Jón Valur Tryggvason fæddist 5. september 1931. Hann lést 7. apríl 2022.

Útför hans fór fram 25. apríl 2022.

Elsku bróðir, kæra kveðju

kveð ég hér á þessum degi,

almættið þig ávallt geymi

og englafjöld á himnavegi.

Allar stundir þér ég þakka,

þakka ljúfa bernsku mína.

Seinna sumarlands á grundum

saman munum rósir tína.

(GMT)

Hjartkær bróðir minn, Jón Valur Tryggvason, Bói bróðir, eins og ég kallaði hann alltaf, hefur kvatt jarðheim eftir langa og viðburðaríka ævi, en hann lést 7. apríl sl.

Við áttum yndislega stund með honum og ástvinum á 90 ára afmælinu 5. september sl., og þó að þrekið væri farið að minnka og heilsan orðin tæp var stutt í gleðina og glensið hjá honum þann dag.

Margs er að minnast eftir áratuga samleið og sérhver minning mín er um góðan bróður sem lét sér alla tíð annt um velferð mína.

Það var 15 ára aldursmunur á okkur Bóa, en þeir bræður mínir, hann og Sigurður Rúnar (d. 2015), sáu um það, ásamt Andreu Guðrúnu (d. 2019) systur okkar, að ég átti gleðiríka bernskudaga á Skúlaskeiði 38 í Hafnarfirði. Það hefur þó líklega verið systkinum mínum mikil lífsreynsla þegar þangað mætti lítil manneskja, sem var bæði frek og tilætlunarsöm.

Já, minningarnar: Ég man vel, þegar ég var fimm ára, að Bói bróðir gaf mér risastórt páskaegg, allt skreytt með slaufum og páskaungum.

Hann smíðaði líka handa mér fallegan sleða, þá byrjaður í vélsmíðanámi. Og útskrifaður vélstjóri í siglingum keypti hann eitt og annað handa litlu systur, oft útlenskt sælgæti. En svo kom rokkið til sögunnar, þá voru það stórar vínilplötur með Elvis Presley, Chuck Berry o.fl., plötur sem ég á enn í dag. Bói hafði alla tíð mikinn tónlistaráhuga og spilaði í hljómsveitum frá 16 ára aldri. Hann söng líka í mörg ár í Karlakórnum Þröstum og fleiri kórum. Hann var ljóðelskur og orti falleg ljóð. Hann gekk í KFUM sem barn og skátana sem unglingur og starfaði með þeim allt til fullorðinsára.

Þegar ég flutti til Egilsstaða varð vík á milli vina, en við eigum þó margar fallegar minningar um heimsóknir til Bóa og Stellu í Fjörðinn. Þau komu líka oft keyrandi austur, og stundum voru Siggi bróðir og Óla mágkona með, komin alla leið frá Svíþjóð, þau gistu þá öll á leiðinni á Hala í Suðursveit, það var góð gisting, sagði Bói mér. Ég er þess líka fullviss að gistingin er góð, hvar sem hann er nú, og að einhvern tíma hittumst við öll aftur á grænum grundum sumarlandsins, þar sem vaxa hin fegurstu blóm.

Ég lýk þessum minningarorðum með tveimur erindum úr ljóði Magnúsar Eiríkssonar, Í blómabrekkunni:

Lífið er vatn, sem vætlar undir brú

og enginn veit, hvert liggur leiðin sú.

En þegar lýkur jarðlífsgöngunni,

aftur hittumst við í blómabrekkunni.

Alltaf fjölgar himnakórnum í,

og vinir hverfa, koma mun að því.

En þegar lýkur jarðlífsgöngunni,

aftur hittumst við í blómabrekkunni.

Við Halli, börn og fjölskyldur þeirra sendum elsku Stellu, börnum og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur, minningin um góðan dreng og góðan bróður lifir.

Guðrún Margrét

Tryggvadóttir.