Erna G. Sigurðardóttir fæddist á Garðsá Fáskrúðsfirði 16. maí 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 6. apríl 2022.

Foreldrar Ernu voru Sigurður Karlsson frá Garðsá, f. 29. mars 1904, d. 12. ágúst 1972, og Kristín Sigurðardóttir frá Hafnarnesi, f. 6. október 1906, d. 27. maí 1981. Systkini Ernu voru tíu, fallin frá eru; María Sigþrúður, Karl Emil, Jórunn Þórunn, Rafn, Jón, Ásta og Ágúst Heiðar og eftirlifandi eru; Óskar, Oddný Fjóla og Valgerður Jóna.

Erna ólst upp í Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð og flutti til Reykjavíkur árið 1953.

Fyrri eiginmaður Ernu var Björgvin Óskarsson, f. 8.12. 2027, d. 16.12. 1965. Synir þeirra eru Óskar, f. 29.9. 1958, maki Dórathea Margrétardóttir, sonur hennar er Hlynur Örn Ingason. Hafsteinn, f. 17.3. 1961, maki Linda Andrésdóttir, dætur Hafsteins eru Erla Björg, Kristín og Hólmfríður. Erna og Björgvin bjuggu á Drafnarstíg í Reykjavík.

Árið 1969 flutti Erna að Tilraunastöðinni Sámsstöðum sem ráðskona og giftist 1974 síðari manni sínum, Kristni Jónssyni ráðunaut, f. 14.4. 1926, d. 12.4. 2005. Árið 1994 fluttu Erna og Kristinn á Birkivelli 32 á Selfossi. Erna bjó þar til ársins 2020 er hún flutti á hjúkrunarheimilið Skógarbæ þar sem hún lést 6. apríl sl. Barnabörn Ernu eru þrjú og barnabarnabörnin eru sex.

Útför Ernu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 29. apríl 2022, klukkan 14.

Í dag er elsku tengdamóðir mín jarðsett. Þau orð sem mér finnst lýsa henni best eru myndarlegur dugnaðarforkur. Það lék allt í höndunum á henni, hvort sem það var útsaumur, prjón, hekl eða postulínsmálun. Hún skilur eftir sig nokkra útsaumaða stóla og fagurlega málað postulín.

Heimilið hennar var ætíð snyrtilegt og ósjaldan sem boðið var upp á veisluborð þegar komið var í heimsókn. Þegar dætur okkar hjóna voru yngri þá var alltaf tekið vel á móti okkur, afi með spilin, tilbúinn í ólsen-ólsen með stelpunum og amma að baka pönnukökur og hita súkkulaði. Ekki þótti manni slæmt þegar amma hringdi og spurði hvort stelpurnar mættu koma í heimsókn um helgi og þá voru sögurnar sem þær komu með til baka að farið var til hestanna eða út í náttúruna með nesti.

Bestu stundirnar með Ernu voru þegar hún sagði sögur frá uppvexti sínum í Hafnarnesinu en hún var alin upp í franska spítalanum sem síðar var fluttur til Fáskrúðsfjarðar og er nú hótel þar. Þar bjuggu fimm fjölskyldur ásamt því að rekinn var skóli í húsinu.

Lífið var ekki alltaf auðvelt hjá henni en hún varð ekkja tvisvar. Aðeins 33 ára varð hún ekkja með tvo unga syni. Ég held að það hafi verið mikil gæfa fyrir hana þegar hún réð sig sem ráðskonu að Sámsstöðum í Fljótshlíð og giftist síðan Kristni Jónssyni sem þá var tilraunastjóri þar.

Takk fyrir allt, elsku Erna, hvíl í friði.

Linda Andrésdóttir.

Elsku amma mín.

