Kristín Anna Claessen lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn 28. apríl sl. 95 ára að aldri. Kristín Anna fæddist á Reynistað í Skerjafirði 1. október árið 1926, sem þá tilheyrði Seltjarnarneshreppi.

Kristín Anna Claessen lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn 28. apríl sl. 95 ára að aldri.

Kristín Anna fæddist á Reynistað í Skerjafirði 1. október árið 1926, sem þá tilheyrði Seltjarnarneshreppi. Foreldrar hennar voru Jean Eggert Claessen hæstaréttarlögmaður og Soffía Jónsdóttir Claessen hússtjórnarkennari.

Kristín Anna varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík á 100 ára afmæli skólans árið 1946. Eftir einn vetur í Háskóla Íslands lærði Kristín tannsmíði hjá Jóni Hafstein tannlækni og vann hún við það allt til ársins 1956. Síðar fór hún að vinna á Landspítalanum sem hjúkrunarritari á bæklunardeild, en lengst af vann hún á Barnaspítala Hringsins.

Kristín Anna gekk ung í Oddfellowregluna og gegndi þar öllum æðstu embættum. Hún var stofnandi Rebekkustúkunnar nr. 10 Soffíu og bar hag reglunnar ætíð fyrir brjósti.

Eiginmaður hennar var Guðmundur Benediktsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.

Þau eignuðust fjögur börn: Ragnheiði Margréti sem lést 2018, Soffíu Ingibjörgu, Solveigu Láru og Eggert Benedikt.