Framkvæmdir Nú er grafið fyrir nýrri byggingu sem rísa á við Hótel Búðir.
Framkvæmdir Nú er grafið fyrir nýrri byggingu sem rísa á við Hótel Búðir.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það var þröngt um okkur. Í gamla hótelinu var hvert einasta skúmaskot nýtt en nú horfir til betri vegar,“ segir Örn Andrésson, einn eigenda Hótels Búða á Snæfellsnesi.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það var þröngt um okkur. Í gamla hótelinu var hvert einasta skúmaskot nýtt en nú horfir til betri vegar,“ segir Örn Andrésson, einn eigenda Hótels Búða á Snæfellsnesi.

Framkvæmdir eru hafnar við stækkun hótelsins. Mun það tvöfaldast að stærð og verða tæpir þrjú þúsund fermetrar eftir breytingarnar. Örn segir að mikil breyting felist í stækkuninni. „Herbergjum fjölgar úr 28 í 52. Það verður kjallari undir nýja hlutanum og þar verður til pláss fyrir eldhús, geymslu og kæla, þvottahús og fleira.“

Framkvæmdum ljúki næsta vor

Stækkun Búða hefur verið á teikniborðinu um nokkurra ára skeið en Örn segir að ýmislegt hafi komið upp sem tafði þær. „Covid og fleira. En nú er þetta loksins komið í gang og við erum byrjaðir að grafa. Það eru öll leyfi í höfn. Við erum náttúrlega í friðlandi; þótt þetta sé ekki innan þjóðgarðs er hraunið friðað og þarna í kring eru gamlar tóftir og fleira sem taka þarf tillit til.“

Við stækkunina verður þriðja álman byggð sunnanmegin við hótelið þar sem verið hefur hluti af bílastæði. Nú er grafið fyrir kjallara og á þeirri vinnu að vera lokið áður en sumartörnin hefst. Í haust verður hótelið svo reist úr forsteyptum einingum. „Það á að vera komið upp fyrir lok árs og planið er að vera búin með þessar breytingar fyrir næsta vor. Við munum þurfa að loka í einhvern tíma í vetur en reynum að hafa það eins stutt og hægt er. Það er af því að tengja þarf saman gömlu og nýju bygginguna. Þá þarf að rífa niður og tengja saman allar hæðir, koma fyrir lyftu og fleiru,“ segir Örn sem vill ekki upplýsa um kostnað við stækkunina.

Allt að 97% bókað í sumar

„Þetta eru miklar fjárfestingar,“ segir Örn sem á helmingshlut í bæði rekstrarfélagi og fasteignafélagi Búða á móti eigendum ION-hótelsins.

Hótelrekstur hefur verið erfiður á Íslandi síðustu tvö ár vegna kórónuveirunnar. Engan bilbug er þó að finna á Erni og samstarfsfólki hans. „Síðasta sumar var með þeim allra bestu hjá okkur. Það er stöðugt að aukast herbergjanýtingin hjá okkur. Vissulega hafa síðustu tveir vetur verið svolítið skrítnir. Það var mikið um forföll hjá Íslendingum enda var alltaf verið að breyta reglum og erfitt að ætla að hafa hótelin full. Margir hópar afbókuðu sig þegar einhver smitaðist eða einhver var settur í sóttkví. Á síðasta ári var samt mikið að gera alveg fram yfir miðjan nóvember. Hins vegar settu bæði Covid og veðrið mikinn svip á byrjun þessa árs.“

Örn segir að útlit sé fyrir að sumarið verði afar annasamt á Hótel Búðum. „Í raun og veru má segja að sumarið sé orðið fullt hjá okkur. Júní, júlí, ágúst og stór hluti af september er nánast uppseldur. Það er allt að 97% bókað í þessum mánuðum og það segir okkur að þörf sé á stækkun.“

Hann kveðst í raun ekki vera í vafa um að næg eftirspurn sé eftir hótelgistingu til að það réttlæti tvöföldun Hótels Búða. „Það ráðum við meðal annars af samskiptum við erlenda birgja. Þeir segjast vilja auka við pantanir sínar ef við getum tekið á móti fleiri gestum. Við teljum grundvöllinn fyrir hendi.“