Heildartekjur Icelandair Group á fyrsta fjórðungi ársins námu um 20,3 milljörðum króna. Tekjur félagsins hafa þannig rúmlega þrefaldast á milli ára en á sama tímabili í fyrra var starfsemi félagsins í lágmarki vegna kórónuveirufaraldursins.

Heildartekjur Icelandair Group á fyrsta fjórðungi ársins námu um 20,3 milljörðum króna. Tekjur félagsins hafa þannig rúmlega þrefaldast á milli ára en á sama tímabili í fyrra var starfsemi félagsins í lágmarki vegna kórónuveirufaraldursins. Tap félagsins á tímabilinu nam um fimm milljörðum króna. Lausafjárstaða í lok mars var 49 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri nam 10,7 milljörðum króna.

Í uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung sem Icelandair birti í gær kemur fram að flugframboð á tímabilinu hafi verið um 58% af því sem það var árið 2019 og að sætanýting félagsins á þessum fyrsta fjórðungi ársins hafi verið um 67,2% þrátt fyrir neikvæð áhrif ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Þá kemur einnig fram að tæplega 200 starfsmenn hafi verið ráðnir til starfa á tímabilinu. Icelandair flutti um 422 þúsund farþega á fyrsta fjórðungi þessa árs, samanborið við 66 þúsund farþega á sama tíma í fyrra.

„Afkoma fjórðungsins var í takt við væntingar stjórnenda en ýmsir þættir höfðu áhrif á rekstrarniðurstöðuna, svo sem mikil hækkun eldsneytisverðs, áhrif ómíkron-afbrigðisins á eftirspurn og umtalsverður útlagður kostnaður á fjórðungnum í tengslum við undirbúning metnaðarfullrar flugáætlunar okkar í sumar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í uppgjörstilkynningu.