Hólmgeir Baldursson
Hólmgeir Baldursson
Eftir Hólmgeir Baldursson: "Svona örmarkaður er ekkert grín rekstrarlega séð."

Nú eru að koma fram afleiðingar samkeppni stóru efnisréttarfyrirtækjanna, sem hafa sankað að sér efni til að geta startað eigin streymisveitum á heimsvísu, með tilkynningu um mikið hrun áskrifta hjá Netflix.

Ástæða þess að HBO Max/go er ekki enn komið hingað eru gamlir samningar þeirra við innlenda aðila um „heimili HBO“ á Íslandi og annarra sjónvarpsaðila sem sömdu um sýningarrétt hér. Flestir þessir samningar eru þó að renna sitt skeið á enda og þess því varla langt að bíða að Warner/Discovery-samsteypan nemi land á Íslandi, en fyrir eru jú Disney, Viaplay og Netflix. Einhverjir fleiri eru einnig að hugsa sér til hreyfings hingað.

Áskriftarverð telst sanngjarnt fyrir þá þjónustu sem er í boði, en ef heimilið er með 3-4 streymisveitur og kannski eina innlenda þá er mánaðargjaldið farið að slaga hátt í 20 þúsund kallinn, sem er ágætlega vel í lagt.

Ungt fólk velur að einhverju leyti enn að hala niður efni og horfa á plexið sitt með öðrum, en margir eru enn að átta sig á þessum breyttu neysluvenjum á afþreyingarefni og bíða og sjá til og láta sér nægja að horfa á Símann og sætta sig við auglýsingar á korters fresti og láta það og RÚV bara nægja.

Sem stendur er Filmflex eina streymisveitan sem stendur utan eignaraðildar fjarskiptafyrirtækja og erlendrar eigu.

Að mínu mati eiga fjarskiptafyrirtækin alls ekki að vera að basla í að eiga og reka vod-leigur yfir höfuð heldur semja við eins og eina eða tvær stórar streymisveitur og bjóða með einhverjum net- og símapakka, það fer best á því rekstrarlega.

Þegar Filmflex var að fæðast var uppleggið einfaldlega að setja hér upp vod-leigu í samstarfi við Blockbuster og var unnið að því í nokkurn tíma, þegar það rann upp fyrir Dönunum, sem stýrðu dæminu, að Ísland er hreinlega ekki ábatasamur markaður.

Textun og kostnaður við að koma dæminu á framfæri myndi fljótt þurrka upp hagnaðinn og því fór sem fór. Svona örmarkaður er ekkert grín rekstrarlega séð og því var það bara spurning hvort ég ætti að halda þessu dæmi áfram eða hreinlega hætta. Þegar streymismarkaðurinn er skoðaður þá eru það litlu sérhæfðu leigurnar í löndunum í kringum okkur sem eru að sækja í sig veðrið. Myndir sem aldrei munu ná athygli stóru veitnanna, einmitt vegna þeirra hindrana sem taldar eru upp að ofan, og það varð því ofan á að koma með eina sérhæfða og sjá til hvað gerist.

Filmflex fagnar því nú um þessar mundir að hafa verið í loftinu í tæpa fimm mánuði og á þessum tíma er leigan að vaxa í hverjum mánuði. Auglýsingum er beint aðeins um samfélagsmiðla á markhópinn 45-65, sem virðist taka því fagnandi að geta leigt sér eina og eina mynd sem ekki er að finna hjá öðrum með íslenskum texta, og því er það ágætis staðfesting á að það að sérhæfa sig er góð hugmynd, sama hvað við á.

Markaður fyrir svona sérhæfða eigu verður aldrei talinn í tugþúsundum viðskiptavina, það er næsta víst, en í einhverjum þúsundum er raunhæft markmið.

Allt hefur sinn vitjunartíma og það tekur ávallt 9-16 mánuði í afþreyingarbransanum að kynna nýtt konsept. Á meðan eru stóru streymisveiturnar að rífast um kúnnana, hrapa í milljónavís á mörkuðum og það er bara spurning hvenær í raun þessar stóru streymisveitur sameinast undir einhverri regnhlíf á heimsvísu.

Litla sjoppan á horninu, Filmflex, mun ekki þurfa að hafa áhyggjur af þessu, hún er bara opin og bætir við sig þremur eða fjórum kúnnum á dag og á meðan það eru til gamlar og góðar bíómyndir sem söluaðilar erlendis eru reiðubúnir að selja manni fyrir lítinn pening til að þjónusta örmarkaðinn Ísland þá segjum við bara eins og alltaf áður: þetta reddast allt saman!

Höfundur er áhugamaður um kvikmyndir. Holmgeir@filmflex.is