Ríkastur í heimi Milljarðamæringurinn Elon Musk rekur fjölda fyrirtækja í Bandaríkjunum og er þekktur fyrir margs konar óvanaleg uppátæki.
Ríkastur í heimi Milljarðamæringurinn Elon Musk rekur fjölda fyrirtækja í Bandaríkjunum og er þekktur fyrir margs konar óvanaleg uppátæki. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Ríkasti maður í heimi, Elon Musk, hefur keypt einn áhrifamesta samfélagsmiðil og umræðuvettvang veraldar, Twitter, og verði engin ljón á vegi þeirra viðskipta á næstunni getur hann farið sínu fram með þennan miðil að eigin geðþótta. Yfirlýst markmið hans með kaupunum er að opna þar allar gáttir málfrelsis, þannig að sérhverjar skoðanir sem ekki brjóta í bága við lög fái hindrunarlausa útrás. Margir hafa áhyggjur af því að nú fái hatursorðræða og fordómar af öllu tagi að flæða yfir netið í nafni málfrelsis. En Musk tekur líka mikla áhættu með kaupunum; ef notendur verða ósáttir við þá stefnu sem Twitter mun taka í vasanum á honum geta þeir yfirgefið miðilinn og þá blasa við sóknarfæri keppinauta.

Undrabarn

En hver er þessi maður sem getur galdrað fram 44 milljarða bandaríkjadala á nokkrum dögum? Fjárhæðin er kaupverðið á Twitter.

Elon Musk fæddist í Suður-Afríku árið 1971 og er því rétt rúmlega fimmtugur. Sagan segir að aðeins tíu ára gamall hafi hann keypt sína fyrstu tölvu og 12 ára selt sinn fyrsta tölvuleik. Hann var semsé nokkurs konar undrabarn. En þrátt fyrir að hafa komist upp á lagið með tölvutæknina og forritun ungur er Musk ekki einn af þeim sem létu skólagöngu lönd og leið. Hann lauk raunar tveimur háskólagráðum frá háskólanum í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, en þangað fluttist hann árið 1992. Musk lauk bæði BA-gráðu í hagfræði og eðlisfræði og hugðist halda áfram í doktorsnám við Stanford-háskóla. Hann hóf þó aldrei nám við Stanford heldur hellti sér af fullum krafti út í netbransann og stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki, Zip2, um miðjan tíunda áratuginn.

Þríkvæntur með sjö börn

Ekki hefur hann verið sérlega farsæll í einkalífinu. Hann er þríkvæntur og á sjö börn og hefur staðið í mörgum samböndum. Skilnaður hans við fyrstu eiginkonuna, rithöfundinn Justine Wilson, var erfiður og hún ber honum ekki vel söguna. Fimm barnanna eru úr því sambandi. Í þann mund sem þau stigu út á gólfið og af stað í brúðarvalsinn á hann að hafa hvíslað í eyra hennar „ég er „alfa“ í þessu sambandi“. Það reyndist rétt, hann vildi ráða yfir lífi hennar og hún varð smám saman óhamingjusamari í samvistum við milljarðamæringinn.

Musk er sagður fullkomnunarsinni sem aldrei hætti. Standi hann frammi fyrir óleystu vandamáli eigi hann afar erfitt með að hætta fyrr en málið sé leyst. Hann hefur einnig orð á sér fyrir að vera harður við undirmenn sína og hefur rekið fólk fyrir afar litlar sakir eins og að verða það á að senda tölvupóst með stafsetningarvillu.

Mörg fyrirtæki

Einhvers konar snilligáfu og miklum frumkvöðlahæfileikum virðist hann þó búa yfir og helstu tæknifrömuðir heims bíða jafnan í ofvæni eftir því upp á hverju Elon Musk finnur næst. Frægastur er hann fyrir Tesluna, rafbílinn sem farið hefur sigurför um heiminn. Hjá Teslu ræður hann öllu með um fimmtung hlutafjár í sínum höndum. Hann stofnaði einnig geimferðafyrirtækið SpaceX árið 2002, á þar tæpan helming hlutafjár, en það byggist á draumi Musks um að smíða tiltölulega einfaldar og ódýrar eldflaugar sem hægt er að skjóta upp í geim oftar en einu sinni. Musk er enn fremur maðurinn á bak við greiðslugáttina PayPal sem gerir notendum kleift að borga fyrir vörur á netinu. Hann seldi fyrirtækið síðar. Árið 2016 eignaðist hann sólarsellufyrirtækið SolarCity. Og hann er á bak við fyrirtækið StarLink sem heldur úti gífurlegum fjölda gervihnatta í því skyni að auðvelda umferð á netinu. Árið 2017 stofnaði hann Neuralink, fyrirtæki sem vinnur að þróun á tækni á sviði gervigreindar. Er hugmyndin að gera fólki kleift að stjórna tækjum með huganum einum. Óhætt er því að segja að Elon Musk ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar hann vindur sér í verkefnin.

Liggur ekki á skoðunum sínum

Musk liggur ekki á skoðunum sínum um dægurmálin, kveður jafnan fast að orði og lendir stundum í vandræðum fyrir vikið. En fram hjá því verður ekki horft að framlag hans til að leysa ýmis brýn umhverfisvandamál hefur verið meira en flestra annarra, þar á meðal umhverfisverndarsinna og stjórnmálamanna sem tala meira en þeir framkvæma. Hið mikla veldi hans er byggt á hugviti og framtaki, hann er sístarfandi, er að allan sólarhringinn og uppsker í samræmi við það.