Árni Jón Árnason fæddist 18. mars 1939 á fæðingarheimili Reykjavíkur. Hann lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi í Reykjavík 13. apríl 2022.

Foreldrar hans voru Guðrún Solveig Einarsdóttir frá Hróðnýjarstöðum í Laxárdal, f. 7. janúar 1899, d. 27. mars 1995, og Árni Jónsson Árnason frá Köldukinn í Haukadal, f. 9. maí 1896, d. 24. apríl 1949.

Systur Árna eru Steinunn, f. 15. maí 1929, d. 22. júní 2021, Ingiríður (Inga), f. 5. mars 1932, Guðrún Lilja (Lillý), f. 6. ágúst 1934, og (Brynhildur) Erna, f. 7. júlí 1943.

Árni giftist Eddu Þorsteinsdóttur, f. 11. maí 1945. Foreldrar hennar voru Guðrún Jónsdóttir, f. 23. apríl 1904, og Þorsteinn Sigurðsson, f. 9. mars 1902.

Börn Árna og Eddu eru: 1) Árni Jón, f. 15. maí 1966, giftur Ingibjörgu Guðmundsdóttur, f. 15. janúar 1971. Dóttir þeirra er Kristín Lovísa, f. 23. nóvember 1998, sambýlismaður hennar er Óskar Herbertsson. Barn Árna Jóns er Aðalsteinn Dan, f. 3. desember 1991, móðir hans var Kristín Aðalsteinsdóttir. 2) Þorsteinn, f. 14. júlí 1968. 3) Erna Sif, f. 3 apríl 1973, maki Guðni Gunnarsson, f. 16. janúar 1967. Börn Ernu eru: Edda Kristín, f. 15. apríl 1990, sambýlismaður er Eyþór Smári Þórbjörnsson, barn þeirra er Sóley Kara, f. 20. desember 2018. Árni Hlynur, f. 29. júlí 1995, sambýliskona er Ágústa Hjartardóttir. Smári, f. 26. september 2000. Aron Guðni, f. 5. desember 2010.

Árni ólst upp í Norðurmýrinni í Reykjavík, gekk í Austurbæjarskóla og síðar í Iðnskólann og nam húsgagnasmíði. Hann lærði hjá móðurbróður sínum, Helga Einarssyni, sem áður lærði hjá föður Árna. Hann vann eftir nám hjá Helga, en fór svo til Kaupmannahafnar og vann á húsgagnaverkstæði Söborg Möbelfabrik, sem var í eigu Jacobsen-fjölskyldunnar. Þegar Árni flutti aftur til landsins réð hann sig í vinnu hjá frænda sínum Þorvaldi Daníelssyni sem var með umsjón með byggingarframkvæmdum hjá Loftleiðum. Í framhaldi af því vann Árni mikið fyrir Loftleiðir og stofnendur félagsins og setti upp sína eigin húsgagnavinnustofu og smíðaði húsgögn og innréttingar. Þegar hann hætti með verkstæðið fór hann að vinna á Hótel Loftleiðum í fjölmörg ár við viðgerðir og viðhald, en síðustu starfsárin vann hann hjá Búnaðarbanka Íslands, síðar Kaupþing og Arion banka, við viðhald og rekstur fasteigna.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 29. apríl 2022, klukkan 14.

Elsku pabbi er búinn að kveðja okkur eftir erfið veikindi.

Síðustu dagar hafa verið skrítnir en við fjölskyldan höfum verið umvafin væntumþykju frá fjölskyldu og vinum sem vilja allt fyrir okkur gera. Margar sögur af pabba hafa verið sagðar og mikið hlegið enda var pabbi bara einfaldlega svo vingjarnlegur og léttur í skapi að flestum líkaði strax vel við hann.

Krakkarnir mínir hlæja oft þegar þeim dettur í hug hlutirnir sem afa þeirra datt í hug að segja eða gera. Síðustu daga hef ég oft kíkt á myndirnar sem voru teknar í síðasta fríinu okkar saman. Þá fóru mamma og pabbi í langferð til að vera við útskrift Smára sonar míns. Heilsan var alls ekki góð og hugmyndin um að fara með hann í frí erlendis var dálítið áhyggjuefni, en auðvitað varð hann hrókur alls fagnaðar. Honum datt í hug að spila tennis, var upphafsmaðurinn að hverfisvatnsslag og var fyrstur mættur út í bíl þegar synir mínir og tengdasonur fóru á rúntinn á kvöldin. Með krökkunum mínum fannst honum gaman og hann naut hverrar mínútu.

Pabbi og mamma hafa alltaf staðið þétt við hlið mér og verið börnunum mínum stoð og stytta. Þegar ég var 17 ára gömul og eignaðist Eddu Kristínu, héldu pabbi og mamma þétt utan um okkur mæðgur.

