[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valdimar Guðmannsson fæddist 29. apríl 1952 á Blönduósi, en ólst upp í Bakkakoti, sem er rétt við Blönduós, í Refasveit. Fyrstu árin bjó Valdimar, eða Valli eins og hann er alltaf kallaður, í torfbæ, en flutti í nýtt hús 1959.

Valdimar Guðmannsson fæddist 29. apríl 1952 á Blönduósi, en ólst upp í Bakkakoti, sem er rétt við Blönduós, í Refasveit. Fyrstu árin bjó Valdimar, eða Valli eins og hann er alltaf kallaður, í torfbæ, en flutti í nýtt hús 1959. Hann byrjaði 10 ára í skóla á Blönduósi. „Ég vildi ekki fara í farskóla og fór daglega á hesti í skólann. Ég gekk í skóla fram að fermingu, þá tók við skóli lífsins og ég er enn í honum.“

Valli hóf búskap með foreldrum sínum 16 ára og keypti þá hálfa jörðina og restina nokkrum árum seinna. Hann var með sauðfé en vann með búskapnum á Blönduósi lengst af hjá samvinnufélögunum KH og SAH fyrir utan 13 ár sem hann var formaður hjá Verkalýðsfélagi A-Húnvetninga í 10 ár og síðan formaður hjá stéttarfélaginu Samstöðu sem varð til við sameiningu fjögurra stéttarfélaga; á Hvammstanga, Skagaströnd og Blönduósi, seinna komu svo fleiri félög inn í þessa sameiningu. Hann vinnur núna í kjötvinnslu SAH afurða, nú Kjarnafæði. „Ég hef unnið þarna samanlagt í 40 ár og í 25 ár í einum rykk. Minn síðasti vinnudagur verður í dag, á afmælisdaginn. Þá tel mig hafa lokið störfum.“ Valli flutti ásamt konu sinni, Ólöfu, á Blönduós árið 1996 og hafði þá stundað búskap í tæp 30 ár. Þau leigðu öðrum jörðina Bakkakot, en svo tóku dóttir þeirra Aðalbjörg og Ragnar maður hennar við jörðinni og hófu búskap.

Snemma byrjaði Valli að fá áhuga fyrir félagsmálum og var formaður bæði Ungmennasambands A-Húnvetninga (USAH) og UMF Vorboðans sem var félag í sveitinni hans, sem var þá í Engihlíðarhreppi. „Stærsta verkefni Vorboðans var íþróttavöllurinn sem átti að verða smá æfingavöllur en endaði sem löggiltur völlur. Stærsta verkefni USAH þegar ég var formaður var unglingalandsmótið 1995, sem er það langstærsta sem USAH hefur tekið að sér.“

Valli sat í hreppsnefnd Engihlíðarhrepps í sex ár og bæjarstjórn Blönduóss átta ár. Hann gekk ungur í félag ungra framsóknarmanna í sveitinni og sat í stjórn þess. Síðar skildi leiðir með Valla og Framsóknarflokknum, hann gekk fljótlega í Alþýðubandalagið en vann síðan fyrir Samfylkinguna frá stofnun. Hann var í stjórn Samfylkingarfélags A-Hún. í um tíu ár og þar af formaður í þrjú ár. „Fljótlega eftir að Árni Páll tók við sem formaður gekk ég úr flokknum og gerðist félagi í VG og er þar enn og líður vel.“ Valli sat í miðstjórn ASÍ í tvö ár, stjórn RARIK fjögur ár, stjórn Lífeyrissjóðs Norðurlands vestra í tvö ár og stjórn Norðurlands (nú Stapi) í tvö ár. „Ég er búinn að kúpla mig út úr flestu núna. En ég stofnaði kótilettuklúbb fyrir átta árum sem heldur fjögur kótilettukvöld á ári. Svo var ég kosinn formaður kirkjugarðsins á Blönduósi fyrir fimm árum og frístundirnar fara þar. Helsta málið er að finna peninga til að halda garðinum við, en hann lá undir skemmdum. Við erum búin að framkvæma fyrir um 20 milljónir en girðingin utan um garðinn er steyptur veggur sem var illa sprunginn og mikið mosagróinn.“

