Vindrafstöð Franska fyrirtækið Qair er langt komið með rannsóknir vegna uppbyggingar í Sólheimum.
Vindrafstöð Franska fyrirtækið Qair er langt komið með rannsóknir vegna uppbyggingar í Sólheimum.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Deilt hefur verið um það hvort vindorkan ætti að vera inni í rammaáætlun. Nú er kominn úrskurður um það. Boltinn hjá Alþingi,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Deilt hefur verið um það hvort vindorkan ætti að vera inni í rammaáætlun. Nú er kominn úrskurður um það. Boltinn hjá Alþingi,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar. Innviðaráðuneytið hefur synjað því að staðfesta breytingar á aðalskipulagi Dalabyggðar og Reykhólahrepps varðandi þrjú vindorkuver í þessum sveitarfélögum.

Áformað er að byggja vindorkuver á jörðunum Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dalabyggð og Garpsdal í Reykhólahreppi. Í nokkur ár hefur verið unnið að breytingum á skipulagi til að gera þessi áform möguleg, það er að segja að breyta hluta af landi jarðanna í iðnaðarsvæði. Báðar sveitarstjórnirnar samþykktu breytingarnar á síðasta ári þrátt fyrir ábendingar Skipulagsstofnunar um að standa ætti öðruvísi að málum.

Eru í raun í biðflokki

Skipulagsstofnun neitaði að staðfesta aðalskipulagsbreytingarnar og vísaði þeim til innviðaráðherra með því áliti að synja bæri staðfestingar.

Rökin eru þau að aðalskipulagið samræmdist ekki lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, svokallaða rammaáætlun, þar sem enginn af þessum þremur vindorkukostum væri í gildandi rammaáætlun. Jafnframt var á það bent að slík svæði skuli lúta sömu reglum og virkjanakostir í biðflokki rammaáætlunar. Þá var á það bent að samkvæmt skipulagsreglugerð skuli svæði í biðflokki skilgreind sem varúðarsvæði í aðalskipulagi.

Sveitarfélögin kröfðust þess að ráðuneytið staðfesti breytingu á aðalskipulagi vegna vindorkuveranna. Dalabyggð benti á að í því fælist stefnumörkun sveitarfélagsins um að það væri möguleiki að reist yrðu vindorkuver á umræddum stöðum. Ekki væri verið að veita heimildir til slíkra framkvæmda. Á það myndi reyna á síðari stigum leyfisveitingaferlis.

Eins og oft hefur komið fram er vinna við rammaáætlun í mikilli klemmu, sérstaklega vegna þess að Alþingi hefur ekki afgreitt tillögur verkefnisstjórna í mörg ár. Jafnframt hefur verið deilt um það hvort vindorkan falli með réttu undir rammaáætlun og var bent á þá óvissu í greinargerð Dalabyggðar. Skipulagsstofnun væri ekki stætt á að setja skilyrði er lytu að tengslum skipulagsáætlunar við ákvæði laga um rammaáætlun.

Innviðaráðuneytið féllst á sjónarmið Skipulagsstofnunar og synjaði því að staðfesta breytingar á aðalskipulagi þessara tveggja sveitarfélaga í þágu vindorkuveranna þriggja.

Eyjólfur Ingvi reiknar með að sett verði ákvæði um varúðarsvæði í aðalskipulagsbreytinguna, til að fullnægja kröfum Skipulagsstofnunar, til þess að skipulagið fáist staðfest. Ákvæði um varúðarsvæði í skipulagsreglugerð eiga við þegar náttúruvá eða önnur hætta er fyrir heilsu og öryggi almennings, svo sem vegna mengandi atvinnustarfsemi.

Ljóst er þó að þessi niðurstaða mun seinka því að vindorkuver geti orðið gildur liður í orkuöflun landsins vegna orkuskipta.

Ámælisverður dráttur

Í úrskurði innviðaráðuneytisins er fundið að seinagangi í afgreiðslu Skipulagsstofnunar á skipulagsbreytingunum. Í tilfelli Dalabyggðar var tillaga um breytingar send stofnuninni 19. apríl á síðasta ári. Ráðuneytið fékk þó ekki tillögu um að synja staðfestingu breytinganna fyrr en 4. janúar, eða nálægt átta mánuðum síðar en lög kveða á um fjögurra vikna frest. Telur ráðuneytið þennan drátt á afgreiðslu tillögunnar ámælisverðan.