Þríeyki Hrefna Lind Lárusdóttir, Álfrún Örnólfsdóttir og Saga Sigurðardóttir í heimildarmyndinni Band.
Þríeyki Hrefna Lind Lárusdóttir, Álfrún Örnólfsdóttir og Saga Sigurðardóttir í heimildarmyndinni Band.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Fyrsta heimildarmynd Álfrúnar Örnólfsdóttur, Band , verður frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Hot Docs í Toronto í Kanada á þriðjudaginn kemur.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Fyrsta heimildarmynd Álfrúnar Örnólfsdóttur, Band , verður frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Hot Docs í Toronto í Kanada á þriðjudaginn kemur. Álfrún skrifaði handritið, leikstýrði og er auk þess ein þriggja kvenna sem fjallað er um í myndinni og vísar titillinn til hljómsveitar sem hún skipar með þeim Hrefnu Lind Lárusdóttur og Sögu Sigurðardóttur sem nefnist The Post Performance Blues Band. Myndin verður frumsýnd hér á landi í nóvember en ekki liggur fyrir hvort hún verður sýnd á fleiri hátíðum þangað til.

Álfrún segir The Post Performance Blues Band hljómsveit með meiru, hún flytji vissulega lög en sé líka að fremja gjörning. „Þetta er gjörningur í leiðinni, mjög sjónrænt,“ útskýrirÁlfrún og segir að flutningurinn sé bæði skemmtilegur og hressandi.

Stofnuðu hljómsveit í námi

Álfrún er leikkona að mennt og þekkt sem slík og hefur einnig lokið meistaragráðu í sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Hrefna er sviðslistakona sem vinnur á mörkum listforma og Saga dansari og danshöfundur. Álfrún segir að þær hafi stofnað hljómsveitina þegar þær voru saman í meistaranámi.

„Okkur langaði að gera eitthvað saman og við byrjuðum að ræða um það hvað okkur langaði að gera og okkur langaði allar að vera í hljómsveit. Hrefna Lind semur alla textana og hún semur svo fáránlega skemmtilega texta að það urðu bara til lög og einhverjir gjörningar út frá þeim. Svo höfum við bara haldið áfram, fólk hefur verið að bóka okkur á tónleikastöðum og svona og við föttuðum að við værum hljómsveit og boltinn fór að rúlla,“ segir Álfrún.

–Þið spilið á hljóðfæri, eða hvað?

„Voða lítið, við erum bara með tölvu og syngjum og hreyfum okkur mjög mikið. Við höfum stundum verið með einn bassa,“ svarar Álfrún og greinilegt að töluvert pönk er í þessu tríói.

Raunverulegir atburðir og endurgerðir

Álfrún er spurð frekar út í umfjöllunarefni myndarinnar. „Við gefum okkur eitt ár til að slá í gegn af því þetta gengur svo erfiðlega og við erum orðnar svo þreyttar á því að upplifa vonbrigði og höfnun aftur og aftur,“ segir Álfrún. Þær ákveði að kýla bara á þetta, gefa sér eitt ár í verkefnið og bóka tónleika í Hörpu. Tónleikarnir verði annaðhvort lokatónleikar bandsins eða því fagnað hversu vel gekk á árinu.

–Á vef Kvikmyndamiðstöðvar stendur að þú sért að leika þér með heimildarmyndarformið á skapandi hátt...

„Já, þetta er einhver texti frá þeim en það er kannski af því að þetta er performans-band, gjörningur. Ég sviðset til dæmis einvígi niðri á bryggju þegar við hittum Ragga Kjartans, það er ekki viðtal. Það eru svona leikhús-element eða uppstillt því þannig er hugarheimur og heimur bandsins. Svo er líka það að sumar senur eru endurgerðar, einhverjar sem við náðum ekki þegar þær gerðust og því sviðsetti ég þær,“ svarar Álfrún og er spurð hvort munurinn á raunverulegum atburðum og endurgerðum eða leiknum sjáist. Álfrún segir fleiri hafa velt því fyrir sér. „Þetta er allt satt en sumt gerðist og annað er endurleikið. Þetta er allt annað hvort byggt á sönnum atburðum eða satt í augnablikinu.“

Fullorðnar konur með skuldbindingar

–Af stiklunni að dæma var bæði gleði og fjör en líka mikil dramatík og grátur. Hvað var að gerast í mesta dramanu, ef ég mætti spyrja?

„Við erum ekki tvítugar lengur, þetta er ekki mynd um unglingaband heldur fullorðnar konur sem eru á einhverjum tímapunkti í lífi sínu að spá í hvort þær eigi að halda þessu áfram eða ekki. Þetta snýst svolítið um hvenær maður eigi að fylgja eftir draumum sínum og hvenær að hætta af því eitthvað gengur ekki. Á þessum dramatísku punktum erum við að fást við tilfinningar, höfnun og finnast við vonlausar. Við þurfum að mæta svolítið sjálfum okkur í þessari mynd, við erum ekkert að draga neitt undan. Mér finnst ég stundum algjör fáviti í þessari mynd og það er bara mjög skýrt en ég er líka leikstjórinn þannig að það verður bara að hafa það. Ég er ekki bara að sýna mínar bestu hliðar. Við förum bara inn í sársaukann við að finnast maður vera hálfmisheppnaður, maður er kominn með fjölskyldu og skuldbindingar og er svo bara á hálftómum bar að láta eins og fífl.

Svo er líka spurningin hvort maður sé að láta eins og fífl eða gera eitthvað sem skiptir máli og þá þarftu náttúrlega áhorfendur til að segja þér að þetta skipti þig máli því alltaf þegar þú ert að performera – hvort sem það er sem leikari, tónlistarmaður eða listamaður – ertu í sambandi við áhorfendur og þú þarft að finna að þú skiptir einhverju máli. Að það sem þú ert að gera skipti máli,“ segir Álfrún. Dramatíska spurningin í myndinni sé því hvenær sé komið nóg og hvenær eigi að halda áfram að berjast fyrir því sem maður trúir á.

Líkt og hún væri stödd í bíómynd

Álfrún er spurð af hverju hún hafi ákveðið að gera þessa heimildarmynd. „Ég bara ákvað að gera þessa mynd af því ég var í þessari hljómsveit, leið eins og ég væri stödd í bíómynd. Mér finnst þetta svo frábært band og eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert er að vera í þessari hljómsveit en við vorum stundum í svo súrrealískum aðstæðum; uppi á sviði fyrir framan fimm manneskjur og búnar að borga barnapíunni tíuþúsundkall og pítsu heima. Ég spurði sjálfa mig hvort ég sem fullorðin manneskja gæti gert þetta og ég gat það eiginlega ekki en ég hugsaði með mér að ef það væri myndavél á staðnum yrði þetta svo ógeðslega fyndin sena. Og af því ég var með vinkonum mínum gátum við hlegið að öllum mistökunum og öllum ömurlegu mómentunum og húmorinn bjargaði okkur. Myndin er fyndin af því við reynum að nota húmor til að komast í gegnum ömurlegar aðstæður,“ segir Álfrún.

Hún segist hafa áttað sig á því að þetta væri efni í heimildarmynd og þar sem hún hafi verið með ákveðna sýn á hana hafi hún kosið að leikstýra sjálf. „Ég bara slysaðist til að gera þessa mynd,“ segir Álfrún kímin.

Stiklu fyrir Band má finna á YouTube og frekari upplýsingar um Hot Docs á hotdocs.ca.