40 ára Linda er Reykvíkingur, ólst upp í Seljahverfi en býr í Laugarnesinu. Hún er með BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MS-gráðu í fjármálum og hagfræði frá Háskólanum í Warwick á Englandi.
40 ára Linda er Reykvíkingur, ólst upp í Seljahverfi en býr í Laugarnesinu. Hún er með BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MS-gráðu í fjármálum og hagfræði frá Háskólanum í Warwick á Englandi. Hún er hagfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu og er að vinna á fjárlagaskrifstofunni þar.

„Utan vinnunnar þá er ég að sinna fjölskyldunni, en við ferðumst mikið með krökkunum og höfum farið til allra heimsálfanna nema Ástralíu og Suðurskautslandsins. Þetta er það skemmtilegasta sem við gerum. Við vorum síðast á Seychelles-eyjum fyrir austan Afríku, tókum langt páskafrí þar, eða í tvær vikur, og erum núna í Feneyjum.“ Linda segir að þetta sé fullkominn tími til að heimsækja Feneyjar. Það sé ekki of mikill túrismi enn þá þótt allt sé komið í gang. „Við erum búin að fara á Feneyjatvíæringinn, það var æðislegt, og svo fer maður um á gondólabátunum og gerir fleira skemmtilegt.“

Fjölskylda Eiginmaður Lindu er Hreggviður Ingason, f. 1978, fjármálastærðfræðingur hjá Fossum mörkuðum. Börn þeirra eru Ingi, f. 2009, Hildur Sigríður, f. 2013, og Benedikt, f. 2016. Ekki má síðan gleyma labradorhundi fjölskyldunnar sem heitir Lukka. Foreldrar Lindu eru Garðar Hilmarsson, f. 1951, fv. formaður Starfsmannafélags Reykavíkurborgar, og Sigríður Benediktsdóttir, f. 1952, fv. starfsmaður hjá Megin lögmannsstofu. Þau eru búsett í Reykjavík.