Trausti Adamsson fæddist á Akureyri 8. apríl 1934. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð 6. apríl 2022.

Foreldrar hans voru Sigurlína Aðalsteinsdóttir húsmóðir og Adam Magnússon húsa- og húsgagnasmiður. Systkini Trausta eru Lilý Erla, f. 1933, Aðalheiður, f. 1939, og Reynir, f. 1948.

Þann 31.12. 1956 giftist Trausti Moniku Margréti Stefánsdóttur, f. 1938. Þau eignuðust fimm börn: 1) Fjóla Sigurlína, f. 1955, í sambúð með Sveinbirni Jónssyni, f. 1956. Börn Fjólu frá fyrra hjónabandi eru Margrét Jónsdóttir, f. 1974, Emma Björk Jónsdóttir, f. 1978, Steindór Kristinn Jónsson, f. 1982, Elfa Berglind Jónsdóttir, f. 1986. 2) Stefán, f. 1959, í sambúð með Svanhildi Sigurgeirsdóttur, f. 1957, börn Stefáns og Hjördísar Áskelsdóttur, f. 1960, d. 2010, eru Monika Margrét, f. 1978, Halldór Áskell, f. 1987, og Svala Hrund, f. 1988. 3) Erna Sigurbjörg, f. 1964, gift Hauki Ármannssyni, f. 1961, dætur þeirra eru Rut, f. 1980, og Harpa, f. 1992. 4) Adam, f. 1968, giftur Önnu Maríu Guðmann, f. 1966, börn þeirra eru Þórey Lísa Þórisdóttir, f. 1995, Trausti Lúkas, f. 2002, Breki Mikael, f. 2004. 5) Örn, f. 1975, giftur Elsu Björg Pétursdóttur, f. 1979, börn þeirra eru Pétur Orri, f. 2007, og Bjarki Fannar, f. 2010.

Trausti ólst upp á Akureyri en dvaldi mörg sumur á Kálfaströnd í Mývatnssveit sem drengur. Hann gekk í Gagnfræðaskóla Akureyrar og fór síðan í Iðnskólann á Akureyri og lauk þaðan húsasmíði. Með honum í húsasmíðinni var góður vinur hans Gunnlaugur Traustason. Eftir að hafa smíðað sér bát samhliða vinnu við húsasmíðar, fóru þeir á samning hjá Skipasmíðastöð KEA og fengu réttindi til bátasmíða. Trausti byggði sér verkstæði á Óseyri og vann við bátasmíðar fram til 1977 en snéri sér þá aftur að húsasmíðum ásamt Stefáni syni sínum. Á efri árum smíðaði Trausti fjölmargar klukkur í Borgundarhólmsstíl eftir teikningum frá föður sínum.

Útför Trausta fer fram frá Glerárkirkju í dag, 29. apríl 2022, klukkan 13.

Elsku afi Trausti.

Það er svo erfitt að hugsa til þess að koma í heimsókn í Jaðarsíðuna til ykkar ömmu Monu og hitta þig ekki aftur. Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur með fallega brosinu þínu og faðminum góða. Þú sast oftast í uppáhaldsstólnum þínum þegar við komum, brosandi og glaður, þú varst nefnilega alltaf glaður. Við eigum svo margar góðar minningar um þig bæði úr Kotárgerði og Jaðarsíðu. Ein af okkar uppáhaldsminningum er frá áramótum þegar þú varst með risabindi um hálsinn sem þú hafðir fengið í jólagjöf, þú varst svo ánægður með það og okkur fannst þú svo flottur. Allar góðu stundirnar í sveitinni gleymast ekki heldur, þar var alltaf gott að hitta ykkur ömmu.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Við munum varðveita allar minningarnar um þig í hjörtum okkar, elsku afi, og takk fyrir allt sem þú varst okkur.

Sara og Andri.

