Í Vísnahorni á miðvikudag er vitnað í gamla sögu úr Eyjafirði þar sem segir að „fremsti bær í Lögmannshlíð hét fyrrum Tittlingur“. Bjarni Sigtryggsson skrifar: „Dálkahöfundur Morgunblaðsins um kveðskap leitar oft fanga hér á...

Í Vísnahorni á miðvikudag er vitnað í gamla sögu úr Eyjafirði þar sem segir að „fremsti bær í Lögmannshlíð hét fyrrum Tittlingur“. Bjarni Sigtryggsson skrifar: „Dálkahöfundur Morgunblaðsins um kveðskap leitar oft fanga hér á Boðnarmiði. Afleitt er þó er hann hefur eftir það sem rangt er og lætur undir höfuð leggjast að birta leiðréttingar, sem er þó að finna í sama þræði, líkt og hendir í dag. En þar kom fram þessi leiðrétting, sem Halldór Blöndal hefði mátt lesa og birta:

Dagbjartur Dagbjartsson segir leiðinlegt ef vísnaþáttariturum verður það á að birta einhverjar bölvaðar vitleysur. Þekki það alveg, búinn að vera í þessu í „töttögöogfemm ár“ og eitt það versta finnist sér að sjá einhverja bölvaða vitleysu sem sér hafi orðið á að birta og vitnað í sig sem frumheimild. Annars varð þessi einhvern tíma til:

Oft mér hefur valdið vöku

þó væri að basla hvað ég gat

að grípa á lofti góða stöku

og gera úr henni blaðamat.“

Ólafur Stefánsson er nýkominn frá Suðurlöndum og rómar á Boðnarmiði góðan viðurgerning og þjónustu á leiðinni heim: „Þegar búið er að vera í útlenska frauðmetinu í nokkrar vikur, þá er gott að koma í íslenska flugvél á leið heim og finna kaffi- og matarlyktina og brosandi flugfreyjur, sem bjóða menn velkomna“:

Til Íslands með úrvals „staffi“

ómæld er nægtin vís:

Þær bera fram Bragakaffi

og brauðmeti' að hætti SÍS.

Baldur Hafstað skrifaði mér og sagði að þessi vísa stæði alltaf fyrir sínu en stundum væri ekki farið alveg rétt með hana og sagt „skemmta sér og gera hitt“. En það þurfi að vera „skemmtun vanda“ til þess að innrímið njóti sín. Síðan bætti Baldur við:

„Skála og syngja Skagfirðingar

Kári Jónsson frá Valadal í Skagafirði (1904-1993) orti þessa vísu við Stafnsrétt í Svartárdal haustið 1934 og hefur hún sennilega verið oftar sungin í Skagafirði en nokkur önnur vísa.

Skála og syngja Skagfirðingar

skemmtun vanda og gera hitt.

Heyrið slyngir Húnvetningar

hér er landaglasið mitt.“

Páll Ólafsson orti „Kappreiðin“:

Ekki prestinn óttast þá

eg né lesta-strákinn

þegar sestur er ég á

allra besta fákinn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is