Ég vona að þú hafir farið friðsæl inn í draumlandið og sért nú sameinuð afa sem þú varst án í allt of mörg ár. Ég veit að þú saknaðir hans mikið þó að þú talaðir lítið um það. Þú lékst stórt hlutverk í mínu lífi og uppeldi og kenndir mér svo ótrúlega margt sem ég er svo þakklát fyrir. Allar stundirnar í sveitinni þar sem þú kenndir mér til að mynda að sauma út, prjóna og lesa svo fátt eitt sé nefnt. Þú varst alltaf svo myndarleg og dugleg og allt sem þú gerðir gerðir þú af heilum hug, hvort sem það var að sauma út, mála postulín, halda heimili eða dekra við aðra í kringum þig og láta þeim líða vel. Undantekningarlaust þegar ég kom í sveitina til þín og afa á yngri árum þá varst þú búin að undirbúa komu mína og elda uppáhaldsmatinn minn, slátur og kartöflumús með kakósúpu og tvíbökum í eftirrétt. Þú gerðir bestu pönnukökurnar og svo ljúffengt heitt súkkulaði, það var aldrei hægt að leika þetta eftir, það bara bragðaðist alltaf best hjá þér. Þú og afi voruð dugleg að fara með mig í styttri ferðir um sveitirnar og í ferðalög um landið þegar ég var yngri og á ég margar skemmtilegar minningar. Berjamór, gönguferðir og ég tala nú ekki um skiptið sem ég fékk þig til að sofa í tjaldi með mér, sem var nú reyndar bara gert einu sinni. Ég man hvað það var gaman hjá okkur þegar við fórum til útlanda í ferðalög og hvað þú elskaðir sólina. Við áttum vel saman, flatmagandi í sólinni á Spáni. Svo má nú ekki gleyma verslunarferðinni góðu til London þar sem þú gafst okkur hinum ekkert eftir þegar kom að því að kaupa nýjustu tísku. Vinkonur mínar sem flugu með okkur heim höfðu orð á því við mig hvað þú værir mikil skvísa. Og það var alveg rétt hjá þeim, þú varst alltaf svo fín og flott. Langömmubörnin sakna þín, en þau eru lánsöm að hafa öll fengið að kynnast þér. Þér leiddist nú ekki að bera fram kræsingar ofan í þau og spila svo veiðimann við uppáhaldið þitt. Elsku amma, ég er svo þakklát fyrir yndislegt samband okkar og allar hugljúfu minningarnar sem ég geymi um þig. Þú varst sannarlega búin að skila þínu og ég veit að þú munt vaka yfir okkur.

Þín

Erla.

Það var ein mesta gæfa mín á unglingsárunum að komast í sveit til þeirra Ernu og Kristins á Tilraunastöðinni á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Þar var ég í sex sumur á sjö árum, sem segir sína sögu um það hve vistin var góð.

Erna var þá ung ekkja með tvo unga syni, Óskar og Hafstein. Hún kom sem ráðskona að Sámsstöðum fljótlega eftir að Kristinn tók við stjórn tilraunastöðvarinnar. Sameiginlegir vinir beggja áttu þátt því því heillaspori fyrir þau bæði. Þau náðu saman á sinn hægláta hátt og gengu í hjónaband eftir fáein ár.

Erna var gagnmenntuð og reynd á sviði hússtjórnar og heimilið á Sámsstöðum rekið með slíkum myndarbrag að erfitt er að ímynda sér það betra. „Margar hendur vinna létt verk,“ sagði Erna og kenndi okkur krökkunum að taka þátt í heimilishaldinu áreynslulítið.

Erna var ættuð frá Fáskrúðsfirði og átti þar góðar rætur. Hún kom sér alls staðar vel. Mér er minnisstætt þegar vinkona hennar kom eitt sinn í heimsókn til hennar og dvaldi um helgi. Hún vildi fullvissa sig um að ég kynni vel að meta Ernu og á því lék aldrei vafi.

