Hafþór Haraldsson fæddist 6. júlí 1944. Hann lést á líknardeild Landspítala 8. apríl 2022.

Útför hans fór fram 22. apríl 2022.

Elsku Hafþór okkar, uppáhaldsfrændi, hefur kvatt okkur og munum við sakna hans. Við erum þó viss um að nú er hann aftur hjá Ívari sínum og sú hugsun yljar okkur. Við systkinin eigum margar dýrmætar minningar með Hafþóri og Ívari, líkt og margir aðrir. Báðir voru þeir alveg einstakir, svo glaðlyndir og hjartahlýir.

Ofarlega í minningum okkar verða allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Jólin standa þar sérstaklega upp úr, þótt Hafþór frændi hafi nú borðað fullhægt fyrir okkur systkinin. En það var eitt af einkennum Hafþórs, hann vildi einmitt njóta matarins eins og hann naut lífsins.

Þá munum við líka muna eftir öllum skemmtilegu heimsóknunum til Hafþórs og Ívars þar sem listaverkin, Disney-vídeóspólur og spilastundir stóðu upp úr. Það voru alltaf allir velkomnir í Sólheimana og var Ívar ósjaldan búinn að græja eitthvað gott.

Hafþór var vinmargur og ansi upptekinn að rækta vina- og fjölskyldusamböndin, ýmist í veislum eða á ferðalögum. Það var mikill kraftur í honum Hafþóri okkar og hann lagði mikla vinnu í að hugsa um sitt fólk, hérlendis sem erlendis. Það eiga því margir eftir að sakna hans eins og við. Við munum hugsa til hans með hlýhug í dag og alla daga.

Hafðu þökk

Þín gullnu spor

yfir ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð

(Hulda Ólafsdóttir)

Eggert Oddur, Haraldur

Ingi, Linda Rós, Katrín

Ella og fjölskyldur.

Hafþór frændi var búinn að berjast við krabbamein í nokkur ár og einkenndist barátta hans ætíð af jafnaðargeði. Hans heitasta ósk var að hann færi ekki á undan honum Ívari sínum og varð honum að þeirri ósk en nánast er eitt ár á milli fráfalls þeirra.

Hafþór var mikill fjölskyldumaður þrátt fyrir að vera barnlaus sjálfur. Heimili hans og Ívars var alltaf opið og þótti þeim gaman að fá gesti. Honum var mjög umhugað um tengslin í fjölskyldunni og oft var talað um að hann væri „límið“ í fjölskyldunni. Alltaf var hægt að stóla á að hann kæmi í veislur, stórar sem smáar. Gjafir hans einkenndust af væntumþykju og mjög oft gaf hann myndlist, sem hann sjálfur var svo áhugasamur um. Þroskaði þetta smekk okkar barnanna og áhuginn og þekking á listamönnum mun fylgja okkur áfram í gegnum lífið. Hafþóri þótti skemmtilegt að segja frá stórfjölskyldunni og skemmtilegum minningum tengdum henni. Hann kunni ættfræðina mjög vel og gat alltaf svarað spurningum okkar um hvernig við værum skyld viðkomandi.

Það var svo gefandi að fylgjast með lífshlaupi þeirra Hafþórs og Ívars. Væntumþykja og kærleikur þeirra til hvors annars var svo sterkur og voru þeir góð fyrirmynd fyrir okkur yngra fólkið.

Allir sem þekktu Hafþór eru sammála um að framkoma hans einkenndist af hlýleika og góðmennsku.

Hann samgladdist innilega þegar honum voru færðar góðar fréttir en hlýju og huggun áttum við líka vísa þegar á móti blés. Það sem einkenndi Hafþór líka var hversu auðvelt það var honum að sýna og tjá tilfinningar sínar.

Hann var ekki spar á að segja hversu vænt honum þætti um okkur og það var okkur verðmætt að heyra það.

Við erum heppin að hafa fengið að hafa Hafþór í lífi okkar og við munum sakna heimsókna hans á Sperðil, en þar áttum við yndislegar stundir og minningarnar um þær munu lifa áfram.

Við viljum trúa því að nú séu Hafþór og Ívar aftur sameinaðir, án veikinda og þjáninga á stað þar sem sólin alltaf skín.

Hvíl í friði, elsku besti frændi, þín er sárt saknað.

Inga Björk Gunnarsdóttir,

Ólöf Karitas Þrastardóttir,

Rakel Ósk Þrastardóttir,

Aron Örn Þrastarson,

Mikael Andri Þrastarson.