Þau voru meira foreldraímynd heldur en afi og amma þar sem þau hugsuðu um hana sem sína eigin dóttur á meðan ég var í skóla og vann. Öll umhyggja hans og mömmu fyrir mér og krökkunum mínum hefur verið ómetanleg.

Mamma stóð alltaf við hlið pabba, það kom ekki til greina að láta aðra gera það sem hún mögulega gat gert fyrir hann. Hennar orð voru alltaf: við höfum gert allt saman síðan ég var 19 ára og ég ætla að halda því áfram meðan ég get.

Á hliðarlínunni hafa systur pabba: Inga, Lillý og Erna staðið þétt við bakið á þeim enda samrýmdari systkini ekki hægt að finna. Eins hafa systkinabörn pabba verið þeim ómetanleg. Má þar sérstaklega nefna Tryggva Gunnarsson sem fór með bros á vör í óteljandi heimsóknir til þeirra og eins Gurrý Sigurðardóttir sem alltaf er reiðubúin að rétta þeim hjálparhönd.

Elsku pabbi. Takk fyrir allt sem þú hefur verið mér.

Þín dóttir,

Erna.

Elsku afi Árni, ég er svo þakklátur fyrir að hafa átt þig að. Þú varst mér sem faðir og ég gat alltaf fundið hlýju og ást í faðmi þínum. Það er erfitt að hugsa til þess að nú sé komið að kveðjustund. Á slíkum stundum er gott að rifja upp fallegar minningar og góðar stundir, en ég var heppinn að eiga margar með þér. Afi hafði einstakt lag á því að segja sögur og sagði mér frá skemmtilegum minningum frá æsku sinni, Loftleiða-ævintýrum, ferðum vestur á Skógarströnd og hvernig Steinunn kynnti hann fyrir glæsilegri dömu á sveitaballi, sem stuttu síðar varð stóra ástin í lífi hans, Edda amma. Amma hefur síðan þá séð til þess að sögurnar sem afi átti til að betrumbæta og skreyta örlítið, innihéldu mikilvægar staðreyndir. Við afi deildum einnig sameiginlegu áhugamáli sem var að fylgjast með íþróttum og þá sérstaklega fótbolta. Það var ekki annað hægt en að lifa sig inn í leikina með afa sér við hlið. Á spennandi augnablikum lifði hann sig svo mikið inn í leiki, að hann sparkaði frá sér í borð og stóla og við það hlaut hann þó nokkur væg íþróttameiðsl. Ég gæti rifjað upp svo margar minningar en það sem einkennir þær allar eru góðmennskan, gleðin og hlýjan sem þú bjóst yfir. Þessar ómetanlegu stundir mun ég geyma í hjarta mér um ókomna tíð eins og ég geymi minninguna um þig, elsku afi.

Ástarkveðja,

þinn nafni,

Árni Hlynur.

Með sorg í hjarta minnist ég elsku afa míns. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég minnist afa. Hlýjan og væntumþykjan sem amma og afi hafa gefið okkur systkinunum er ómetanleg. Ég hálfpartinn ólst upp í Stangarholti, þar sem við mamma áttum heima fyrstu árin mín, og síðar hef ég alltaf haft aðra löppina inni á heimili þeirra. Alltaf þegar ég var hjá þeim fannst mér ég vera heima. Ég á eftir að sakna þess að sitja með honum og ömmu á kvöldin, drekka te og spjalla um allt og ekkert.

Afi var góður og skemmtilegur maður, alltaf til í glens og gaman en hann var líka mikil tilfinningavera. Hann var alltaf með spilastokk við höndina og sagði skemmtilegar sögur af sínum yngri árum, það var alltaf jafn ótrúlegt hversu vel og ítarlega hann mundi eftir æskuárum sínum. Afi var í miklu uppáhaldi hjá Sóleyju Köru dóttur minni. Hann var svo einstaklega lunkinn að fá hana til að hlæja með alls kyns hljóðum og látbragði.

Elsku besti afi minn, takk fyrir allt, takk fyrir ástina og hlýjuna sem þú hefur gefið mér og okkur. Ég er svo lánsöm að hafa átt þig sem afa og ég lofa að ég mun hugsa vel um ömmu fyrir þig.

Edda Kristín.

Mig langar að minnast Árna bróður míns sem var mér bæði kær og góður og vorum við miklir vinir. Árni fæddist á fæðingarheimilinu á Eiríksgötu og ég man vel eftir því þegar mamma og pabbi komu með hann nýfæddan heim. Við vorum þrjár eldri systur sem tókum virkan þátt í uppeldi Árna en hann var í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum. Síðar bættist fimmta barnið í hópinn, lítil systir. Þetta voru góð ár, fjölskyldan átti skemmtilegar stundir og við eyddum miklum tíma á trésmíðaverkstæðinu í Skólastræti 1b hjá pabba. Árni missti örugglega meira en flestir þegar pabbi dó á miðjum aldri árið 1949. Hann saknaði alltaf pabba síns. En lífið hélt áfram. Við, eldri systur Árna, stofnuðum allar heimili hver af annarri. Eiginmenn okkar og Árni urðu nánir og ævilangir vinir. Þá vil ég minnast á það að yngsta systir okkar og Árni áttu einstaklega kærleiksríkt systkinasamband.

