Salvör Nordal
Salvör Nordal
Málþing um réttindi barna í stafrænu umhverfi er haldið á Grand hóteli í dag kl. 8.30-10.15. Að því standa Fjölmiðlanefnd, Persónuvernd og Umboðsmaður barna.

Málþing um réttindi barna í stafrænu umhverfi er haldið á Grand hóteli í dag kl. 8.30-10.15. Að því standa Fjölmiðlanefnd, Persónuvernd og Umboðsmaður barna.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, opnar málþingið og kynnir nýjar leiðbeiningar fyrir foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólk skóla- og frístundastarfs. Þær verði birtar á barn.is um leið og málþingið hefst.

„Leiðbeiningarnar varða rétt barna til einkalífs og netöryggi. Hvað foreldra varðar er lögð áhersla á að þeir ræði þessi mál við börn sín. Við förum yfir samfélagsmiðla, tölvuleiki, aldursviðmið og samskipti barna og foreldra. Einnig aldur notenda, nettengd leikföng og margt fleira. Auk þess er fjallað almennt um persónuupplýsingar, notkun samfélagsmiðla og myndatökur og myndbirtingar,“ segir Salvör. Hún segir að börn í ráðgjafahópi Umboðsmanns barna séu mjög upptekin af myndbirtingum. Þá verður vikið að neteinelti, hættum sem leynast í stafrænu umhverfi, miðlalæsi barna og mikilvægi heilbrigðrar umræðu.

Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd, mun segja frá niðurstöðum víðtækrar könnunar um börn og netmiðla sem var gerð vorið 2021. Niðurstöðurnar birtast í sjö hlutum og hafa fjórir verið kynntir á fjolmidlanefnd.is . Fimmti hlutinn um börn og tölvuleikjanotkun verður birtur í næstu viku.

Unnur Sif Hjartardóttir, lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi, heldur erindi um friðhelgi einkalífs barna í nútímasamfélagi og Steinunn Birna Magnúsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd, ræðir um hvernig tryggja má persónuvernd barna. Fjögur börn úr ráðgjafahópi umboðsmanns barna taka þátt í pallborðsumræðum ásamt fleirum.

Málþingið verður tekið upp og upptakan birt síðar. gudni@mbl.is