Jón Kjartan Baldursson fæddist 8. maí 1949 í Fíflholtum, Hraunhreppi á Mýrum. Hann lést 28. mars 2022.

Foreldrar hans voru Margrét Sigurjónsdóttir, fædd 1917, dáin 2003, og Baldur Stefánsson, fæddur 1918, dáinn 1989.

Jón var þriðji í röðinni af fimm systkinum. Systkini Jóns eru Halldóra, fædd 1944, Stefán Sigurður, fæddur 1948, d. 29. júlí 1970, Sigurjón Rúnar, fæddur 1954 og Ármann Þór, fæddur 1956.

Jón ólst upp í Fíflholtum við leik og störf. Hann gekk í heimavistarskólann að Varmalandi í Borgarfirði. Hann vann margvíslega verkamannavinnu, meðal annars í sláturhúsinu í Borgarnesi, Álverinu í Straumsvík en lengst starfaði hann í fiskvinnslu hjá Miðnesi í Sandgerði. Eftir það vann hann lengi hjá fyrirtækinu Urð og grjót.

Hann hafði mjög gaman af útivist og var í gönguklúbbnum Grautargenginu. Jón var ókvæntur og barnlaus.

Útför Jóns verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 29. apríl 2022, klukkan 13.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Ég vil í nokkrum orðum þakka Jóni móðurbróður mínum samfylgdina. Ég var 18 ára þegar ég fór að fara oft til Reykjavíkur með Akraborginni til ömmu um helgar og fer þá að kynnast frænda mínum vel. Til ömmu kom Jón oft í sín helgarfrí sem hann eyddi með Grautargenginu sínu, gönguhópnum. Hann var stoltur af þessum félagsskap og leið vel með honum. Ég var farin að kannast við margra úr hópnum þótt ég hefði aldrei hitt þau því að það voru mjög lifandi og skemmtilegar frásagnirnar hans þegar kom að Grautargenginu og þeim ævintýrum sem þau höfðu lent í. Hann ljómaði líka svo þegar hann var að segja frá þeim.

Það var gaman að vera nálægt Jóni og hann var mjög duglegur að skutla frænku sinni ef hún þurfti á því að halda og vera mér innan handar. Við fórum oft saman í bíó, röltum um og náðum meira að segja einni hringferð um landið saman.

Hann var frekar hnyttinn og sá oft spaugilegu hliðina á hlutunum og við gátum oft hlegið að allskonar vitleysu. Þegar ég fór að læra þjóðfræðina gat ég platað hann með mér á þorrablót og aðrar þjóðfræðilegar skemmtanir, í staðinn dröslaði hann mér í gönguferðir, meðal annars upp á Esju.

Kæri frændi, ég er þakklát fyrir allar okkar samverustundir í gegnum tíðina og ekki síst fyrir öll gamlárskvöldin sem þú eyddir með mér og fjölskyldunni minni síðustu árin þar sem maðurinn minn og börnin mín fengu að kynnast þér vel.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Kveðja,

Bryndís (Brynka)

Reynisdóttir.

Genginn er góður vinur og ferðafélagi. Allt of snemma að okkar mati því hann var rétt byrjaður að njóta forréttinda heldriborgaratímabilsins. Gönguhópur okkar Grautargengið var stofnaður af 12 einstaklingum í sumarbústað í Grímsnesinu haustið 1996. Lítil skyldleikatengsl voru innan hópsins en við höfðum kynnst í ferðum með Ferðafélagi Íslands og Útivist. Eina forsenda valsins var þó hafragrautur sem Bryndís eldaði í byrjun fyrir sig eina en hafði þróast yfir í sameiginlega máltíð. Stefnuskráin var ekki merkileg en við ákváðum að ferðast saman, borða hafragraut í morgunmat, vaða ár og læki og ganga um fjöll og dali. Borða saman góðan mat og stunda leikhús eða í fáum orðum sagt njóta líðandi stundar.

Jón naut þess að ferðast en hann var ekki mikið fyrir að slappa af og sötra bjór eftir erfiða göngu. Mjólkin var hans drykkur og stundum gekk illa að fá kráareigendur á erlendri grundu til að skilja að íslenski víkingurinn í hópnum tæki mjólk fram yfir aðra drykki. Íslenski víkingurinn var nafn sem austurríski fararstjórinn okkar til margra ára, hann Rudi, gaf honum. Sú nafngift passaði Jóni vel því hann var glæsilegur á að líta með sólhattinn og íklæddur göngugallanum.

Jón var góður félagi, einstaklega rólegur og geðgóður. Alltaf tilbúinn að aðstoða sæi hann þess þörf. Hann var einstakt snyrtimenni og hvernig sem á því stóð virtist ferðaryk dagsins ekki festast við hann. Margar ferðir fórum við saman. Upp í hugann kemur ferð með honum vestur á Mýrar. Þar var Jón á heimaslóðum og sýndi okkur staði þar sem hann eyddi æskuárunum. Skemmtileg ferð og við margs vísari um hans uppvaxtarár.

Jón er sá fimmti í Grautargenginu sem leysir lífsins landfestar. Við kveðjum hann með söknuði en fyrst og fremst þakklæti fyrir frábæra samveru. Fjölskyldu Jóns sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Minningin um góðan dreng lifir.

Bryndís, Erla, Kristbjörg, Sigrún, Sigurbjörg og Svavar (Grautargengið).