Olga Dibrova
Olga Dibrova
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Olgu Dibrovu: "Um tveggja mánaða skeið hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á miskunnarlaust þjóðarmorð Rússa á úkraínskri jörð. Mannfórnir rússnesku innrásarinnar eru skelfilegar og sannarlega aðhafðist þjóð mín ekkert það er ýti mætti undir þær hörmulegu stríðsaðgerðir."

Kæru íslensku vinir.

Með þessum línum bregst ég við nýlegum skrifum sendiherra Rússlands á Facebook og falast eftir eindregnum stuðningi íslensku þjóðarinnar við Úkraínu í því blóðbaði og þeirri skelfingu sem Rússar hafa gerst sekir um gagnvart þjóð minni frá 24. febrúar að telja og kalla má fordæmalausa síðan á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Um tveggja mánaða skeið hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á miskunnarlaust þjóðarmorð Rússa á úkraínskri jörð. Mannfórnir rússnesku innrásarinnar eru skelfilegar og sannarlega aðhafðist þjóð mín ekkert það er ýti mætti undir þær hörmulegu stríðsaðgerðir. Konur og börn hafa týnt lífinu, þúsundir óbreyttra borgara hafa mátt flýja heimili sín undan skefjalausu ofbeldi.

Engum dylst að með aðgerðum sínum í Úkraínu stefna stjórnarherrar Rússlands að því markmiði að eyðileggja úkraínsku þjóðina að einhverju eða öllu leyti. Að því markmiði er sótt með morðum og skefjalausu ofbeldi gagnvart Úkraínumönnum. Er þar engu eirt og börn okkar jafnvel nauðungarflutt á rússneskt landsvæði, rúmlega 121.000 börn eins og staðan er nú, höfum við eftir áreiðanlegum heimildum.

Horfið, pyntað, drepið

Enginn hörgull er á sönnunargögnum um þann hrylling sem rússneskur her hefur kallað yfir þjóð okkar og mætti þar svo dæmi séu tekin nefna borgirnar Bútsja, Irpín og Maríupol að ógleymdum dreifbýlishéruðunum Borodíanka, Hostomel og fjölda annarra staða þar sem morð hafa verið framin, fólk hefur horfið, verið fangelsað, pyntað og heilu fjölskyldurnar jafnvel verið teknar af lífi, jafnvel börn á flótta frá hernumdum svæðum í Donetsk, Kænugarði, Lúhansk, Sumy, Karkív, Kerson og Tsjernív svo eitthvað sé nefnt. Samtímis því er Úkraínumenn hafa hrifsað til baka hernumin svæði hafa æ fleiri voðaverk innrásarhersins verið afhjúpuð.

Rússar ráðast af einbeittum ásetningi gegn almennum borgurum, vinnustöðum og hlífa hvergi sjúkrahúsum, skólum og leikskólum svo sem nefna má dæmi um frá Maríupol þar sem sprengjum var varpað á sjúkrahús og leikhúsið þar sem borgarar höfðu leitað skjóls þrátt fyrir að sérstaklega væri merkt því að þar dveldu börn. Heilar borgir eru nú rústir einar, svo sem Volnovaka, Isíum, Maríupol, Oktíra, Tsjernihív, Skastíja og fleiri. Innrásarherinn hefur skaddað eða eyðilegt 14.000 íbúðarhús, 324 sjúkrahús, 1.141 menntastofnun og nær 300 leikskóla auk húsnæðis trúflokka, sveitabæja, landbúnaðarfyrirtækja og stjórnsýslu- og iðnaðarbygginga. Alls hafa Rússar valdið mismiklu tjóni á um þriðjungi allra innviða landsins, má þar nefna 300 brýr, 8.000 kílómetra af vegum, sem gera hefur þurft við eða leggja upp á nýtt, og tylft járnbrautarbrúa.