Enn fremur tók Valli þátt í leiklistarstarfsemi á svæðinu, var einn af stofnendum Leikfélags Austur-Húnvetninga og tók síðan þátt í starfsemi Leikfélags Blönduóss. „Þetta var eitt það allra skemmtilegasta félagsstarf sem ég hef tekið þátt í en þarna var ég kominn í önnur félagsstörf sem kostuðu mikla fjarveru og Reykjavíkurferðir svo það gekk ekki upp að eiga líka að mæta á leikfélagsæfingar.“ Valli kom enn fremur að Húnavökunni í nokkur ár. Hann er því búinn að koma víða við.

„Ég hef alltaf verið tregur til að vera lengi í því sama. Ég setti mér þá reglu einu sinni að vera aldrei lengur en tíu ár í neinu. Ég braut hana reyndar einu sinni þegar ég hafði verið formaður Verkalýðsfélags A-Húnvetninga í tíu ár og þegar félögin voru sameinuð var mér talin trú um að ég þyrfti að fylgja nýja félaginu af stað og varð því formaður í stéttarfélaginu Samstöðu. Menn halda oft að menn séu ómissandi eftir nokkur ár en það er miklu betra að koma aftur að félaginu einhvern tímann seinna. Ég var t.d. formaður Ungmennasambandsins tvisvar.“

Helstu áhugamál Valla eru atvinnu- og uppbyggingarmál í heimabyggð sinni og draga fram sem mest af því jákvæða í samfélaginu. „Ég ákvað þegar ég hætti í bæjarstjórn að vera svolítið jákvæður og hef verið að segja frá jákvæðum hlutum í bæjarfélaginu, reyndar bara á facebooksíðunni minni, og er með kjörorðið „Blönduós sefur aldrei“!“ Hann var enda kosinn maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2020 af lesendum Húnahornsins fyrir jákvæðnina og störf sín fyrir kirkjugarðinn.

Fjölskylda

Eiginkona Valla er Ólöf Pálmadóttir, f. 24.2. 1956, þjónustufulltrúi hjá Motus ehf. Foreldrar Ólafar voru hjónin Pálmi Ólafsson, f. 12.10. 1916, d. 6.12. 2005, bóndi í Holti á Ásum, A-Hún., og Aðalbjörg G. Þorgrímsdóttir, f. 20.4. 1918, d. 22.11. 2007, húsmóðir.

Börn Valla og Ólafar eru: 1) Aðalbjörg, f. 12.4. 1973, bóndi í Bakkakoti og starfsmaður hjá N1 Blönduósi, eiginmaður hennar er Ragnar Sigtryggsson, bóndi, framleiðslustjóri við ullarþvottastöð Ístex á Blönduósi og varaslökkviliðsstjóri á Blönduósi. Börn þeirra eru Gísli, f. 1998, Pálmi, f. 2002, og Guðni, f. 2009; 2) Guðmann, f. 4.5. 1980, starfsmaður RARIK á Blönduósi og vinnur við áætlanagerð á rekstrarsviði Norðurlands. Eiginkona hans er Ósk Jóhannesdóttir, f. 6.11. 1984, húsmóðir. Börn þeirra eru Stefana Björg, f. 2008, og Valdimar Logi, f. 2010.

Alsystir Valla var Anna Sigurlaug, 12.8. 1938, d. 29.10. 2006, húsmóðir á Sunnubraut 2, Blönduósi. Hálfbróðir Valla samfeðra var Guðlaugur, 12.5. 1930, d. 8.2. 1982, verkamaður, síðast í Borgarnesi.

Foreldrar Valla voru Guðmann Valdimarsson, f. 2.4. 1906, d. 5.6. 1988, bóndi í Bakkakoti, og Laufey Jónsdóttir, f. 25.4. 1911, d. 23.7. 1981, húsmóðir í Bakkakoti.