Ellert Karlsson fæddist í Reykholti í Vestmannaeyjum 5. desember 1944. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík aðfaranótt miðvikudagsins 13. apríl 2022.

Foreldrar hans voru Karl Guðmundsson, f. 4.5. 1903, d. 10.5. 1993, og Unnur S. Jónsdóttir, f. 6.6. 1912, d. 16.2. 1995. Hann var yngstur þriggja bræðra en bræður hans eru Jón, f. 1934, d. 2003, kona hans var Dagrún Helga Jóhannsdóttir, og Guðmundur, f. 1936, kona hans er Ásta Þórarinsdóttir.

Ellert kvæntist í Vestmannaeyjum 19. júlí 2012 eftirlifandi eiginkonu sinni, Ásdísi Þórðardóttur, f. 28. október 1964. Ásdís er dóttir Þórðar M. Kristensen og Kristínar Eiríksdóttur sem bæði eru látin. Börn Ellerts og Ásdísar eru Bryndís Helga, f. 29. júní 1991, og Kristján Unnar, f. 19. febrúar 1996.

Ellert ólst upp í Vestmannaeyjum. Hann byrjaði 13 ára gamall að spila á trompet í Lúðrasveit Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, kennari og stjórnandi var Oddgeir Kristjánsson tónskáld. Þarna var lagður grunnur að tónlistaráhuga Ellerts sem átti eftir að fylgja honum út allt lífið. Hann gekk í Lúðrasveit Vestmannaeyja 1958 og var virkur félagi til 1973 ásamt því að stjórna sveitinni.

Hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1967-1968 og einnig einkanám í hljómsveitarstjórn og útsetningum hjá Páli Pampichler Pálssyni og svo aftur 1970-1972 þar sem hann var nemandi í fyrstu blásarakennaradeildinni.

Þegar gaus í Eyjum 1973 fluttist Ellert til Reykjavíkur og starfaði í Landsbanka Íslands frá 1973-2011.

Ellert spilaði með Lúðrasveitinni Svan frá 1967-1978 en einnig spilaði hann með Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Lúðrasveit Reykjavíkur. Hann var blásarakennari á árunum 1973-1980. Hann tók þátt í nokkrum tilraunum FÍH til stofnunar stórhljómsveita (Big Band) á tímabilinu 1974-1981. Hann tók við sem stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins 1978 og stjórnaði sveitinni til 1988. Eftir að hann hætti að vinna tók hann aftur upp trompetinn og spilaði með Stórsveit öðlinga (nú Stórsveit Íslands) og Brassbandi Reykjavíkur.

Eftir hann liggja margar útsetningar fyrir lúðrasveitir og brassbönd: Íslensk þjóðlög og dægurlög, Eyjalögin hans Oddgeirs, Árni Björnsson, Jón Múli, Sigfús Halldórsson og fleiri.

Útför Ellerts fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 29. apríl 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Okkur systkinin langar að minnast Ellerts frænda, föðurbróður okkar, sem verður jarðsunginn í dag. Minningar um hann eru einungis litaðar jákvæðni og hversu góður maður hann var. Í æsku var ávallt gleðiefni að hitta hann þegar hann bjó enn með ömmu og afa, spilaði hann þá gjarnan á píanóið eða leyfði okkur að hlusta á þær ólíku plötur sem hann átti, allt frá klassískri tónlist og djassi yfir í Spike Jones og síðast ekki síst þemalög úr Star Wars- kvikmyndunum sem skörtuðu miklum lúðrablæstri.

Einnig eigum við minningar um að mæta á tónleika þegar hann var í Lúðrasveitinni Svan og síðar á tónleika með Lúðrasveit verkalýðsins þar sem hann var stjórnandi. Maður var stoltur af því að vita að sá sem veifaði sprotanum og stjórnaði öllum hinum tónlistarmönnunum væri Ellert frændi.

Tónlistin átti hug hans allan og eftir hann liggur aragrúi laga sem hann útsetti af mikilli fimi.