Þriðja mars var athugun hafin á framferði rússneskra stjórnvalda á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu með stuðningi 45 aðildarríkja og að undirlagi Úkraínu. Nefnd þriggja sérfræðinga, sem skipuð var hálfum mánuði síðar, komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem hún lagði fram 5. apríl, að með aðgerðum sínum á úkraínsku landsvæði gerðust rússnesk stjórnvöld brotleg við alþjóðlega mannréttindalöggjöf. Var þar enn fremur tekið fram að sú ákvörðun aðskilnaðarsinna í héruðunum Donetsk og Lúhansk, að lýsa þau alþýðulýðveldi, væri brot gegn ákvæðum alþjóðlegra mannréttindalaga um hernám. Þá hefur nefndin fundið áreiðanleg sönnunargögn um brot Rússa gegn grundvallarmannréttindum Úkraínumanna, það er réttinum til lífs og banni við pyntingum eða annarri niðrandi meðferð, á þeim svæðum sem hafa að hluta eða í heild lotið stjórn Rússlands.

Rússar hafa lagt undir sig eignir og valdið eyðileggingu á meðal annars innviðum rafmagns, vatns og húshitunar auk þess að standa í vegi fyrir mannúðaraðstoð og brottflutningi borgara sem fyrir vikið líða illilegan skort lífsnauðsynja um kalda vetrarmánuði, matar, vatns, hita og heilbrigðisaðstoðar. Þetta ástand er aðeins til þess fallið að valda þjáningum og tæringu fjölda almennra borgara víða um Úkraínu svo ekki sé minnst á nýlega flugskeytaárás á Kramatorsk-járnbrautarstöðina sem kostaði 52 mannslíf, þar af fimm líf barna. Þar fyrir utan særðust tugir og dvelja nú á sjúkrahúsum, þar á meðal börn sem misstu útlimi.

Að svelta almenna borgara til ávinnings í hernaðarskyni er ekkert annað en glæpur gegn mannkyninu. Hernám borga á borð við Maríupol og Tsjernív ber þeim ásetningi Rússa vitni að ætla sér að tortíma í það minnsta hluta úkraínsku þjóðarinnar.

Kalla þá „nasista“

Rússar halda því fram að þeir ætli sér að „afvæða nasisma“ í Úkraínu með aðgerðum sínum. Þau orð hafa þeir notfært sér til að tengja árás sína við tortímingu „nasista“ sem að þeirra skoðun búa í Úkraínu. Stjórnvöld í Rússlandi kalla þá Úkraínubúa „nasista“ sem styðja hugmyndina um sjálfstæða Úkraínu og berjast fyrir framtíð landsins í samfélagi Evrópuþjóða.

Þriðja apríl birti vefsíða rússnesku ríkisfréttastofunnar RIA Novosti grein undir fyrirsögninni „Það sem Rússland ætti að gera í Úkraínu“ og var því þar haldið fram að „afvæðing nasisma“ í Úkraínu ynni gegn hugmyndum um sjálfstæði landsvæða sem í ljósi sögunnar tilheyrðu Litla-Rússlandi og Nýja-Rússlandi.

Yfir 6.000 stríðsglæpir

Hið sanna markmið þessarar „afvæðingar nasisma“ í Úkraínu er að eyðileggja úkraínska þjóð og sérkenni hennar auk þess að vinna gegn möguleikum hennar til sjálfstæðrar þróunar og þess að tilheyra evrópskri blómstrun og öryggi. Rússar afneita fullkomlega því fjöldamorði sem þeir nú fremja í Úkraínu hvað sem öllum sönnunargögnum gegn þeim líður. Úkraínsk stjórnvöld hafa nú yfir 6.000 stríðsglæpi til rannsóknar í samstarfi við sérfræðinga á vegum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Heimsbyggðinni væri réttast að skella skollaeyrunum við fölskum málflutningi Rússa og hafa það hugfast að Rússland er árásaraðili og stjórnendur landsins eru stríðsglæpamenn. Úkraínumenn treysta á stuðning Íslendinga í sakaruppgjöri við alla þá sem gerst hafa sekir um hrottalega glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð í Úkraínu, þar á meðal rússneska stjórnmála-, viðskipta- og hernaðarleiðtoga, er staðið hafa fyrir falsfréttum, hindurvitnum og áróðri til að fela þann hrylling sem nú á sér stað, og hermenn og herstjórnendur sem nauðgað hafa úkraínskum konum og jafnvel börnum og bera ábyrgð á dauða og þjáningu þúsunda. Þar skal réttlætinu fullnægt.

