Þungavopn Þessar hábyssur frá bandaríska landgönguliðinu bíða þess að verða sendar austur til Úkraínu.
Þungavopn Þessar hábyssur frá bandaríska landgönguliðinu bíða þess að verða sendar austur til Úkraínu. — AFP/US MARINE CORPS/Royce H. Dorman liðþjálfi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Nú þegar rúm ein og hálf vika er liðin frá upphafi stórsóknar Rússa í Donbass-héruðunum, virðist sem Rússum hafi orðið lítt ágengt. Víglínan hreyfist lítið sem ekkert, og ýmislegt bendir til þess að sókn Rússa sé við það að renna út í sandinn, jafnvel áður en hún náði einhverju flugi.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Nú þegar rúm ein og hálf vika er liðin frá upphafi stórsóknar Rússa í Donbass-héruðunum, virðist sem Rússum hafi orðið lítt ágengt. Víglínan hreyfist lítið sem ekkert, og ýmislegt bendir til þess að sókn Rússa sé við það að renna út í sandinn, jafnvel áður en hún náði einhverju flugi.

Aðgerðum Rússa nú má skipta eftir þremur mismunandi svæðum. Aðalsókn þeirra er nú í Lúhansk- og Donetsk-héruðum, þar sem Rússar vilja ná yfirráðum yfir öllu því landsvæði sem tilheyrir þeim héruðum.

Þá stefna þeir að tangarsókn úr bæði norðri og suðri sem gæti lokað inni meginþorra þess herafla, sem Úkraínuher hefur til þess að verjast sókn Rússa frá Donbass-héruðunum, en áætlað er að það séu um 40.000 manns. Er sá herafli að meginstofni skipaður þeim, sem mesta bardagareynslu hefur.

Tangarsóknin úr suðri hefur ekki náð neinu flugi, en Rússum virðist hafa orðið mun betur ágengt í norðri, þar sem þeir sækja frá borginni Isíum og stefna að borgunum Barvinkoje og Slovíansk. Þá stefna þeir að því að umkringja borgina Rubisjne.

Í greiningu hugveitunnar Institute for the Study of War kemur fram að sókn Rússa þar græði einkum á tvennu, annars vegar að þeir hafi breytt um hernaðartaktík, þannig að nú fari þeir sér hægar en í fyrri sóknum, og svo hinu að sóknin liggur í raun fyrir aftan þau svæði, þar sem Úkraínuher hefur undirbúið varnir síðastliðin átta ár. Þar hefur Úkraínumönnum hins vegar tekist betur að halda aftur af sókn Rússa.

Enn barist í Maríupol

Í suðri eru Rússar enn að reyna að ná hafnarborginni Maríupol alfarið á sitt vald, en þjóðvegur liggur í gegnum borgina sem gæti tengt saman Krímskagann við yfirráðasvæði Rússa í austurhluta Úkraínu. Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti í síðustu viku yfir sigri Rússa í bardögum um borgina, þar sem mótspyrna Úkraínuhers virðist nú bundin við Asovstal-stálverksmiðjuna, en engu að síður berast enn fregnir af bardögum í borginni. Það skiptir máli, því að þær hersveitir Rússa sem þurfa að gæta borgarinnar nýtast þá ekki til aðstoðar í Donbass-héruðunum.

Í suðvestri eru Rússar svo að reyna að stöðva gagnsókn Úkraínumanna að borginni Kerson, sem var sú fyrsta af stórborgum Úkraínu til að falla í hendur Rússa. Þá þykir líklegt að Rússar myndu vilja geta hafið aftur sókn að hafnarborginni Ódessa, með það að markmiði að ná valdi yfir allri strandlengju Úkraínu, og um leið tengja yfirráðasvæði Rússa við Transnistríu, hérað rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í Moldóvu, en þar hefur spenna aukist í kjölfar sprenginga síðustu daga.

Mannaflaskortur hái Rússum

Gallinn frá sjónarhóli Rússa, er að þrátt fyrir að sókn þeirra suður af Isíum virðist ganga vel, hefur hún gengið of hægt til að raunhæft sé að hún nái því markmiði að loka Úkraínuher inni. Á sama tíma segjast Úkraínumenn hafa náð að eyðileggja rúmlega 111 skriðdreka og um 256 bryndreka frá því að Donbass-sóknin hófst.