Nær okkur í tímanum, eftir að við komumst öll á legg, stofnuðum heimili og þurftum aukahendur við flutninga og aðstoð við að mála eigum við minningar um það hve hjónin Ellert og Ásdís voru alltaf boðin og búin að aðstoða af miklum krafti.

Það eru þessir mannkostir, hjálpsemi og glaðlyndi, sem munu standa upp úr í minningunni um Ellert og við þökkum fyrir allt um leið og við vottum eiginkonu hans, Ásdísi, og börnum þeirra, Bryndísi Helgu og Kristjáni Unnari, innilega samúð.

Unnur Vala, Karl Jóhann, Sæþór og fjölskyldur.

Kveðja frá Sambandi íslenskra lúðrasveita

Í dag er borinn til grafar Ellert Karlsson.

Ellert Karlsson skilur eftir sig djúp spor í sögu íslenskra lúðrasveita. Eftir hann liggur fjöldinn allur af útsetningum, ekki bara fyrir lúðrasveitir heldur einnig fyrir minni hópa. Oft þurfti Ellert að aðlaga útsetningar eftir stærð og ekki síður getu þeirra sem áttu að spila. Hann var stjórnandi á nokkrum landsmótum og eins stjórnaði hann úrvalssveit SÍL.

Ellert var sannkallaður fagurkeri og bera útsetningar hans merki um það. Nóturnar allar handskrifaðar til að byrja með og það sést vel hve mikla alúð hann lagði í allan frágang, rithönd hans var einstaklega fáguð og falleg.

Ellert á miklar þakkir skildar frá öllum íslenskum lúðrasveitum og hans óeigingjarna vinna sem hann lagði í útsetningar er ómetanleg. Framlag hans til lúðrasveitamenningar verður seint fullþakkað. Verður hans minnst sem eins af lykilmönnum Sambands íslenskra lúðrasveita.

Ég er ekki alveg viss hvenær ég hitti Ellert fyrst en í minningunni er það á lúðrasveitaræfingu í Vestmannaeyjum. Síðan var það á landsmóti lúðrasveita í Hafnarfirði 1982 en þá sameinuðust Lúðrasveit Vestmannaeyja og Lúðrasveit verkalýðsins í skrúðgöngu.

Þegar ég fór að vinna í Reykjavík haustið 1985 þekkti ég tvo lúðrasveitakarla; Ellert (41 árs) sem var í Lúðrasveit verkalýðsins og Jónas Bjarnason (29 ára) í Svaninum. Ástæða þess að ég fór í Lúðrasveit verkalýðsins var að Ellert var á undan í símaskránni. Símtalið var einfalt: „Hæ, má ég koma á lúðrasveitaræfingu hjá þér?“ „Já komdu á mánudaginn í Skúlatún 6, við byrjum klukkan átta,“ var svarið. Síðan þá hef ég mætt með nokkrum hléum á æfingu á mánudögum.

Eitt sinn hringdi Ellert í mig þegar ég var í Eyjum og spurði: „Hvort ertu að spila á flautu eða túbu?“ „Ég er á túbunni núna, hvers vegna spyrðu?“ „Ég er að útsetja fyrir Eyjasveitina og var að velta fyrir mér hvort Maggi á Grundó væri einn á túbunni eða hvort þið væruð saman félagarnir,“ svaraði Ellert. Það var akkúrat þannig sem Ellert var; kanna hverjir væru að spila hvaða rödd og útsetti í samræmi við getu spilaranna.

Ég fór í nokkrar ferðir með Ellerti bæði innan- og utanlands. Síðasta ferð okkar saman var einmitt til Færeyja, auðvitað á lúðrasveitamót, þar sem við Ellert fengum að spila með Brassbandi Reykjavíkur. Ein eftirminnilegasta ferð okkar var til Austur-Þýskalands 1986 þar sem Ellert stjórnaði Lúðrasveit verkalýðsins af sinni alkunnu snilld. Þar gengum við í sexfaldri röð í skrúðgöngu og eins og Atli Magnússon sagði; allir í svörtum sokkum!

