Mörg framboð vilja spóla áfram og jafnvel enn hraðar út í ógöngurnar

Reykjavíkurborg glímir við gríðarlegan vanda og fjölþættan sem afar mikilvægt er að tekið verði á þegar að kosningum loknum. Að því leyti má taka undir orð Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, sem sagði í samtali við mbl.is á dögunum að kosningarnar séu „rosalega mikilvægar“ en ástæða þess að kosningarnar eru „rosalega mikilvægar“ er að vísu önnur en Dagur tíndi til. Hann nefndi að á næsta kjörtímabili „fara borgarlínan og Miklubrautarstokkur í framkvæmd, margar framkvæmdir klárast en aðrar fara í gang,“ og bætti því við að hætta væri á að framkvæmdir tefðust ef „fólk sem er með óljósa framtíðarsýn“ kæmist að. Og hann nefndi einnig að ef ætti að kollvarpa stefnunni væri hætt við að húsnæðisuppbygging tefðist og tafirnar í umferðinni yrðu meiri. Fyrir þá sem þurfa um þessar mundir að kaupa húsnæði þegar ekkert fæst og bíða löngum stundum í umferðinni, hvort tveggja í boði meirihluta Samfylkingar, Pírata, VG og Viðreisnar, eru þessi ummæli vægast sagt undarleg en þau lýsa líka þeirri fjarstæðukenndu kosningabaráttu sem nú er hafin um höfuðborgina.

Þýðing þeirra kosninga sem framundan eru ætti að vera mikil en ekki af þeim ástæðum sem Dagur nefnir og þeirrar stefnu sem hann og meirihlutaflokkarnir fylgja í þeim málum.

Kosningarnar sem framundan eru í höfuðborginni ættu að vera þýðingarmiklar vegna þess að höfuðborgin er í miklum vanda eftir langvarandi óstjórn vinstri manna og rangrar stefnu sem rekin er af ofsa og yfirgangi. Vandi Reykjavíkur kemur skýrt fram í fjárhag borgarinnar sem er vægast sagt slæmur og fer hratt versnandi. En vandi reykvískra kjósenda er að um þennan fjárhagsvanda borgarinnar ræðir varla nokkur frambjóðandi og ekkert framboð leggur áherslu á að leysa þennan vanda. Það er varla á hann minnst. Sumir minnihlutaflokkar hafa að vísu nefnt hann þó að hann sé ekki efstur á blaði en meirihlutinn kannast ekki einu sinni við hann.

Og kosningaloforðin bera þess merki. Í stað þess að framboðin leggi áherslu á aðhald í rekstri og ábyrga fjármálastjórn eru útgjaldaloforðin allsráðandi rétt eins og aldrei komi að skuldadögunum. Stærsta útgjaldamálið, borgarlínan svokallaða sem mun þrengja götur og tefja umferð, er meira að segja keyrt áfram eins og ekkert hafi í skorist. Og ekki nóg með það, einstaka framboð býður jafnvel upp á að hraða ósköpunum!

Það er þess vegna rétt að næsta kjörtímabil getur verið afar þýðingarmikið og eru ástæðurnar fleiri en hér hafa verið nefndar. En kjósendum í borginni hlýtur að fyrirgefast þó að þeir eigi erfitt með að finna leiðina út úr ógöngunum.