Anna Kristín Haraldsdóttir fæddist 21. júlí 1957. Hún lést 15. apríl 2022.

Útför Önnu fór fram 28. apríl 2022.

Ein af perlum Breiðholtsins hefur haldið á vit nýrra ævintýra. Anna Kristín bjó um sig í hjörtum okkar Leikniskvenna með endalausri jákvæðni, gleði og hjálpsemi svo ekki sé minnst á hlýju og áhugasemi um líf okkar allra og störf. Alltaf var gaman að mæta þessari perlu sem Anna Kristín var hvort sem það var við blaðaútburð eldsnemma dags, í Breiðholtslauginni eða við hin ýmsu sjálfboðaliðastörf í Leiknishúsinu. Anna var alltaf boðin og búin til aðstoðar við hverfisfélagið og var hún ötull sjálfboðaliði upp alla yngri flokka Leiknis, sem hélt svo áfram inn í meistaraflokksstarfið. Ekki var nú mikið mál fyrir

Önnu að hrista fram úr erminni eins og tvær súkkulaðikökur með frosting-kremi sem allir leikmenn félagsins og svo síðar fjölskyldur þeirra elskuðu og elska enn, enda er uppskriftin nú til á mörgum heimilum Leiknisfólks og gleður marga í þeim veislum sem haldnar eru á heimilum þeirra. Það var alltaf stutt í glensið og gamanið hjá Önnu og skemmtum við okkur oft konunglega á hinum ýmsu skemmtunum Leiknis og þá klikkaði

Anna aldrei á að mæta með hnetur og snakk á borðið sitt því það var nauðsynlegt að hafa slíkt slikkerí við höndina með drykkjunum þegar líða tæki á kvöldið. Um miðjan aldur dreif hún sig í nám og útskrifaðist sem sjúkraliði og undi hún hag sínum vel við þau störf og erum við allar sannfærðar um að heilbrigðiskerfið á Íslandi var svo sannarlega ríkara fyrir vikið fyrir að hafa hana í sínum röðum. Áður en hún tók þetta skref réð hún sig til vinnu á leikskólanum Hólaborg og hafði hún oft á orði að hún skildi nú bara alls ekki hvernig nokkur maður gæti unnið við þessi störf, alltaf sagt með glettni og mikilli virðingu gagnvart þeim sem þessum störfum sinna. Erum við nokkrar í þessum hópi sem deilum þessari sýn og þökkum við fyrir að til er fólk sem virkilega elskar þessi störf rétt eins og Anna fann sig svo vel innan heilbrigðisgeirans. Við Leikniskonur eigum margar skemmtilegar og dýrmætar minningar um eina af skærustu perlum Breiðholtsins og gleði Önnu, umhyggjusemi og væntumþykjan sem einkenndi hana endurspeglast í því að þessi hópur samanstendur af konum sem ekki unnu allar með henni að málefnum Leiknis á sama tíma heldur nutum við samvista við hana jafnt og þétt yfir langt tímabil, konur komu og fóru, sumar hafa verið allan þennan langa tíma og er það einna helst Önnu okkar að þakka að samheldni hópsins hélst og við allar kunnugar, hún var dugleg að hóa okkur saman til að hittast og gera eitthvað skemmtilegt utan við Leiknisstarfið. Elsku Dóri, Haraldur, Hilmar Árni og Hörður Brynjar, Leiknisfjölskyldan öll finnur svo sannarlega til með ykkur í þessu verkefni, missir ykkar er mikill og söknuðurinn sár. Elsku Anna Kristín, komið er að leiðarlokum, hafðu þökk fyrir lífsgleði þína, umhyggju, alúð og hjálpsemi. Þú gerðir líf okkar allra svo sannarlega ríkara með því einu að vera þú sjálf. Ein af skærustu perlum Breiðholtsins og lést svo sannarlega til þín taka.

Hinsta kveðja frá Leikniskonum,

Ágústa, Berglind, Björk,

Elísabet Ólöf, Ellen Klara, Feldís Lilja, Guðný, Halla, Hanna Júlía, Hrafnhildur, Hulda, Ingibjörg, María, Ólafía Katrín, Sigrún,

Þórunn Ýr.

Anna Kristín var skemmtileg, fyndin og jákvæð. Hún var æskuvinkona Binnu, konunnar minnar, og við áttum samleið í meira en 40 ár. Þær vinkonurnar héldu þétt saman í gegnum lífið, töluðu mikið saman og vissu alltaf hvor af annarri. Hún var okkur traustur vinur og alltaf til staðar þegar á reyndi.

Við hjónin áttum ótal góðar stundir með þeim Önnu Kristínu og Halldóri Árna, sumar hátíðlegar en aðrar hversdagslegar eins og gengur. Oftast heima en líka á ferðalögum innanlands og erlendis.

Hún var dugnaðarforkur sem lét ekkert stöðva sig. Starfaði lengi hjá Íslandsbanka en skipti um starfsvettvang fyrir nokkrum árum, fór í nám og vann sem sjúkraliði eftir það.

Hún var alltaf töffari sem naut þess að gleðjast í góðra vina hópi langt fram á kvöld, en hljóp svo langhlaup morguninn eftir, eða synti kílómeter, eins og ekkert væri. Stefndi á Landvættakeppnina þegar hún veiktist fyrir rúmu ári.

Persónuleiki hennar var þannig að hún eignaðist marga vini, hún var opin, hress og hafði einstakt lag á því að horfa á björtu hliðarnar. Líf hennar snerist öðru fremur um fjölskylduna, einkum um strákana hennar – synina Harald, Hilmar og Hörð – sem hún var svo stolt af og voru henni endalaus uppspretta gleði og ánægju, á hverju sem gekk.

Eins og gengur meðal fólks á fullorðinsárum minnum við vinirnir og jafnaldrarnir hvert annað stöðugt á að lifa lífinu núna, því enginn viti hversu lengi við munum geta notið samvista. Sorg okkar vegna andláts Önnu Kristínar er harkaleg áminning um þetta. Hún var hreystin uppmáluð og hvarflaði ekki að okkur annað en árin fram undan með henni yrðu mörg og skemmtileg. En þá veiktist hún af ólæknandi krabbameini sem tók hana frá okkur, og lífið sjálft frá henni. Hún kvaddi allt of snemma og hennar er sárt saknað.

Með þakklæti fyrir allar góðu minningarnar um Önnu Kristínu sendi ég Halldóri Árna, sonum hennar, Haraldi, Hilmari og Herði og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Guðjón Arngrímsson.