Ellert var einstaklega ljúfur maður og gott að leita til hans. Stundum var sagt um menn: hann var drengur góður. Það á sannarlega við um Ellert.

Elsku Ásdís, Bryndís, Kristján og aðrir aðstandendur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar.

Minning um góðan dreng lifir.

Páll Pálsson, formaður Sambands íslenskra lúðrasveita.

Kveðja frá Lúðrasveit verkalýðsins

Það var á árinu 1978 sem leiðir Lúðrasveitar verkalýðsins og Ellerts Karlssonar lágu saman. Það ár var Ellert ráðinn stjórnandi sveitarinnar. Mörg okkar sem voru í sveitinni á þeim tíma könnuðust við manninn. Þekktum hann af trompetleik með Lúðrasveitinni Svani og sömuleiðis úr Lúðrasveit Vestmannaeyja. Ellert lærði ungur á trompet úti í Eyjum hjá þeim þekkta músíkant Oddgeiri Kristjánssyni og lék um langt árabil með lúðrasveitinni þar, auk þess að stjórna um tíma sveitinni.

Þegar Ellert tók við LV var hljómsveitin bæði fámenn og veikburða, en það átti heldur betur eftir að breytast á næstu árum. Með Ellert kom meiri fjölbreytni í lagavali, agaðri vinnubrögð og meiri metnaður. Á örfáum árum styrktist sveitin til muna, svo eftir var tekið. Æfingum fjölgaði og árangurinn þar með. Létt lund Ellerts, jákvæðni og skemmtileg viðfangsefni drógu fólk að sveitinni. Undir stjórn Ellerts fjölgaði árlegum tónleikum í tvenna og lúðrasveitin lék við ýmis merkileg tækifæri, svo sem á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar, við vígslu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, við vígslu Kringlunnar og svo mætti lengi telja. Lengi lifir í minnum félaga tónleikaferð sveitarinnar til Danmerkur og A-Þýskalands árið 1986. Þar hélt sveitin meðal annars tónleika á stóru sviði í Tívolí í Kaupmannahöfn auk þess að taka þátt í alþjóðlegri lúðrasveitasamkeppni í R ostock þar sem sveitin fékk sérstaka viðurkenningu fyrir vandaðan flutning.

Framlag Ellerts til íslenskra lúðrasveita er ómetanlegt. Enginn hefur útsett jafn mikið af efni fyrir íslenskar lúðrasveitir og Ellert gerði. Þar skilur hann eftir sig gríðarmikið safn sem íslenskar lúðrasveitir hafa notið góðs af og munu eflaust gera um alla framtíð. Bóngóður var Ellert með eindæmum. Eitt sinn lá LV mikið á að fá útsettan sorgarmars með litlum fyrirvara og leitað var til Ellerts. Hann settist strax niður við verkið og unni sér ekki hvíldar fyrr en að morgni næsta dags þegar útsetningin var tilbúin. Eftir að Ellert lét af störfum hjá LV árið 1988 var hann fastagestur á öllum tónleikum. Algengt var að félagar tækju hann þá tali eftir konsertinn; þá brosti Ellert jafnan breitt og kom með góðar ábendingar og uppbyggilega gagnrýni.

Lífsförunaut sinn fann Ellert í lúðrasveitinni. Þar kynntist hann Ásdísi Þórðardóttur trompetleikara og stofnuðu þau fjölskyldu og eignuðust börnin Bryndísi Helgu og Kristján Unnar. Þau syrgja nú ljúfan eiginmann og föður.

Lúðrasveit verkalýðsins stendur í ævarandi þakkarskuld við Ellert Karlsson fyrir hans einstaka framlag í hennar þágu, alla tíð. Þegar kom að því árið 1989 að velja fyrstu heiðursfélaga sveitarinnar var Ellert að sjálfsögðu í þeim hópi.

Elsku Ásdís, Bryndís og Kristján – ykkar harmur er stór, en vonandi ylja og gleðja minningar um frábæran mann. Blessuð sé minning Ellerts Karlssonar.

Eggert Jónasson.