Gleði Selfyssingar fögnuðu að vonum vel með stuðningsmönnum sínum eftir leik. Þeir eiga nú fyrir höndum einvígi við Valsmenn í undanúrslitum.
Gleði Selfyssingar fögnuðu að vonum vel með stuðningsmönnum sínum eftir leik. Þeir eiga nú fyrir höndum einvígi við Valsmenn í undanúrslitum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kaplakrika Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Selfoss tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla með því að hafa betur gegn FH í oddaleik liðanna í Kaplakrika í gærkvöldi.

Í Kaplakrika

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Selfoss tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla með því að hafa betur gegn FH í oddaleik liðanna í Kaplakrika í gærkvöldi. Selfoss vann einvígið 2:1 og mætir því ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitunum.

Um hreint magnaðan handboltaleik var að ræða þar sem þurfti að tvíframlengja til þess að knýja fram úrslit. Selfoss vann að lokum, 38:33, eftir sveiflukenndan leik.

Selfyssingar komust mest í sjö marka forystu, 20:13, þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þar af skoraði Guðmundur Hólmar Helgason sex af níu mörkum sínum í leiknum á þeim kafla. Hergeir Grímsson skoraði einnig níu mörk fyrir Selfoss.

Þá hófu heimamenn að spila frábæran varnarleik, sem hafði verið aðalsmerki Selfoss í leiknum fram að því. Því fylgdi að FH jafnaði metin í 26:26.

Reynsluboltinn Ásbjörn Friðriksson, sem átti stórleik og skoraði 11 mörk fyrir FH, skaut í stöngina og aftur fyrir í lokasókn FH á lokasekúndu venjulegs leiktíma og því þurfti að framlengja.

Í fyrri framlengingunni náði FH forystunni í fyrsta sinn í leiknum, 27:28, og komst svo tveimur mörkum yfir, 28:30, áður en Ragnar Jóhannsson náði að jafna metin í 30:30 með tveimur mörkum í röð og tryggja þannig aðra framlengingu. Í henni reyndust gestirnir sterkari og sigldu fræknum sigri í höfn.

Lítil smáatriði skildu á milli í leiknum þar sem markmenn beggja liða, Vilius Rasimas hjá Selfossi og Phil Döhler hjá FH, vörðu oft vel og bæði lið töpuðu boltanum á mikilvægum augnablikum. Rasimas varði 16 skot og Döhler 14.