Þorbjörg Laufey Þorbjörnsdóttir fæddist á Akranesi 29. ágúst 1925. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða 10. apríl 2022.

Foreldrar hennar voru Anna Mýrdal Helgadóttir frá Akranesi, f. 1903, d. 1970, og Þorbjörn Sæmundsson stýrimaður, frá Gufuskálum á Snæfellsnesi, f. 1897, en hann fórst með togaranum Leifi heppna í Halaveðrinu mikla í febrúar 1925. Fósturfaðir hennar var Björgvin Ólafsson bifreiðarstjóri, f. 1907, d. 1993.

Hálfsystkini hennar sammæðra eru Helgi, f. 1934, d. 2017, Guðrún, f. 1936, Sigrún, f. 1940, d. 2012.

Þorbjörg giftist 31. desember 1950 Helga Ingólfi Ibsen, skipstjóra, útgerðarmanni og síðan framkvæmdastjóra Akraborgar, f. 1928, d. 2004. Foreldrar hans voru hjónin Ibsen Guðmundsson, formaður og útgerðarmaður á Suðureyri við Súgandafjörð, f. 1892, d. 1957 og kona hans Lovísa Rannveig Kristjánsdóttir, f. 1893, d. 1974.

Börn þeirra eru: 1) Anna Mýrdal Helgadóttir, f. 1950, maki Hafsteinn Guðjónsson, f. 1949, þau eiga tvo syni og þrjár sonardætur. 2) Óskírð dóttir, f. 1952, d. 1952. 3) Lúðvík Ibsen, f. 1953, maki Ingveldur Valdimarsdóttir, f. 1954, d. 1991. Hann á þrjú börn og fjögur barnabörn. Var í sambúð með Katrínu Björnsdóttur 1998-2003. Sambýliskona hans er Þórný Guðnadóttir, f. 1963. 4) Þorbjörg, f. 1955, maki Guðberg Heiðar Sveinsson, f. 1955, þau eiga þrjá syni og fimm barnabörn. 5) Björgvin, f. 1957, var kvæntur Jóhönnu Ólafsdóttur og eiga þau saman fimm dætur og sjö barnabörn. Eiginkona hans er Vigdís Linda Jack, f. 1970, og á hún tvö börn. 6) Helga, f. 1960, d. 1961. 7) Helgi, f. 1962, maki Þóra Þórðardóttir, f. 1964, þau eiga tvö börn og Þóra á son frá fyrra sambandi. Barnabörnin eru fjögur. 8) Kristján, f. 1963, maki Hjördís Frímann, f. 1954. Þau eiga eina dóttur og Hjördís son frá fyrra hjónabandi.

Þorbjörg ólst upp í Uppkoti á Akranesi hjá móður sinni og Helga afa sínum, sem henni þótti afar vænt um. Í Uppkoti bjó einnig Valgerður móðursystir hennar með börnin sín þrjú, Ástu, Hilmar og Janus Braga, og ólust þau upp sem systkini. Þegar hún var 8 ára giftist móðir hennar Björgvini Ólafssyni, sem gekk henni í föðurstað. Hún lauk barnaskóla á Akranesi og fór svo að vinna eftir fermingu. Vann í fiski, í verslun, við að uppvarta og á saumastofu á Akranesi og í Reykjavík og þótti einkar lagin og vandvirk. Alla sína ævi hafði hún yndi af hverskonar hannyrðum, sem léku í höndum hennar. Hún var í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1946-47. Eftir að hún giftist var hún heimavinnandi með stóran barnahóp og bóndann úti á sjó. Þegar yngstu börnin voru orðin stálpuð fór hún út á vinnumarkaðinn. Vann á saumastofum og rak um tíma Hannyrðabúðina á Akranesi. Frá unglingsárum var hún félagi í Skátafélagi Akraness og á efri árum í Félagi eldri borgara og stundaði með þeim línudans, pútt, boccia og félagsvist meðan heilsan leyfði. Hún fluttist á dvalar- og hjúkrunarheimilið Höfða í nóvember 2016 og bjó þar við gott atlæti til æviloka.

Útför hennar fer fram í dag, 29. apríl 2022, frá Akraneskirkju klukkan 13.

Mamma. Það er svo margt um þig sem ég veit ekkert um. Svo margt sem þú hefur gert og upplifað sem glittir í þegar við systkinin rifjum upp langa ævi og skoðum myndir. Það sem kemur mér mest á óvart er hvað þú varst mikil listakona á þinn hljóða og hógværa en þó ákveðna hátt. Styrkur þinn fólst í smekkvísi, vinnusemi og vilja til að gera hlutina vel. Allt sem tengdist hannyrðum lék í höndum þínum, hvort sem það var að sauma jólaföt á okkur „litlu strákana“ í gamla daga eða að prjóna fíngerð sjöl sem þú seldir í verslun Álafoss eftir að þú varst komin upp á Höfða.

Ekki vissi ég til dæmis að þú hefðir æft með fimleikaflokki á Akranesi sem unglingur eða hversu mikið yndi þú hafðir af því að vinna í vefstól í Húsmæðraskólanum. En ég veit að ætlun þín var skýr.

Þú vildir okkur systkinunum og börnum okkar allt það besta, að við fengjum notið okkar í lífinu á okkar eigin forsendum. Þú spurðir mig stundum hvort ég væri eitthvað að mála, hvort ég væri eitthvað að syngja og það er mér hvatning til að sinna af alúð listinni að lifa, að þínu fordæmi. Að sýna væntumþykju í verki og vilja öllum vel.