Trausti bróðir minn er fallinn frá. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 2 dögum áður en hann hefði náð 88 ára aldri. Síðasta ár sitt dvaldi hann á Hlíð en bjó annars allt sitt líf á Akureyri.

Eftir að hafa fengið heilablóðfall fyrir nokkrum árum fór heilsu hans að hraka, en alltaf var Trausti jákvæður og tók hverjum degi með brosi á vör. Monika kona hans var hans stoð og stytta og eignuðust þau 5 börn, sem öll búa á Akureyri og er fjölskyldan ákaflega samhent. Þegar Trausti hætti sjálfur að keyra bíl fyrir nokkrum árum spurði ég hann hvort honum þætti það ekki slæmt.

Svarið var: „Nei, nei, það er allt í lagi, ég á svo mörg börn, þau keyra mig bara.“ Og auðvitað var Mona einnig til staðar.

Trausti lærði trésmíðar hjá pabba okkar, sveinsstykki hans var kirkjuhurð fyrir Svalbarðsstrandarkirkju, sem pabbi okkar byggði á þeim tíma.

Síðar lærði Trausti einnig skipasmíðar og þeir félagarnir „Trausti og Gulli“ byrjuðu að smíða skip, til að byrja með smíðuðu þeir 9 tonna skip í gömlum bragga á Eyrinni, síðan byggðu þeir félagarnir skipasmíðastöð á Óseyri þar sem fyrirtæki þeirra stóð að smíði margra allt að 40 tonna eikarskipa.

Það er sérstök list að smíða tréskip, nákvæmnisvinna og erfiðisvinna í senn. Þegar plastbátar komu til sögunnar lagðist smíði tréskipa af og þá sneri Trausti sér aftur að húsasmíði.

Reyndar fengu nokkur eikarskip sem þeir félagar smíðuðu nýtt hlutverk og breyta þurfti fiskiskipum í fley fyrir ferðamenn til hvalaskoðunar, fengnir voru hæfir menn í það verk, þeir Trausti og sonur hans Stefán.

Trésmíðar og þá sérstaklega skipasmíðin var alltaf efst í huga Trausta, í síðasta skipti sem ég talaði við hann var hugurinn hjá hvalaskoðunarskipum Norðursiglingar á Húsavík sem hann og Gunnlaugur höfðu smíðað og Trausti síðan breytt.

Við vorum fjögur systkinin á Akureyri; Lilý, Trausti, Aðalheiður og ég, Reynir, sá langyngsti. Við Trausti vorum alltaf nánir og góðir vinir, hann var alltaf „stóri bróðir“, 14 árum eldri en ég.

Fyrsta minning mín frá því ég var nokkurra ára er að ég fékk stundum að sitja á mótorhjólinu hans stóra bróður.

Sem unglingur vann ég yfirleitt í skólafríum við húsasmíðar og síðar skipasmíðar hjá þeim félögum Trausta og Gulla. Þetta var skemmtilegur tími, þegar veðrið var gott kom fyrir að tekið var smá frí frá vinnunni til að skreppa í leiðangur í Flateyjardal eða Eyjafjörðinn á Trabantinum hans Gulla, síðan var bara unnið lengur það kvöldið.

Síðar á ævinni þegar ég þurfti á hjálp smiðs að halda var Trausti alltaf til staðar, ég fór t.d. til Akureyrar og smíðaði með honum alla glugga í hús okkar hjóna sem var að rísa í Garðabæ og marga aðra hluti smíðaði Trausti fyrir mig.

Seinna teiknaði ég sem arkitekt einnig nokkur hús sem hann byggði ásamt Stefáni syni sínum.

Ég gæti haldið áfram að rifja upp skemmtileg samskipti okkar bræðra en læt hér staðar numið. Trausta er sárt saknað en svona er víst gangur lífsins.

Við hjónin vottum Monu, eftirlifandi konu Trausta, börnum þeirra og fjölskyldum okkar dýpstu samúð.

Reynir Adamsson.