Þorvaldur Jónsson fæddist 13. janúar 1931. Hann lést 17. apríl 2022.

Þorvaldur va jarðsunginn 28. apríl 2022.

Elsku afi.

Fyrir ca. 22 árum þegar Jón afi minn féll frá léstu mig lofa þér að þegar þinn tími kæmi myndi ég skrifa jafnfallega minningargrein til þín, eins og ég skrifaði til Jóns afa. Ég ætla að reyna að standa við það loforð.

Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og mínum, elsku afi eða Nafni eins og þú varst ávallt kallaður á mínu heimili, þar sem ég skírði frumburð minn eftir þér, ég held að þú hafir verið bara ansi stoltur af því. Afkomendur ykkar ömmu eru nú hátt í 100 manns og öll syrgjum við þig mikið, þú varst í góðum samskiptum við alla fjölskyldumeðlimi, hafðir mikinn áhuga á að vita hvað allir væru bralla, flutningar, vinna, skóli eða hvað sem er.

Hraustari afi, langafi og langalangafi var vandfundinn, þú varst akandi um á vespunni þinni um Breiðholtið þangað til fyrir bara örfáum árum, fórst í sund nokkrum sinnum í viku, gerðir við bíla, Harmonikkan var þitt aðaláhugamál og varstu að spila fyrir gamla fólkið á spítalanum bara nokkrum dögum áður en þú kvaddir. Ég er svo þakklátt fyrir cd-diskana sem þú gafst út með tónlistinni þinni á liðnum árum. Brúðkaupslagið sem þú samdir til mín og Sigga míns er mér svo dýrmætt.

Síðustu samræður okkar sem við áttum í síma voru þegar þú varst nýkominn í Brákarhlíð, 6 dögum áður en þú kvaddir okkur, 15 mínútna samræður þar sem þú sást aðallega um að tala, svo hress varstu, ég held að þú hafir verið ágætlega sáttur; sáttur við 91 ár sem þú varst búinn að lifa, þú vissir í hvað stefndi, en þú sagðir við mig: Já, Hilda Bára mín, svona er þetta bara. Ég er svo þakklát líka að ég gat verið hjá þér ásamt flestu okkar nánasta fólki allan páskadaginn, daginn sem þú kvaddir, og haldið í hönd þína, tekið utan um þig, hugsað um þig og sagt við þig að ég elskaði þig. Þú áttir svo erfitt eftir að mamma veiktist og ennþá meira eftir að hún féll frá að það var erfitt að horfa upp á það, en þér fannst ekki rétt að við þyrftum að kveðja hana á undan þér, en nú eruð þið sameinuð aftur ásamt ömmu.

Þegar mamma kvaddi okkur fyrir rétt rúmum þrem mánuðum var það eitt af því erfiðasta sem ég hef upplifað, sárin eru ekki gróin þegar þú kvaddir okkur aðeins 81 degi seinna og eru þetta mjög erfiðir tímar fyrir okkur, en ég hugga mig við það að amma og mamma hafa tekið á móti þér með opnum örmum, þú ert orðinn verkjalaus og svífur um á bleiku skýi með þeim mæðgum og ég er viss um að þið eruð þarna öll þrjú að vaka að yfir okkur.

Ég á svo mikið eftir að sakna þín, elsku afi, þangað til við hittumst aftur, kysstu og taktu utan um mömmu og ömmu frá mér. Ég elska þig.

Þín

Hilda Bára.

Elsku afi, það er voðalega skrítið að geta ekki hringt í þig og sagt „hæ hvað segir þú í dag“, og svo að spjalla bara um daginn og veginn, þar sem ég hef hringt í þig nokkuð mikið undanfarið út af svolitlu, sem enginn réði við, ásamt því að koma í heimsókn við og við. Það er voðalega skrítið að þú sért farinn yfir í sumarlandið, en eftir standa bestu minningar sem við höfum safnað saman. Mínar fyrstu minningar um þig eru hlátur, þolinmæði, gleði og bros.

Þegar ég renni í gegnum minningarnar okkar þá endurspegla þær alla þessa aðalkosti sem eru taldir upp hér fyrir ofan. Þessar minningar eru mjög dýrmætar og fylgja mér sem dýrmæt eign í hjarta mínu. Takk afi fyrir að vera duglegur að búa þær til. Takk fyrir að vera alltaf hlæjandi og brosandi og alltaf viljugur til að róa mann niður ef það þurfti og minna mann á að lífið hefur nú sinn vanagang þó að það verði hindranir á vegi manns. „Þannig er nú bara lífið“ var setning sem þú sagðir nokkuð oft við mig alla vegana. Ég get endalaust setið og hugsað um góðar minningar um þig og allan þann tíma sem þú varðir með mér. Takk fyrir að vilja styrkja mig til þess að syngja og koma fram opinberlega (þó svo að það hafi nú ekki alveg náð svo langt). Takk fyrir öll sumrin sem ég fékk að vera hjá ykkur ömmu sem barn, veturinn sem ég fékk að búa hjá ykkur, allar sundferðirnar áður en við urðum svona mörg barnabörnin, allt spjallið, alla tónlistina, og takk fyrir að kenna okkur öllum að tónlist er eitt það mikilvægasta í lífinu fyrir utan þolinmæðina.

Elsku afi, ég á alltaf eftir að sakna þín mikið, en veit að þér líður betur í sumarlandinu og ef ég þekki þig rétt ertu nú búinn að halda nokkur böll/tónleika fyrir gestina í sumarlandinu. Takk fyrir síðasta kossinn og faðmlagið nokkrum dögum áður en þú fórst.

Votta ég öllum ættingjum og vinum innilega samúð.

Salvör Sigríður Jónsdóttir (Sallý).

Elsku langafi. Ég veit bara að ég mun sakna þín mjög mikið.

Takk fyrir að spila á harmonikuna fyrir mig í kjallaranum heima hjá ömmu og afa í Blöndubakkanum. Takk fyrir að leyfa mér að setjast á vespuna þína þegar ég hitti þig þegar ég var í göngutúr með gamla leikskólanum mínum.

Ég mun segja bróður mínum Hauki Michael hversu flottan langafa við áttum.

Þitt langafabarn,

Bára Rós.