Blómlegt Gestir á markaðstorgi á Reykjum á sumardaginn fyrsta.
Blómlegt Gestir á markaðstorgi á Reykjum á sumardaginn fyrsta.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Ég er fyrst og fremst döpur vegna þess að menn virðast ekki skilja mikilvægi góðrar og hagnýtrar starfsmenntunar í garðyrkju.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Ég er fyrst og fremst döpur vegna þess að menn virðast ekki skilja mikilvægi góðrar og hagnýtrar starfsmenntunar í garðyrkju. Síðustu ár hefur verið ólgusjór í kringum fyrirkomulag námsins og óvissuferðinni er ekki lokið,“ segir Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur um stöðu garðyrkjunáms.

Hún hefur staðið í stafni í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi frá árinu 2005, en fékk uppsagnarbréf í vikunni. Námið á að færast undan hatti Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri til Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi frá 1. ágúst næstkomandi. Stefnt er að því að námið fari þó að mestu eða öllu leyti fram á Reykjum.

Guðríði var í vikunni tilkynnt að starf hennar hefði verið lagt niður og sömu sögu er að segja um þau Björgvin Örn Eggertsson skógfræðing, Ágústu Erlingsdóttur skrúðgarðyrkjumeistara, Ingólf Guðnasongarðyrkjufræðing og Svölu Sigurgeirsdóttur, fulltrúa á kennsluskrifstofu. Áður höfðu tveir kennarar sagt upp störfum og er því enginn fastráðinn kennari garðyrkjunáms við skólann, að sögn Guðríðar.

Eftir deilur um stöðu og umgjörð garðyrkjunáms á milli yfirstjórnar á Hvanneyri og atvinnulífs garðyrkjunnar ákvað menntamálaráðherra á Þorláksmessu 2020 að flytja námið í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Guðríður segir að tíminn síðan hafi verið illa notaður.

Hún segir að uppsagnirnar hafi ekki komið með öllu á óvart, frekar hvernig staðið var að málum. Starfsfólk hefði getað skilið stöðuna þannig að það fengi tilkynningu um tilflutning í starfi og skilaboð frá ráðuneyti, yfirstjórn Landbúnaðarháskólans og stéttarfélögum hafi verið misvísandi.

Framtíðin óljós

Spurð hvað hún hyggist gera segir Guðríður það vera óljóst, en þegar hafi henni verið boðin önnur störf. Hún er menntaður garðyrkjufræðingur frá Reykjum, líffræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistarapróf í verkefnastjórnun. Hún var staðarhaldari og yfirmaður starfs- og endurmenntunar á Reykjum frá 2005 til 2019 og hefur verið í forsvari fyrir garðyrkjunámið þangað til í vikunni. Meðal annars skrifaði hún ásamt samstarfsfólki á Reykjum og fulltrúa atvinnulífs garðyrkjunnar námskrá fyrir garðyrkjunámið sem viðurkennd var af menntamálaráðuneyti árið 2018.

„Ég er sérfræðingur í garðyrkju, en er hins vegar ekki með kennsluréttindi, sem krafist er í venjulegum framhaldsskólum,“ segir Guðríður. „Enn hefur ekki verið gengið frá samningi við Fjölbrautaskólann og meðan svo er geta þau ekki auglýst störfin. Ég veit ekki hvernig þetta þróast og hvort ég mun starfa áfram á þessum vettvangi. Öll þessi ár hef ég starfað við kennslu í garðyrkju vegna þess að ég hef ástríðu fyrir þessu starfi. Það er ástæðan fyrir því að ég er hérna enn þá þrátt fyrir að gengið hafi á ýmsu.“

Eldri nemendur á Reykjum

Guðríður segist hafa meiri áhyggjur af framtíð garðyrkjunámsins heldur en sjálfri sér. Hún tekur fram að þeir nemendur skólans sem eigi eftir að ljúka námi fái tækifæri til að ljúka því á Reykjum í sama takti og verið hefur. Stóra spurningin í þeim efnum sé hins vegar kennaraleysið eftir uppsagnir vikunnar.

Á Reykjum hafa í vetur verið um 100 nemendur og meðalaldur þeirra um 35 ár. Það er nokkuð hærri aldur en í hefðbundnum framhaldsskólum þar sem stærsti aldurshópurinn er 16-18 ára. Hún segist því hafa áhyggjur af því að vegna aldurs sitji eldri nemendur í garðyrkjunámi ekki við sama borð og yngri umsækjendur. Nemendur á Reykjum koma alls staðar að af landinu, en FSU er frekar svæðisbundinn skóli á Suðurlandi. Einnig stunda margir fjarnám á Reykjum að stórum hluta.

Vantar fólk sem kann til verka

„Okkur vantar fólk sem kann til verka, getur farið út og unnið störfin í garðyrkju og tengdum greinum,“ segir Guðríður. „Margir sjá ekkert nema rannsóknir og nýsköpun, sem er algerlega lífsnauðsynlegt fyrir okkur, en mér finnst umræðan vera á kostnað starfsmenntanáms. Það má ekki stilla þessu upp eins og það sé annaðhvort eða. Auðvitað þurfum við sterkt starfsmenntanám í garðyrkju og einnig rannsóknir og nýsköpun til framtíðar.“

Guðríður segir að skólameistari FSu hafi unnið náið með starfsmönnum á Reykjum í tengslum við þessar breytingar og ýmis tækifæri séu í tengingu garðyrkjunámsins við öflugan framhaldsskóla. Garðyrkjuskólinn sé þó um margt ólíkur hefðbundnum framhaldsskóla, meðal annars vegna þeirrar sérhæfðu aðstöðu sem námið þurfi á að halda í gróðurhúsum og landrými.

Í þessu efni séu ýmis mál óútkljáð og megi þar einnig nefna húsnæðið sem notað hefur verið til skólahalds á Reykjum. Starfsmenntanámið hafi verið um 90% þess starfs sem unnið hafi verið á Reykjum, en um 10% hafi verið vegna rannsókna. Skólahúsnæðið heyri að óbreyttu undir ráðherra háskólanna, en garðyrkjunámið undir menntamálaráðherra. Það auki enn flækjustigið, sem hafi þó verið ærið fyrir.

Óboðleg óvissa

„Forsendan fyrir því að þessi yfirfærsla námsins gangi vel fyrir sig er að Reykir með allri áhöfn og aðstöðu færist undan hatti LbhÍ og til FSu og að réttindi starfsmanna og nemenda verði tryggð á sómasamlegan hátt, eins og rætt var um í upphafi. Sú óvissa sem hefur verið uppi síðustu þrjú ár er óboðleg með öllu.

Það sýnir kannski alvarleika stöðunnar að nú, einu og hálfu ári eftir að ráðherra ákvað að færa námið til FSu, sé enn ekki kominn á samningur um yfirfærsluna og námið því í uppnámi. Það er óskiljanlegt í ljósi þess að nú á að auka við matvælaframleiðslu í landinu, framleiða og gróðursetja garð- og skógarplöntur, grisja skóga og fegra umhverfi og öll þessi störf eru kennd í Garðyrkjuskólanum, sem er eini staðurinn í landinu þar sem þessar greinar eru í boði,“ segir Guðríður að lokum.