Vinstri grænir vilja flýta borgarlínu fái þeir til þess umboð að loknum borgarstjórnarkosningum í næsta mánuði. Flokkurinn kynnti stefnumál sín í Úlfarsárdal í gær.
„Við ætlum að flýta borgarlínu og tryggja að vistvænir ferðamátar verði sjálfsagður valkostur borgarbúa,“ segir í kynningu á kosningaáherslum Vinstri grænna.
VG hefur hug á að nýta borgarlandið undir annað en mislæg gatnamót: „Mislæg gatnamót verði víkjandi í skipulagi borgarinnar því það er betra fyrir lífsgæðin að nýta borgarlandið undir húsnæði og græn útivistarsvæði.“
Eitt og annað kemur fram í kosningaáherslum framboðsins varðandi húsnæðismálin. VG ætlar að byggja 500-1.000 félagsbústaði á ári fyrir borgarbúa til viðbótar við húsnæðisáætlun borgarinnar. VG ætlar einnig að fjölga leiguíbúðum Félagsbústaða og íbúðum fyrir fatlað fólk um 700 á kjörtímabilinu.
Kosningaáherslur VG má lesa í frétt á mbl.is.