Jónas Elíasson
Jónas Elíasson
Eftir Jónas Elíasson: "Ástand samgöngumála er orðið slæmt vegna tafa sem vaxa mjög hratt, tafakostnaður mikill og Reykjavík stendur gegn umbótum."

Nú er stutt til kosninga og vandamál borgarinnar ættu að vera í umræðunni en eru það ekki. Borgarstjóri minnist tæplega á þau vandamál sem hrúgast upp. Skuldir borgarinnar eru komnar langt fram úr greiðslugetu borgarsjóðs. Vandi umferðartafanna stækkar hratt, tafakostnaðurinn er nú 50-60 milljarðar á ári. Borgarstjórnin boðaði fyrir mörgum árum allsherjarlausn, borgarlínu, en nú er annað komið í ljós, hún eykur vandann. Óbein játning á þessu liggur fyrir, það er ákvörðun Strætó bs. að draga saman þjónustuna eins og nýlega var gert. Líka var farið í miklar framkvæmdir við að leggja hjólastíga og gangstéttir sem áttu að draga úr bílaumferð, en sú stéttabarátta skilar engu nema kostnaði.

Pólitískar og faglegar orsakir

Það fer ekki á milli mála að orsakir þessa vanda eru bæði pólitískar og faglegar. Í áraraðir hefur engin áhersla verið lögð á að halda uppi faglegum styrk borgarkerfisins, en þeim mun meiri áhersla lögð á kreddupólitík, t.d. baráttu til að fækka bílum sem engu hefur skilað. Hvatt var til hjólreiða og gönguferða, sem hefur borið þann árangur að fleiri hjóla og ganga sér til heilsubótar um helgar, en áhrifin á samgöngurnar eru nákvæmlega engin þótt Reykjavík sé að birta tölfræði sem á að benda til hins gagnstæða. Þá er ótalin skipulagsvillan að banna öll mislæg gatnamót en raða niður umferðarljósum í staðinn og halda þannig þjóðvegakerfi höfuðborgarsvæðisins í gíslingu á hálfum afköstum. Það kostar tiltölulega fá mislæg gatnamót til viðbótar þeim mörgu sem fyrir eru að laga þetta og koma umferðinni í sæmilegt lag. Ein mislæg gatnamót eins og Reykjanesbraut/Bústaðavegur laga mikið og borga sig upp á innan við ári.

Bætir í loftslagsvandann

Þessi afstaða Reykjavíkurborgar veldur mikilli umframeyðslu á bifreiðaeldsneyti. Þetta hefur ekki verið rannsakað vel, það er líka töluverð vinna, en verðugt samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Samgöngustofu. Mun betra verkefni en að teikna borgarlínu, hún bætir bara í þennan vanda. Bílar í hægagangi eyða miklu eldsneyti umfram þörf, minnsta eyðsla á kílómetra er á 60-80 km/klst. hraða. Í fljótu bragði má áætla að umframeldsneytiseyðsla vegna umferðartafa sé 10.000-20.000 tonn á ári. Þetta samsvarar kolefnislosun allt að 60.000 tonn á ári af CO 2 , til viðbótar kemur ryk og önnur mengun. Það verður að ætlast til að Reykjavík komi með mótvægisaðgerðir sem virka. Ef ekki, geta þessar tölur þrefaldast á tiltölulega stuttum tíma.

Bættar almenningssamgöngur

Þetta er orðið mantra sem stjórnmálamenn hafa hver upp eftir öðrum án þess að gera sér grein fyrir raunveruleika málsins. Þeir halda allir að ekkert sé hægt að gera nema byggja borgarlínu. Hún er framlenging á núverandi strætókerfi á mjög dýrum sérakbrautum sem geta ekkert gert nema koma í veg fyrir seinkanir, þær eru mjög litlar. Strætó stendur sig vel og seinkar mjög lítið. Hvernig á þá að bæta kerfið? Bandarískur sérfræðingur lýsti því í fyrirlestri 2015 (sjá Þórarin Hjaltason, Mbl. 12. apríl 2022), en enginn hjá Reykjavíkurborg virðist muna eftir þeim fyrirlestri í dag, sem verður að teljast slæm fagleg villa. Aðalatriðið í hans tillögum til að bæta almenningssamgöngur var einfalt; þétta ferðir, og láta reynsluna af því segja til um næsta skref í ferlinu. Enga nýja stóra vagna, engar sérbrautir nema samkvæmt þörf og þá hægra megin. Og hér má bæta við: ekkert í hans fyrirlestri ýtti undir stórt borgarlínustökk í anda Maó Tse, þ.e.a.s. þreföldun á farþegafjölda í einni svipan.

Hvað með framtíðina?

Ætlar borgarstjórn Reykjavíkur einhvern tíma að hætta að búa til dýra loftkastala og hætta mistökum eins og viðgerð á bröggum eða byggingu á sorpmóttökustöð o.fl.? Menn geta haldið að nóg sé komið af klúðri og nú hljóti að verða breyting á en það þarf ekki að vera. Samgöngumálin eru þar í mikilli hættu eins og rakið hefur verið en fleira kemur til. Sem dæmi má taka að nú stendur til að byggja nýtísku sorpbrennslustöð í staðinn fyrir móttökustöðina Gaju sem ekki virkar. Þetta er 30 milljarða verkefni og möguleikarnir á mistökum endalausir; þar eru bæði staðarvalið, hönnunin og reksturinn sem þurfa að ganga upp. Þetta eru faglega mjög vandasöm verkefni, fagleg þekking og stjórnunargeta hjá þeim sem er að byggja verður að vera fyrir hendi svo ekki fari allt úrskeiðis. Er hún það?

Höfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com