Elías Snæland Jónsson, rithöfundur og ritstjóri, fæddist á Skarði í Bjarnarfirði á Ströndum 8. janúar 1943. Hann lést á Landspítalanum 79 ára að aldri 8. apríl síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Jón Mikael Bjarnason og Hulda Svava Elíasdóttir. Ungur flutti Elías með foreldrum sínum suður í Njarðvík og ólst þar upp. Síðar fluttist fjölskyldan í Kópavog. Elías stundaði nám við Samvinnuskólann á Bifröst og lauk þaðan prófi árið 1962. Í framhaldi af því fór hann til náms í blaðamennsku í Noregi, sem markaði braut hans til framtíðar. Fyrstu sporin í blaðamennskunni voru við Sunnmöre Arbeideravis í Álasundi í Noregi. Elías var blaðamaður á Tímanum 1964-1973 og ritstjóri Nýrra þjóðmála 1974-1976. Hann var blaðamaður og ritstjórnarfulltrúi á Vísi 1975-1981 og í framhaldi af því ritstjóri Tímans 1981-1984. Hann fór svo til starfa á DV sem aðstoðarritstjóri og var til 1997. Var síðan ritstjóri á dagblaðinu Degi til 2001.

Jafnhliða blaðamennsku skrifaði Elías fjölda bóka af ýmsum toga. Leikritið Fjörbrot fuglanna var frumsýnt í Borgarleikhúsi ungs fólks í Dresden (Theater Junge Generation) í þýskri þýðingu 1999 en leikritið hlaut fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni á Stöð 2. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir söguna Brak og bresti 1993 og saga hans Návígi á hvalaslóð, sem kom út árið 1998, var á heiðurslista barnabókasamtakanna IBBY. Skáldsagan Draumar undir gaddavír kom út 1996. Nokkrar skáldsagna hans hafa verið þýddar á erlend tungumál og notið vinsælda.

Einnig skrifaði Elías ýmislegt um söguleg efni, meðal annars bækurnar Átök milli stríða, Undir högg að sækja og Möðruvallahreyfingin – baráttusaga. Þá skrifaði Elías bókina Síðasta dagblaðið á vinstri vængnum sem fjallaði um útgáfu Dags í ritstjóratíð hans. Sem ungur maður var Elías virkur í starfi Framsóknarflokksins og síðar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Þá var hann formaður Blaðamannafélags Íslands 1972-1973 og formaður Æskulýðssambands Íslands.

Eftirlifandi eiginkona Elíasar er Anna Kristín Brynjúlfsdóttir, rithöfundur, og fyrrverandi latínu- og stærðfræðikennari. Synir þeirra eru þrír. Arnoddur Hrafn Elíasson Menntaskólakennari. Jón Hersir Elíasson læknir, eiginkona hans er Sigrún Arndís Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur. Úlfar Harri Elíasson framhaldsskólakennari, eiginkona hans er Suzette Cuizon tölvuverkfræðingur. Barnabörnin eru fjögur. Þau eru Kristín Erla Jónsdóttir, Hafdís Rún Jónsdóttir, Yzabelle Kristín Úlfarsdóttir og Gabríel Elías Snæland Úlfarsson.

Elías verður kvaddur frá Kópavogskirkju í dag, 29. apríl 2022, klukkan 10.

Aðeins nánustu ættingjar og vinir verða viðstaddir kveðjuna en henni verður streymt á streyma.is.

Hlekk á streymi má nálgast á www.mbl.is/andlat/.

Það er gangur lífsins að heilsast og kveðjast. Nú á vordögum eru 60 ár síðan við kvöddumst á tröppunum á Bifröst. Lokið var tveggja vetra samveru og námi. Og leiðin lá á vit framtíðar. Margir án markmiða, en Elías Snæland var þegar kominn með „layoutið“. Hann ætlaði að verða blaðamaður. Axlaði sín skinn og fór til náms í Noregi. Elías sá um blaðaútgáfuna á Bifröst árin 1961-62, gaf út Vefarann og Þefarann. Skrifaði blöðin nánast einn því skólasystkinin þekktu ekki „deadline“, skiluðu handritum seint og illa. En Elías Snæland, af sinni vinnusemi, fyllti dálka og síður, vélritaði og fjölritaði. Stöku vinir réttu hjálparhönd við að snúa fjölritunarmaskínunni og röðuðu síðum í hefti. Blaðamennska var svo hans ævistarf, stóð þar fyrir nýjungum, þjálfaði tugi blaða- og fréttamanna og svona „i forbifarten“ var hann rithöfundur. Eftir hann liggja tugir bóka og leikrita.

