pylsur á prikum.
Oft fóru foreldrar mínir og systur í svokallaðan sunnudagsbíltúr en eitt skiptið vildi ég ekki fara með.
Þegar síðar kom í ljós að þau höfðu endað bíltúrinn í heimsókn til ykkar, man ég hvað ég var svakalega svekkt og fannst mér ég hafa misst af öllu dýrmæta gulli heimsins, heimsókn til ykkar.
Svo leið tíminn og fólk fullorðnaðist. Minna varð um samverustundir, en þegar ég átti von á dóttur minni fyrir rúmlega áratug, fann ég hvað það skipti mig miklu máli að auka samskiptin og fjölga samverustundunum með ykkur fjölskyldunni aftur. Dóttir mín varð þess aðnjótandi að fá að skírast í skírnarkjólnum sem þið Jón skírðuð öll börnin ykkar í. En hann hafðir þú búið til úr brúðarkjólnum þínum. Það finnst mér líka lýsa þér svo vel, hæfileikunum sem þú hafðir og velvild.
Fyrir nokkrum árum lentum við mæðgurnar í hrakningum með bílinn okkar á Reykjanesbrautinni. Þá voru góð ráð dýr. Hringt var í Brynju dóttur þína og björgunarsveit Markarflatarinnar fór eldsnöggt af stað. Ég mun seint gleyma þeirri sjón sem blasti við mér, þegar stóri Dodgeinn hennar Brynju renndi upp að okkur, þú Kristín komst út úr bílnum ásamt Gunnari syni þínum. Þú íklædd stígvélum, regnfatnaði með höfuðvasaljós í illviðri og stjórnaðir aðgerðum af mikilli snilld. Þú varst svo mikill kvenskörungur og þarna voru einungis nokkur ár í áttræðisafmælið þitt.
Nú líður að kveðjustundinni og margs er að minnast en því miður kemst ekki meira fyrir hér. Ég veit að þú ert komin í fallegar vistaverur, þar sem engir verkir hrjá þig lengur, áhyggjur né sársauki heldur einungis gleði, heilbrigði og hamingja. Ég veit það, því stuttu eftir andlát þitt sá ég þig og Salóme ömmu mína ofar skýjum, í annarri vídd. Þið sátuð hvor á sínum tignarlega útskorna, krosssaumaða stólnum með staup á fæti í höndum og skáluðuð í sérríi.
Þú varst svo glöð, frjáls, hamingjusöm og brostir breitt. Þið amma sátuð og hlóguð og höfðuð svo gaman af að spjalla og rifja upp gömlu tímana.
Ég kveð þig, kæra Kristín, með mikilli þökk og virðingu fyrir öllu sem þú kenndir mér og varst fyrir mig og síðar dóttur mína.
Eftir sitja uppkomnu börnin þín fjögur, Brynja Hrönn, Hildur Edda, Sverrir Már og Gunnar Hrafn ásamt barnabörnunum þínum þremur. Ég veit að söknuður þeirra er og verður mikill.
Góðu minningarnar um þig munu lifa áfram í hjarta mínu og dóttur minnar um dásamlegu dugnaðarkonuna og húsfreyjuna Kristínu Eiríku Gísladóttur. Það verður allt í lagi. Hvíl í friði.
Signý Gyða Pétursdóttir.
Það var fyrir tuttugu árum að bekkjarsystir okkar Elsa úr stærðfræðideild MR hafði samband og bauð okkur stelpunum í heimsókn til Stavanger í Noregi, en þar hafði hún sest að eftir að námi lauk.
Hún minnti jafnframt á að það væri e.t.v. ekki rétt að geyma þessa heimsókn sem oft hafði verið rætt um öllu lengur vegna hækkandi aldurs okkar. Elsa átti frænku, Kristínu, sem var í sama útskriftarárgangi frá MR 1960 og lagði til að hún kæmi með. Okkur fannst það góð hugmynd, enda þekktum við allar vel til hennar.
Ferðin til Noregs var algjört ævintýri, Stavanger skartaði sínu fegursta í sól og tuttugu stiga hita.
Ekki var það verra að Elsa bekkjarsystir, sem er arkitekt og hafði ílengst í Noregi eftir nám, starfaði að varðveislu gamalla húsa í bænum.
Hún var bæði gestgjafi okkar og leiðsögumaður þessa ógleymanlegu daga í Stavanger.
Skemmst er frá því að segja að Kristín féll strax mjög vel inn í hópinn, sem hefur haldið þétt saman alla tíð, og var henni boðið í „saumaklúbbinn“ okkar, Sínus.
Síðan þá höfum við hist reglulega og átt ómetanlegar ánægjustundir saman, farið saman í ótal ferðir út á land og til útlanda með hópum úr útskriftarárganginum frá MR 1960.
Jón eiginmaður Kristínar lést árið 2011, en þá hafði hún greinst sjálf nokkru áður með lungnakrabbamein.
Kristín tók þessum fréttum af æðruleysi og urðum við þess varla varar að hún breytti neinu í sínu daglega lífi.
Þrátt fyrir að lífið hafi ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum var hún ávallt glöð og jákvæð og naut þess að taka þátt í öllum uppákomum.
Kristín hélt áfram að halda heimili með þremur uppkomnum börnum sínum til síðasta dags. Hún tókst á við erfið veikindi undanfarinna ára með einstakri hugarró og kjarki og var ávallt jafn elskuleg.
Kristín er sú þriðja sem hefur kvatt úr þessum átta manna hópi sem fór til Noregs og hennar verður sárt saknað.
Blessuð sé minning Kristínar.
Börnum hennar og barnabörnum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Ella Kolbrún, Guðlaug, Kristín, Steinunn Kolbrún og Stella.