Phillips B. O'Brien, prófessor í herfræðum við St. Andrews-háskóla, segir á Twitter-síðu sinni að slíkar tölur, jafnvel þó þær væru ofmetnar, bendi til þess að herstyrkur Rússa í austurhluta Úkraínu muni brátt fara dvínandi, og að þeir þurfi því að ná árangri í sókn sinni helst á næstu dögum.

Byggir hann mat sitt meðal annars á því að Rússar hafa einkum nýtt hersveitir sem náðu að flýja frá sókninni að Kænugarði til þess að styrkja sókn sína í austri, án þess þó að veita þeim þá hvíld sem hefði þurft til þess að byggja upp bardagaþrek þeirra að nýju. Þá er mikið af þeim hersveitum sem Rússar hafa sent til átakanna ekki í fullum styrkleika, en það er raunar algengt í miðju stríði að hersveitir séu ekki fullmannaðar miðað við skipulag þeirra á friðartímum.

Öllu má þó ofgera, og bandaríska varnarmálaráðuneytið áætlar að mikið af hersveitum Rússa séu nú bara með um 70% af þeim mannafla sem skipulag þeirra geri ráð fyrir. Til samanburðar má nefna að flestir herir á Vesturlöndum myndu telja hersveitir sem hafa einungis misst um 10% af mannafla sínum í slæmu ásigkomulagi, og að hersveitir með 70% af mannafla sínum væru ekki lengur taldar bardagahæfar.

Rússar glíma því í raun við skort á mannafla, en áætlað er að einungis um hundrað þúsund manns séu í herafla þeirra í Donbass-héruðunum, en það er svipað og Úkraínumenn eru sagðir hafa. Rússar höfðu á móti yfirhöndina í fjölda þungavopna, það er skriðdreka og bryndreka, sem og í beitingu stórskotaliðs á borð við eldflaugavagna og hábyssur (e. Howitzer), sem skotið geta hátt og langt fram á vígvöllinn.

Komin að þolmörkum?

Á sama tíma hafa Úkraínumenn greiðari aðgang að mannafla og baráttuandi þeirra hefur verið meiri en Rússa til þessa. Það sem þá hefur hins vegar skort eru þungavopn, enda hafa þeir ítrekað kallað eftir slíku frá vesturveldunum.

Síðustu daga virðist sem vesturveldin hafi svarað kallinu, þar sem til dæmis Bandaríkjastjórn hefur á síðustu vikum látið Úkraínumönnum í té vígbúnað, sem hefði þótt nær ótrúlegt fyrir nokkrum mánuðum að þeir myndu láta af hendi.

Þar á meðal eru hábyssur og drónar, sem geta nýst Úkraínumönnum til að svara eldflauga- og stórskotahríð Rússa, sem og varahlutir sem gera þeim kleift að halda flugher sínum gangandi lengur og þannig meinað Rússum að ná algjörum yfirráðum í lofti.

Vandinn fyrir Úkraínumenn og vesturveldin er hins vegar sá, að í nútímahernaði er hægt að fara ansi hratt í gegnum skotfæri og eldflaugar, og bendir ýmislegt til þess að vesturveldin séu farin að ganga allnærri sínum eigin birgðum.

Þannig tilkynnti vopnaframleiðandinn Raytheon að ekki yrði hægt að framleiða nýjar Stinger-eldflaugar, en þær hafa reynst vel gegn flugvélum og þyrlum Rússa, fyrr en á næsta ári, þar sem framleiðslu þeirra hafði verið hætt fyrir nærri tveimur áratugum og íhlutirnir fengust ekki lengur.

Þá er ekki víst að það magn af þungavopnum sem vesturveldin hafa sent eða muni senda dugi Úkraínumönnum til að snúa vörn í sókn. Það þykir því ólíklegt að Rússar muni geta náð markmiðum sínum í Donbass-héraði, og gæti sókn þeirra fjarað fljótlega út, líkt og hún gerði í norðri. En á sama tíma er alls óvíst hvort Úkraínumenn muni geta nýtt sér það til þess að hefja gagnsókn, nái Rússar ekki að knýja fram sigur.