Úkraína mun hafa sigur í þessu stríði. Við munum endurheimta okkar landssvæði og fullveldi. Úkraína mun verða aðildarríki Evrópusambandsins en til að þessi markmið náist verða allar siðaðar þjóðir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að Rússland verði svipt öllum ráðum sínum til að ráðast svo grimmilega gegn lífi, mannúð, reisn, stöðugleika og matvælaöryggi, því eyðilegging úkraínsks landbúnaðar ógnar ekki eingöngu fæðuöryggi íbúa þar, heldur gervallrar heimsbyggðarinnar.

Hluti af stríðsvélinni

Úkraína þakkar allan stuðning og aðstoð annarra ríkja. Mun ríkari aðgerða er hins vegar þörf til að stöðva rússnesku stríðsvélina og atlögu landsins gegn saklausu fólki. Alþjóðasamfélaginu er í lófa lagið að hindra glæpina með því að banna þegar í stað öll viðskipti með olíu og gas frá Rússlandi. Orkuútflutningur Rússa er þeirra helsta hagnaðarvon og þörf annarra þjóða fyrir hann helsta trygging stjórnenda landsins fyrir því að ríki þeirra sé ósnertanlegt. Þar með vona þeir að heimsbyggðin sé tilbúin að líta fram hjá stríðsglæpum herja þeirra. Allir rússneskir bankar eru hluti af stríðsvél landsins og styðja hana með einum eða öðrum hætti. Afnema þarf tengingu þessara banka við alþjóðahagkerfið. Það er fullkomlega óviðunandi að þeir sem standa á bak við helstu ógn öryggis í heiminum græði á tá og fingri.

Eins er aðild Rússlands að Sameinuðu þjóðunum hrein ógn gagnvart friði og öryggi í heiminum. Sú aðild stenst ekki lengur forsendur þess að tilheyra SÞ. Rússland er ekki friðsamt ríki, því bera alþjóðleg glæpastarfsemi og fullkomið virðingarleysi fyrir alþjóðalögum glöggt vitni. Úkraínumenn krefjast þess enn fremur að aðild Rússlands að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu verði að engu gerð, enda ógnar hún augljóslega öryggi og samvinnu í álfunni.

Komi fram sem siðuð þjóð

Í raun ætti að vísa Rússlandi úr öllum alþjóðastofnunum með því skilyrði að landið fái eingöngu aðild á ný verði öllum sekum stríðsglæpamönnum þar refsað og sjóðum og eignum Rússlands beitt í þágu þess að endurreisa Úkraínu auk þess sem Rússar komi fram sem siðuð þjóð á alþjóðavettvangi öllum.

Eins vil ég nýta tækifærið með þessum skrifum til að þakka af öllu hjarta fyrir þá aðstoð sem Ísland hefur látið í té, ekki síst mannúðaraðstoð og vernd gagnvart borgurum okkar og aðra aðstoð sem veitt hefur verið í samstarfi við önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Okkur dylst hvergi einurð Íslands við að halda uppi alþjóðalögum og -reglum. Gervöll Úkraína mun ávallt minnast stolts og hugrekkis íslenskrar þjóðar í þeirri aðstoð og þeim styrk sem þaðan barst á hreinni ögurstund.

Höfundur er sendiherra Úkraínu á Íslandi með aðsetur í Helsinki í Finnlandi.

Höf.: Olgu Dibrovu