Ljónagryfjan Njarðvíkingurinn Diane Diéné reynir að komast framhjá Haukakonunni Sólrúnu Ingu Gísladóttur í leiknum í gærkvöld.
Ljónagryfjan Njarðvíkingurinn Diane Diéné reynir að komast framhjá Haukakonunni Sólrúnu Ingu Gísladóttur í leiknum í gærkvöld. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Njarðvík Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Haukar og Njarðvík mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum á sunnudag.

Í Njarðvík

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Haukar og Njarðvík mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum á sunnudag. Þetta varð ljóst eftir að Haukar jöfnuðu úrslitaeinvígið í 2:2 með 60:51-útisigri í Njarðvík í gærkvöldi.

Útiliðið hefur unnið alla leiki einvígisins til þessa og á því var engin breyting í gær. Haukar voru yfir stærstan hluta leiks og tókst þeim að hrista Njarðvík af sér í seinni hálfleik. Heimakonur komu með fínt áhlaup í lokin, en það var of lítið og of seint.

Ljóst var á spilamennsku beggja liða að mikið var undir en heimakonur í Njarðvík virtust ráða verr við spennustigið í rafmögnuðu andrúmslofti. Þrátt fyrir að vera í lokaúrslitum er Njarðvík nýliði í efstu deild og eru leikmenn ekki vanir að spila leiki af þessari stærðargráðu.

Fyrsti leikhlutinn var hægur, liðin hittu illa og virtist skjálfti í leikmönnum. Bæði lið hristu af sér hrollinn í öðrum leikhluta og frá og með honum var um hörkuleik að ræða en staðan í hálfleik var 32:32.

Haukakonur skoruðu 14 af fyrstu 16 stigunum í seinni hálfleik og Njarðvík fann fá svör við sterkum varnarleik gestanna. Haukum tókst að loka vel á Aliyah Collier og þegar sú bandaríska er ekki að skora, lenda Njarðvíkingar í vandræðum. Sóknarleikur heimakvenna var einhæfur og enginn leikmaður gaf fleiri en tvær stoðsendingar. Njarðvík þarf að hreyfa boltann betur og hraðar en í gær og virkja fleiri leikmenn en Collier.

Atvinnumennirnir Lavina De Silva og Diane Oumou hjá Njarðvík áttu ekki gott kvöld og virtust hengja haus þegar illa gekk.

Hinum megin gengu Haukar á lagið og Helena Sverrisdóttir lék mun betur í seinni hálfleik en þeim fyrri. Þegar hún er í stuði hafa fá lið roð við Haukum. Eva Margrét Kristjánsdóttir átti einnig mjög góðan leik fyrir Hauka, Bríet Sif Hinriksdóttir setti niður mikilvæg skot og Haiden Palmer var örugg í sínum aðgerðum.

Haukar fengu framlag frá fleiri leikmönnum á meðan Njarðvík treysti of mikið á framlag frá Collier.

Það má búast við rosalegum oddaleik, en mikill hiti var í liðunum undir lok leiks og nálægt því að sjóða upp úr. Troðfull stúka, hiti og oddaleikur um Íslandsmeistaratitilinn. Svona viljum við hafa úrslitakeppnina.

*Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 15 stig fyrir Hauka, Bríet Sif Hinriksdóttir 11, Haiden Palmer 10 og Helena Sverrisdóttir var með 7 stig og 9 fráköst.

*Aliyah Collier skoraði 27 stig fyrir Njarðvík og tók 20 fráköst. Lavína De Silva skoraði 8 stig og tók 8 fráköst og Helena Rafnsdóttir skoraði 6 stig.

Oddaleikur liðanna á Ásvöllum hefst klukkan 19.15 á sunnudagskvöldið.