Fjölskyldan á Sámsstöðum var mín önnur fjölskylda árum saman. Synir Ernu voru yngri bræður, vinir og vinnufélagar mínir. Hlýir eins og móðir þeirra og miklir dýravinir. Erna kenndi margt, bæði í heimilishaldi og mannlegum samskiptum. Fjölskyldan öll tók því vel hvað ég sótti til hennar og var um áramót og í próflestri hjá þeim. Síðasta sumarið mitt á Sámsstöðum var ég trúlofuð og farin að búa, en í sveitina mína fór ég. Við Ari héldum tengslunum áfram og komum til þeirra Ernu og Kristins bæði á Sámsstaði og á Selfoss.

Þau hjónin komu í fermingarveislu Hönnu okkar og mikið varð ég glöð þegar Erna leit með velþóknun yfir vel lukkaðar veitingarnar, sem ættingjar og tengdafólk mitt áttu miklu meiri hlut í en ég sjálf. Ætli hana hafi ekki grunað það!

Er við Hafsteinn unnum í sama húsi fyrir átta árum sagði hann að heilsu móður hans væri farið að hraka. Og nú er hún gengin ævina á enda. Tíðindi komu mér ekki í opna skjöldu þökk sé góðum hjónum úr Fljótshlíð sem sögðu mér tíðindin er við hittumst af tilviljun fyrir skemmstu.

Gæfan mín að fá að verða hluti af þessari góðu fjölskyldu verður seint fullþökkuð. Tengsl Ólafs fóstra míns við stofnanir landbúnaðarins og fjarlæg frændsemin við Kristin, sem við hjálpuðu til að það gæti orðið að veruleika. Erna stríddi okkur mikið þegar við fórum að skoða frekar ómerkilegar rústir „ættaróðals“ Bolholtsættarinnar. Get ekki annað en hlegið með henni að minningunni. Hún var oft svo létt í skapi og skemmtileg en allt gaman græskulaust. Rætni var ekki til í hennar fari.

Fjölskyldan og vinir mínir voru alltaf velkomin á Sámsstaði þegar ég var þar og ávallt var mjög kært með fólkinu okkar. Vinkonum mínum verður það ævinlega ljóslifandi í minni af hvílíkum höfðingsskap var tekið á móti þeim þegar þær komu við í sveitinni minni.

Elsku Óskar og Hafsteinn og fjölskyldur ykkar. Takk fyrir allt og sérstaklega fyrir að unna mér þess að eignast hlutdeild í lífi allra og fá að eiga hana mömmu ykkar að.

Anna.

Ég hitti Ernu Sigurðardóttur fyrst vorið 1975 þegar ég kom að tilraunastöðinni á Sámsstöðum í Fljótshlíð til að vera sumarstarfsmaður þar. Reyndar fór það svo að ég vann þar í nokkur sumur.

Þá var Kristinn Jónsson tilraunastjóri og Erna kona hans sá um matseld og ýmsa þjónustu við starfsfólkið. Ég á góðar minningar um þessi sæmdarhjón sem reyndust mér mjög vel. Kristinn féll frá árið 2005 en nú hefur Erna kvatt þennan heim líka. Erna var lagleg kona og alltaf vel tilhöfð. Það sama má segja um heimilið á Sámsstöðum, það var afar hreint og snyrtilegt. Þessi snyrtimennska og fagmennska Ernu kom fram í öllum hennar verkum.

Allar máltíðir sem hún eldaði voru gerðar af listfengi og natni og það skipti ekki máli hverjir áttu að borða matinn. Henni tókst að laða það besta fram úr hráefninu sem hún hafði undir höndum og maturinn var alltaf vel fram borinn.

Fólk sem leggur slíka alúð í störf sín og framkomu hefur bætandi áhrif á umhverfi sitt og sýnir öðrum virðingu um leið. Þetta fannst mér einkenna líf Ernu. Ég færi henni þakkir fyrir góð kynni og ættingjum og vinum samúðarkveðjur.

Guðni Þorvaldsson.