Ég þekki þig sem mömmu, en sé núna að það er bara einn þráður í löngu og farsælu lífi. En þú fæddir mig í þennan heim og varst alltaf til staðar fyrir mig þótt ég hafi sjaldnast gert mér grein fyrir því. Fyrir það allt er ég óendanlega þakklátur.

Kristján Helgason.

Það er erfitt að kveðja þig og þín verður sárt saknað, elsku besta amma Bobba.

Nú minnumst við þín með þakklæti í huga, þakklæti fyrir að hafa átt akkúrat þig sem ömmu.

Þú varst mögnuð kona, sannkölluð fyrirmynd og nærvera þín var einstök. Þú tókst alltaf á móti okkur með brosi, opnum örmum, kossi á kinn og faðmlögin þín gáfu svo mikla ást. Þú gafst þér alltaf tíma til að vera með okkur, hlusta á okkur, leiðbeina og vera vinur okkar.

Það var hægt að tala við þig um allt milli himins og jarðar. Eitt sinn ræddum við um sambönd og tal barst að því hver þín ráð væru. Svarið gleymist aldrei, svo einlægt og svo lýsandi fyrir þína persónu: „Verið góð við hvort annað.“ Þannig varst þú, góð í gegn og umhyggjan allsráðandi.

Þegar við vorum yngri óskuðum við einskis heitara en að búa á Akranesi nálægt þér og afa. Við töldum niður dagana eftir að komast aftur í heimsókn til ykkar. Það breyttist aldrei, hjá þér voru alltaf höfðinglegar móttökur, ást, gleði og öryggistilfinning.

Eftir hverja heimsókn voru kveðjustundirnar alltaf erfiðar en fallegar, þú stóðst alltaf fyrir utan útidyrahurðina og vinkaðir þangað til bíllinn var úr sjónmáli.

Þér var svo margt til lista lagt, heimili þitt var alltaf svo fallegt, þú varst stjörnukokkur og þú varst mjög fær í að sauma og prjóna.

Bestu gjafirnar voru alltaf handavinnan þín, bleikar hjólabuxur sem þú saumaðir á okkur, bútasaumspúðar, prjónaðar flíkur og margt fleira.

Öll kortspilin sem þú kenndir okkur og gleðin af að spila heldur áfram að gefa til langömmubarna þinna.

Við systur þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar og yndislegu minningarnar sem við áttum saman með þér. Þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar.

Þín barnabörn,

Guðrún Viktoría og

Kristín Laufey.

Hún amma mín

Ég þekkti eitt sinn konu, sem var mér svo kær.

Nú er hún okkur horfin, þó komin ennþá nær.

Hún færði mér gjafirnar mestu

því hennar voru faðmlögin bestu

þar sem mér fannst auðvelt að elska mig alla.

Á hennar lokastundum sá ég fegurðina í að falla

æðrulaus og mjúk á vit æðri afla.

Nú er loks komið að nýjum kafla

þar sem sefandi kyrrðin vakir

allir vöðvar slakir.

Ég eftir lifi tendruð og tær,

full þakklætis að hafa þekkt þig, elsku mær.

Við fengum saman að ferðast,

hossast, hristast og veðrast

á kæru jarðarhveli

með dýrindis hveitiméli

sem úr þú gerðir óteljandi hjónabandssælurnar

og saumaðir allt mögulegt í kringum gylltar nælurnar.

Með tár í augum og blítt bros á vörum

veit ég í hjarta mér þú ert ekki á

förum.

Þín

Áróra Helgadóttir.

Það tók mig þó nokkurn tíma að setjast niður og skrifa þessa minningargrein vegna þess að mér finnst engin orð nógu góð eða sterk til að lýsa ömmu Bobbu.

Hún var sú allra hjartahlýjasta og kærleiksríkasta kona sem ég hef nokkurn tímann kynnst. Hún vildi alltaf allt fyrir aðra gera og passaði upp á að öllum liði vel.

Ég hef alltaf litið upp til hennar sem minnar fyrirmyndar og hefur alltaf langað til að verða jafn flottur kvenskörungur og hún. Einnig hef ég horft upp til hennar sem fyrirmyndar um það hvernig móðir og amma ég vil verða.

Svo ótal margar kærar minningar úr æsku eru bundnar við ömmu, afa og ævintýralandið Akranes.

Amma hafði endalausa þolinmæði fyrir okkur barnabörnunum, spilaði við okkur, spjallaði og lék, stóð í eldhúsinu og sauð kuðunga sem við höfðum tínt á Langasandi og út við vita og hjálpaði okkur síðan að þræða nál og tvinna og búa til armbönd og hálsmen úr þeim. Hún saumaði galla og prjónaði peysur fyrir dúkkurnar okkar og leyfði okkur að velja lit og munstur, það var svo klikkað gaman!

Þegar ég var 21 árs gömul flutti ég til Noregs. Ég fékk pakka sendan frá ömmu og í honum var lopapeysa og miði sem á stóð:

„Ekki láta þér verða kalt, kveðja amma Bobba.“ Ég fékk samstundis tár í augun vegna þess hversu mikið ég saknaði hennar og vegna þakklætis. Já, hún amma Bobba sá um sína.

Alla tíð hef ég horft yfir hafið úr borginni á Akrafjall og hugsað með hlýhug til þín og ykkar. Megi minning þín lifa elsku amma Bobba og veita mér og öðrum innblástur.

Þitt barnabarn,

Þorbirna Mýrdal

Björgvinsdóttir.