Ása Guðbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí 1937. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hömrum 8. apríl 2022. Foreldrar hennar voru Guðbjörn Ólafur Kjartansson, f. 19. júní 1897 í Spóamýri, Þverárhlíð í Múlasýslu, d. 19. mars 1990, og Guðríður Guðnadóttir, f. 18. júlí 1894 á Heiði, Keldnasókn í Rangárvallasýslu, d. 31. desember 1963.

Systir Ásu er Auður Oddbjörg, f. 6. október 1934.

Ása giftist 7. september 1956 Þorláki Ásgeirssyni, f. 4. desember 1935, d. 30. janúar 2018. Börn þeirra eru: 1) Kristín Dagný, f. 1957, börn hennar eru Ása Kolbrún Hauksdóttir, f. 1977, maki Baldvin Davíð, börn þeirra eru Karlotta, f. 2015, og Kormákur, f. 2019. Bjarni Már Hauksson, f. 1979, maki Helga Bjarnadóttir, börn þeirra eru Sigurlaug María, f. 2005, Dagný Klara, f. 2012, og Bjarni Freyr, f. 2017. Pétur Óskar Pétursson, f. 1986, maki Eva Guðlaugsdóttir, dóttir þeirra er Katrín Ósk, f. 2020, fyrir á Eva soninn Óliver, f. 2015. Birgir Ólafur Pétursson, f. 1990. 2) Guðbjörg, f. 1958, d. 2001, eftirlifandi maki hennar er Þorgeir Pétursson, börn hennar eru Guðný Helgadóttir, f. 1977, maki Árni Rúnarsson, börn þeirra eru Katla Rún, f. 2008, Ágústa Hrönn, f. 2011, og Guðbjörg Lilja, f. 2012. Sindri Þorgeirsson, f. 1987, maki Elfa Hauksdóttir. 3) Ásgeir, f. 1959, maki Eva Kristjánsdóttir, sonur þeirra er Ásgeir Elfar, f. 2003. Fyrir á Eva soninn Ragnar Pál, f. 1976, synir hans eru Bjarki, f. 1998, Helgi, f. 2008, og Hjörtur, f. 2009. 4) Vilhjálmur, f. 1962, maki Sigrún Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Davíð Þór, f. 1985, maki Arna Jónsdóttir, synir þeirra eru Vopni, f. 2013, og Orri, f. 2016, fyrir á hann soninn Þór, f. 2005. Hildur María, f. 1991, dóttir hennar er Kristný Rún, f. 2014.

Ása ólst upp í Reykjavík hjá foreldrum sínum, hún starfaði alla tíð sem húsmóðir ásamt því að starfa sem saumakoma og vinna við umönnun á Reykjalundi.

Áhugamál hennar voru hannyrðir og postulínsmálun, ásamt ferðalögum meðan heilsan leyfði.

Útför Ásu fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 29. apríl 2022, klukkan 13.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Guð geymi þig elsku langamma okkar.

Þín barnabarnabörn,

Sigurlaug María, Dagný Klara og Bjarni Freyr.

Þú hefur fengið hugskeyti, ég var að hugsa svo sterkt til þín. Þessi setning segir svo mikið og margt um elsku ömmu. Fjölskyldan var henni mikilvæg og hún vildi ávallt vita hvernig öllum liði, ef þú ræktaðir hana þá fékkstu það margfalt til baka.

Við eigum margar fallegar minningar sem við getum yljað okkur við.

Þegar við vorum börn vörðum við miklum tíma hjá ömmu og afa í Mosó. Þessi tími er okkur sérstaklega dýrmætur. Stóriteigur sem afi byggði var í okkar huga eins og höll. Þar voru tvær stofur, risataflborð, heitur pottur, sólstofa, hengiróla og baðkar á við sundlaug, að okkur fannst. Fuglarnir sungu fyrir okkur í garðinum sem var vel ræktaður með rabarbara og kartöflum. Aldrei var frystikistan tóm, hægt var að ganga að kexskápnum vísum og það var allt til alls.

Þarna kom öll fjölskyldan saman og þá var spilað, sungið, teflt, hlegið og borðað saman. Amma og afi voru höfðingjar heim að sækja og nutu þess að fá heimsóknir.

Einnig höfðu þau gaman af því að fara með okkur í sumarbústaðinn við Krossbæ á Nesjum. Þar fengum við að sjá lömbin fæðast, renna fyrir fisk og hjálpa til við það sem til féll tengt bústaðnum. Á leiðinni austur fræddu þau okkur um heiti fossa, fjalla, vatna og sýslna og þess á milli var sungið og maulaðar góukúlur, rúsínukúlur eða harðfiskur.

Eitt af því sem amma kenndi okkur svo vel var að það þarf að vinna fyrir hlutunum, ekki bara að fá allt upp í hendurnar. Það var kannski ekkert skemmtiatriði á meðan verkin voru unnin en við fengum svo mikið til baka. Amma og afi voru ávallt til staðar fyrir okkur barnabörnin, hvort sem það var húsaskjól, stuðningur, ráðleggingar eða hvatning sem endaði oft á: „Veistu að þú getur allt sem þú ætlar þér, þú þarft bara að trúa því.“

Amma elskaði að synda og sagðist fá mikinn kraft úr vatninu. Hún kenndi sumum okkar að synda, sótti laugina eins lengi og hún hafði heilsu til og þar leið henni vel.

Amma var líka berdreymin og sá oft fyrir barneignir og kyn barnanna okkar og var það ansi magnað. Hún hafði líka mikla ánægju af þeim og sýndi þeim mikinn áhuga. Hún lagði sig fram, þrátt fyrir mikið magnleysi og minnkandi þrótt síðustu ár, að spyrja og vildi vita hvar áhugamál þeirra lægju og hvað drifi þau áfram.

Börnin okkar segja svo réttilega að langamma muni lifa áfram í hjörtum okkar allra og það eru orð að sönnu.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Hvíl í friði, elsku amma.

Guðný, Ása Kolbrún, Bjarni Már og Davíð Þór.