Stjórnendur Guðríður Helgadóttir (t.v.) og Olga Lísa Garðarsdóttir fagna sumri á Reykjum í Ölfusi.
Stjórnendur Guðríður Helgadóttir (t.v.) og Olga Lísa Garðarsdóttir fagna sumri á Reykjum í Ölfusi.
Garðyrkjunám sem áður var hjá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) á Reykjum í Ölfusi flyst til Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) í haust.

Garðyrkjunám sem áður var hjá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) á Reykjum í Ölfusi flyst til Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) í haust. Stjórnsýslan færist til FSu á Selfossi en starfsnámið verður áfram á Reykjum, að sögn Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara FSu. Hún sagði að kennslan yrði óbreytt í tvö ár og tíminn notaður til að þróa námið og skipuleggja til framtíðar.

„Þetta var ákvörðun ráðherra á sínum tíma. Markmiðið var alltaf að byrja kennslu í haust og við erum að undirbúa það. Við þurfum meira en kennara Garðyrkjuskólans til að sinna þessu. Það er verið að semja um að fá kennara, aðra starfsmenn og svæðið sem þarf,“ sagði Olga. Um er að ræða m.a. starfsmenn starfsmenntanámsins, t.d. starfsmenn á útisvæði, aðstoðarmenn í gróðurhúsum, bókasafnsfræðing og kokk sem hafa unnið við Garðyrkjuskólann. Hugsa þarf um plönturnar allan ársins hring, jafnt skóladaga sem aðra, og hlúa að umhverfinu.

Olga segir að starfsnámið verði áfram á Reykjum, að því gefnu að FSu fái aðgang að þeim húsakosti sem þar er. Mikið af Reykjatorfunni er nýtt í þágu starfsmenntanámsins. Hún segir að LbhÍ sé með starfsemi þar á háskólastigi. Það eru nokkur hólf í tilraunagróðurhúsi, skrifstofa og útisvæði þar sem stundaðar eru rannsóknir. Olga segir að FSu muni ekki standa í vegi fyrir því að það starf LbhÍ haldi áfram á Reykjum. Hún sagði aldrei hafa komið til álita að flytja starfsnám í garðrkjufræðum til Selfoss.

„Við erum ekki með neina aðstöðu fyrir það á Selfossi. Skólinn hér er nánast fullsetinn og verknámshúsið fullnýtt. Það er ekki pláss á Selfossi fyrir 100 nýja nemendur í svo sértæku námi. Garðyrkjunám þarf sérhæfða aðstöðu og hún er á Reykjum. Raunar eru gróðurhúsin ekki öll í góðu standi en kennslustofur í fínu lagi. Það verður að gera áætlun um endurnýjun gróðurhúsanna.“

Olga segir að garðyrkjunám hafi alltaf verið á framhaldsskólastigi en LbhÍ er á háskólastigi. Það fari ekki vel saman að vera með framhaldsskólakennslu í háskóla. Skrúðgarðyrkja er löggilt iðngrein. FSu kennir löggiltar iðngreinar eins og t.d. húsasmíði, rafvirkjun og vélvirkjun. Það fer því vel saman.

FSu hefur auglýst eftir umsóknum vegna náms á blómaskreytingabraut, garð- og skógplöntubraut, námsbraut skógar og náttúru, námsbraut um lífræna ræktun matjurta, skrúðgarðyrkjubraut og ylræktarbraut næsta haust. Umsækjendur þurfa að hafa lokið eins árs námi í almennum greinum í framhaldsskóla. Garðyrkjunámið tekur tvö ár til viðbótar. Umsóknarfresti lauk 22. apríl en ákveðið var að framlengja hann. Hluti nemenda verður í fjarnámi og mun mæta í skólann í staðlotur.

gudni@mbl.is