Karítas Ríkharðsdóttir
Anton Guðjónsson
Tillaga um að hópuppsögn á skrifstofu Eflingar yrði dregin til baka var felld með 152 atkvæðum gegn 106 á félagsfundi stéttarfélagsins sem haldinn var í gærkvöldi. Stjórn stéttarfélagsins boðaði seint á sunnudagskvöld til fundarins eftir að félagsmenn höfðu knúið á um hann. Tilgangur fundarins var að fjalla um skipulagsbreytingar á skrifstofu félagsins en ákvörðun stjórnar Eflingar um að segja upp öllu starfsfólki skrifstofu sinnar hefur verið harðlega gagnrýnd.
Lófatak mátti heyra þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kom inn í salinn. Sólveig Anna opnaði fundinn og sagði að þrátt fyrir mismunandi skoðanir innan hópsins gætu allir verið sammála um að lýðræðisvæðing félagsins, sem hefði átt sér stað frá árinu 2018, væri jákvæð.
Sakaði Agnieszku og Ólöfu um leka
Strax í upphafi fundar var gerð athugasemd úr sal við tillögu Sólveigar Önnu um að hún sjálf myndi stýra fundinum. Mikill hiti virtist vera í fólki vegna tillögunnar en fundargestir hrópuðu og kölluðu sín á milli.Sólveig bað um traust og sagðist geta sjálf ráðið við að stýra fundinum. Niðurstaðan var þó að Halldór Oddsson, lögmaður ASÍ, var kjörinn fundarstjóri.
Sólveig Anna sakaði Agnieszku Ewu Ziólowska, varaformann Eflingar, og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, ritara í stjórn Eflingar, um að leka upplýsingum um hópuppsögnina í fjölmiðla. Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari í stjórn Eflingar, gerði athugasemd við það að dagskrá fundarins væri ekki í samræmi við það sem óskað var eftir samkvæmt undirskriftalista.
Kröfurnar snúist um enskukunnáttu
Átta starfsmenn hafa sótt um störf sín að nýju hjá Eflingu. Atvinnuauglýsingar fyrir störf þeirra sem sagt var upp hafa vakið athygli vegna nýrra hæfniskrafa, á borð við íslenskukunnáttu sem gerir mörgum erfitt að sækja um áframhaldandi starf á skrifstofu Eflingar.Sólveig sagði það ósvífnar árásir gegn sér, að halda því fram að Efling væri að losa sig við fólk sem ekki tali íslensku. Öllu fremur sé núna gerð krafa um að allir tali líka ensku.
Þá sagði hún það skjóta skökku við að starfsfólk, sem hefur skilað inn langtímaveikindavottorði, sæi sér fært að mæta á fundinn í gærkvöldi. Mikill hiti var í fundargestum fyrir en við þessi orð æstist salurinn enn frekar.