Vinátta sú sem varð til í bekknum okkar glatast aldrei. Það teygist á böndunum en þau slitna ekki fyrr en við ævilok, því eins og sungið var á Bifröst „Hin gömlu kynni gleymast ei“. Við bekkjarfélagarnir sendum fjölskyldu Elíasar Snælands innilegar samúðarkveðjur.

Ágústa Þorkelsdóttir.

Elías Snæland var maður hugsjóna og fagmennsku. Í fremstu röð á báðum sviðum. Brautryðjandi. Einlægur og traustur. Allir sýndu honum trúnað. Vígstöðvarnar þó mismunandi. Ungur að árum nam hann blaðamennsku í Noregi og stýrði svo í áratugi ólíkum miðlum. Varð fyrirmynd og kennari nýrra kynslóða fjölmiðlafólks. Frétt varð að lúta meginreglum. Sannleikur í öndvegi. Útskýringar í anda virðingar fyrir sérhverjum aðila. Hóf ferilinn í tíð Indriða G. á Tímanum; flokksræðið í algleymingi. Lauk honum þegar eigendavaldið tröllreið hinni nýju „frjálsu“ fjölmiðlun. Gaf svo út merka bók um fjörbrotin. Hún ætti að vera skyldulesning á öllum fréttastofum landsins.

Fyrir rúmlega hálfri öld tókum við höndum saman. Öflug sveit af ungu fólki sem setti hugsjónir jafnaðar og samvinnu í öndvegi. Töldum rétt að stokka upp flokkakerfið á grundvelli slíkra hugsjóna og lýðræðis. Jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu voru fyrirmyndir. Þar var samvinnuhreyfingin víða í formlegu bandalagi við flokkana.

Hið unga hugsjónalið gerði SUF að stórveldi. Nánast að sérstökum stjórnmálaflokki. Elías um tíma formaður. Sýnir traustið sem við bárum til hans. Eysteinn Jónsson, sem ásamt Hermanni Jónassyni hafði orðið ráðherra 1934, báðir þá leiðtogar bæjarradikala í Framsóknarflokknum, hvatti okkur áfram. En svo kom Ólafur Jóhannesson, boðberi miðjumoðsins. Við risum gegn slíkri taktík. Vildum uppgjör og nýja tíma. Sameining jafnaðarmanna og samvinnufólks var leiðarljósið ásamt lýðræðisbyltingu í starfsháttum. Áratugum síðar skrifaði Elías bók um þessa átakatíma. Möðruvallahreyfingin er merkilegt rit, einstakt í íslenskri stjórnmálasögu. Á sér enga hliðstæðu. Til að fagna útgáfunni og heiðra höfundinn snæddum við Baldur og Friðgeir ásamt Elíasi kvöldverð á Bessastöðum. Í stofunni þar sem skólasveinar sátu forðum; í aðdraganda Nýrra félagsrita og Fjölnis.

Í tilefni hundrað ára afmælis fullveldisins kom Margrét Danadrottning í heimsókn og Guðni forseti bauð til fagnaðar í stóra salnum. Þar sat ég við hlið forsætisráðherrans. Katrín fór allt í einu að ræða bók Elíasar um Möðruvallahreyfinguna. Hafði nýlega lokið lestrinum. Undraðist hve þessi unga sveit hafði verið langt á undan samtíðinni. Boðberar starfshátta og stefnu sem nú þættu sjálfsögð.

Danadrottning gleymdist um hríð. Elías stýrði samræðunum. Brautryðjandinn. Sannur og heill. Trúr sinni hugsjón. Eins og ávallt.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Elías Snæland var blaðamaður af guðs náð. Það voru fá svið blaðamennskunnar sem Elías kom ekki nálægt. Fjölmargir blaðmenn nutu góðs af leiðsögn hans enda reynsla Elísar umfangsmikil á þeim vettvangi. Elías starfaði ekki einungis við hefðbundna fjölmiðlun heldur voru önnur ritstörf honum einnig hugleikin. Fjölmargar bækur liggja eftir hann ásamt leikritum og fræðiritum. Elías var svo sannarlega maður hins skrifaða orðs. Hann var vandvirkur í sínum störfum og heill í þeim.

