Morgunfundur Birgir fór meðal annars yfir stöðuna á flugvélamarkaði.
Morgunfundur Birgir fór meðal annars yfir stöðuna á flugvélamarkaði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Núna þegar þessi hræðilega innrás á sér stað í Úkraínu þá eru margar vestrænar flugvélar og flugvélaleigusalar sem brenna inni með flugvélar í Rússlandi og flugfélög í Rússlandi voru í miklum endurnýjunarfasa. Það eru því margar vélar frá Boeing og Airbus sem eru að koma nýjar út á markaðinn sem áttu að fara til Rússlands en eru ekki að gera það. Það er því mikil pressa á okkur og fleiri flugfélög að taka fleiri flugvélar. En þá komum við aftur að því sem er að vera með skýrt plan og láta ekki afvegaleiða sig eða plata sig út í eitthvað.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, í samtali í Dagmálum í dag. Hann segir að félaginu hafi á undanförnum vikum boðist að taka á leigu ýmsar flugvélar, m.a. breiðþotur.

Birgir viðurkennir að freistingarnar séu við hvert fótmál og að hann og aðrir forystumenn flugfélagsins þurfi að halda skýrum fókus til þess að standast þær. Það séu ekki aðeins spennandi og nýjar vélar sem séu í boði heldur einnig gott verð, enda helsta markmið flugvélaleigusalanna að koma vélunum úr sínum bókum og ábyrgðinni yfir á flugfélögin.

„Það er hættulegt að vera ekki markaðsleiddur í hugsun sinni. Auðvitað á það að vera þannig að maður sér eftirspurn og finnur flugvél til að fylla upp í hana. Það er svo ofboðslega hættulegt að vera framleiðsludrifinn, taka vélina og finna svo eftirspurnina.“

Birgir segir að í þessari stöðu sé það að sanna styrk sinn að hafa félagið á markaði og að þúsundir eigenda séu að því. Mikilvægt sé að halda kúrs og hvika ekki frá stefnunni sem mörkuð hefur verið.

„Þótt við séum að vaxa hratt svona þá ætlum við að halda okkur við þetta plan og teljum okkur vera með gríðarlega flottan flota og búin að tryggja okkur vélar langt undir markaðsverði til 10 til 12 ára.“

Skráð félag sterkara

Spurður út í stöðuna á flugmarkaði, nú þegar Play hefur hafið farþegaflutninga til og frá Bandaríkjunum, segir Birgir að viðbrögðin við innreið félagsins á markað hafi verið góð. Tugir þúsunda manna hafi nú þegar pantað miða með félaginu. Þá segir hann stefna í sterkt ferðamannasumar á Íslandi. Þegar tölur um áætlaðan ferðamannafjölda á þessu ári og því næsta, sem flestar hafa verið á bilinu 1,1-1,3 milljónir á þessu ári og í kringum 1,5 milljónir á því næsta, segir Birgir að hann telji tölurnar vanáætlaðar. Gera megi ráð fyrir meiri fjölda, jafnvel þótt ekki stefni í að Play og Icelandair verði á næstu árum komin með jafn stóran flota og síðarnefnda félagið og WOW air voru komin með á árinu 2018 þegar 2,3 milljónir ferðamanna sóttu landið heim.

Gengur vel að manna stöður

Mörg ferðaþjónustufyrirtæki eiga nú í vandaræðum með að manna stöður fyrir sumarið. Birgir segir þann vanda ekki uppi hjá Play. Margar umsóknir séu um hvert auglýst starf og hópurinn sem fyrirtækið hefur á að skipa sé öflugur. Hann segir að þar spili margt inn í.

„Hvað sem hver segir þá eru þetta vel launuð störf.“ Hann bendir þó á að mikil vinna liggi að baki laununum og ekki sé sjálfgefið að fólk geri það að ævistarfi sínu að þeysast um loftin blá.

Mikill áhugi og góð mæting í Hádegismóa

• Viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins bauð meðlimum sínum á opinn fund Það voru margir og ánægðir gestir sem mættu á fund sem viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins, Kompaní, stóð fyrir í höfuðstöðvum blaðsins í Hádegismóum í gærmorgun. Þetta er í fyrsta sinn frá því í nóvember 2019 sem haldinn er morgunverðarfundur með þessum hætti, en þeim var slegið á frest á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir og var starfsemi klúbbsins og þjónusta við meðlimi hans með öðrum en virkum hætti á meðan.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, var gestur fundarins og ræddi þar við Stefán Einar Stefánsson, fjölmiðlamann á Morgunblaðinu, um aðdraganda þess að hann gerðist forstjóri félagsins, upphafið á flugi til Bandaríkjanna, rekstur og stöðu flugfélagsins nú, horfurnar fyrir sumarið og margt fleira. Í kjölfarið steig Sóli Hólm skemmtikraftur á svið og flutti gamanmál eins og honum einum er lagið við góðar undirtektir fundargesta.

Viðskiptaklúbbi Morgunblaðsins og mbl.is er ætlað að sameina starfandi fólk á Íslandi. Kompaní er vettvangur miðla Árvakurs til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu þar sem hægt er að hlýða á fræðslufundi og fyrirlestra, fylgjast með nýjungum og fleira.