Við hjá Sjúkraliðafélagi Íslands vorum svo lánsöm að njóta starfskrafta Elíasar við ritstjórn tímarits okkar. Einn af hornsteinum félagsins er útgáfa tímaritsins Sjúkraliðans. Um 2.200 félagsmenn eru í Sjúkraliðafélagi Íslands, sem er næststærsta stéttarfélag innan BSRB. Því til viðbótar eru um 1.500 sjúkraliðar í lífeyrisdeild félagsins. Þessir félagsmenn ásamt fleirum nutu góðs af tímaritinu okkar, sem svo sannarlega blómstraði undir leiðsögn Elíasar.

Blaðið kemur út fjórum sinnum á ári og er iðulega farið um víðan völl í efnistökum. Má þar nefna réttindamál sjúkraliða, stöðu heilbrigðiskerfisins og almenna starfsemi félagsins. Elías var einstaklega naskur á umfjöllunarefni blaðsins og var greinilega mikill fagmaður þar á ferð þegar kom að blaðaútgáfu. Elías var þægilegur í samstarfi og augljóst að honum var annt um starf sjúkraliðans. Hann áttaði sig á mikilvægi starfsins og erum við ævinlega þakklát Elíasi fyrir það.

Við leiðarlok vil ég fyrir hönd Sjúkraliðafélags Íslands þakka Elíasi Snæland Jónssyni einstakt framlag í þágu stéttarinnar og félagsins og sendi innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans. Minning um Elías lifir í hjarta okkar.

Sandra B. Franks,

formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Elías Snæland Jónsson, rithöfundur og ritstjóri, er látinn 79 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum 8. apríl síðastliðinn.

Elías vann hjá Sjúkraliðafélagi Íslands við tímaritið Sjúkraliðann í yfir 30 ár. Hann tók þátt í flestum uppákomum félagsins, skrifaði greinar, tók viðtöl og skipulagði blaðið. Það voru ófáar ferðirnar sem hann fór með okkur á félagsfundi, trúnaðarmannafundi, vinnustaðafundi og annað sem þótti varða félagið vítt og breitt um landið, auk þess fór hann í eitt skipti sem fyrirlesari fyrir félagið á þing Evrópusambands sjúkraliða erlendis. Myndavélin var alltaf stutt undan á ferðalögunum og myndaði hann viðmælendur sína og umhverfi fyrir félagið, enda myndir stór hluti af frásagnargildi fréttanna.

Með sínu hæverska lundarfari náði hann góðum viðtölum, en gat þótt fastur fyrir ef honum þótti svo við þurfa.

Það var ekki sjaldan sem honum voru sendar skýrslur og greinar sem hann tók að sér að þýða eða vinna upplýsingar upp úr fyrir félagið, hvort sem þær voru notaðar í blaðið eða að við þurftum á upplýsingunum að halda til að leggja fram á fundum.

Elías var góður félagi, víðlesinn og hafði frá mörgu áhugaverðu að segja þegar sá gállinn var á honum. Hann þekktist langar leiðir úr fjöldanum af hattinum sínum. Leðurkúrekahatti sem hann bar höfðinglega og verður sú mynd varðveitt í minningunni um góðan dreng.

Elías lætur eftir sig stórt skarð í þeirri mannkostaflóru sem félagið hefur haft á að skipa um langt árabil og verður það skarð seint fyllt.

Elías var virkur í pólitík á árum áður. Hann var formaður Blaðamannafélags Íslands 1972-1973.

Elías starfaði lengst af sem blaðamaður, ritstjóri og ritstjórnarfulltrúi ýmissa blaða á vinstri væng þjóðmálanna. Auk þess stýrði hann ritun fjölmargra fagblaða.

Ég las nokkrar af bókum Elíasar en hann skrifaði fjölda leikrita og bóka af ýmsum toga jafnhliða blaðamennsku. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Brak og bresti árið 1993 og saga hans Návígi á hvalaslóð, sem kom út árið 1998, var á heiðurslista barnabókasamtakanna IBBY. Skáldsagan Draumar undir gaddavír kom síðan út árið 1996 og spennusagan Rúnagaldur kom út árið 2009.

Eftirlifandi eiginkonu Elíasar, Önnu Kristínu Brynjúlfsdóttur, og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, fv. formaður Sjúkraliðafélags Íslands.