Þegar við Sigurður bjuggum erlendis kom Árni nokkrum sinnum í eftirminnilegar heimsóknir. Árni var alltaf léttur og sagði skemmtilega frá. Þá var hann mikill veiðimaður og hann á heiðurinn af því að kenna mér á fluguveiðar sem var eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði þegar ég var yngri. Árni kvæntist yndislegri konu, Eddu Þorsteinsdóttur, og eignuðust þau þrjú góð og mannvænleg börn. Edda er einstök mágkona sem hefur reynst bæði mér og allri fjölskyldunni ótrúlega vel. Mamma hafði það oft á orði hversu lánsöm hún var að eignast þessa góðu tengdadóttur. Eddu og afkomendum þeirra Árna bið ég Guðs blessunar. Við eigum öll eftir að sakna Árna bróður míns mikið.

... en minningin lifir

þótt maðurinn deyi,

björt eins og sól

á sumarvegi.

(SM)

Guð blessi þig Árni minn allar stundir.

Ingiríður (Inga) systir.

Systkinahópurinn á Mánagötu 24 var samheldinn og hélt góðu sambandi sín á milli. Nú er skarð fyrir skildi þegar tvö af systkinunum hafa fallið frá á stuttum tíma. Árni Jón er fjórði í röð fimm systkina og einkasonur foreldra sinna. Fjölskyldan upplifði mikið áfall þegar Árni Jón Árnason eldri, húsgagnasmíðameistari, dó einungis 53 ára að aldri árið 1949. Guðrún amma hélt fjölskyldunni vel saman og Árni Jón fetaði í fótspor föður síns og lærði húsgagnasmíði og dvaldist um tíma í Danmörku sem ungur maður til að afla sér reynslu og þekkingar á því sviði.

Fjölskylda mín bjó um árabil erlendis og við fluttum heim til Íslands árið 1967. Mér er minnisstætt hversu vel Guðrún amma, systkini mömmu og fjölskyldur þeirra tóku á móti okkur. Það var mikið ævintýri fyrir ungan dreng að uppgötva þessa stóru og áhugaverðu fjölskyldu. Árni Jón var þá á besta aldri, nýlega búinn að kvænast Eddu konu sinni og Árni Jón sonur þeirra rétt ríflega ársgamall.

Árni var skemmtilegur og sannkallaður töffari sem var gaman að umgangast. Hann rak sína eigin smíðavinnustofu framan af starfsævinni og leysti úr hinum ýmsu verkefnum fyrir viðskiptavini sína og var ótrúlega greiðvikinn við ættingja og vini. Ég á margar góðar æskuminningar af Árna. Gamlárskvöldin á Mánagötu 24, veiðitúrar á sumrin og svo margt fleira. Árni var mikill sögumaður og hafði bæði gaman af því að segja og hlusta á sögur af mönnum og málefnum. Þá var hann mikill áhugamaður um bækur og átti alltaf stórt og mikið bókasafn sem hann grúskaði í.

Ég vandist því í uppvexti mínum að ef leysa þurfti flókin og erfið verkleg viðfangsefni þá var viðkvæðið alltaf: „Við fáum Árna bróður eða mág til hjálpa okkur.“ Ég var áhugasamur um alla svoleiðis hluti og sumum fannst jafnvel nóg um. Ég lærði mikið af Árna með því að fylgjast með honum og síðar þegar við veiddum aðeins saman þá leiðbeindi hann mér fyrstu sporin í laxveiðinni. Á þessari stundu er mér því efst í huga þakklæti til Árna.

Ég votta Eddu og frændsystkinum mínum Árna Jóni, Þorsteini og Ernu Sif og fjölskyldum þeirra innilega samúð vegna fráfalls Árna Jóns. Minningin lifir.

Guðbrandur Sigurðsson.

Á þessum árstíma þegar allt er að vakna aftur til lífsins eftir erfiðan vetur kvaddi móðurbróðir minn, Árni Jón Árnason. Oft héldum við í vetur að stundin væri runnin upp en Árni kom okkur sífellt á óvart þar til þróttur hans var á enda aðfaranótt 13. apríl.

Árni Jón var fjórði í röðinni af fimm börnum ömmu minnar og afa, Árna J. Árnasonar húsgagnasmíðameistara og Guðrúnar S. Einarsdóttur, sem byggðu sér heimili á Mánagötu 24 í Reykjavík. Þar ólst Árni upp, umvafinn fjórum systrum. Elsta systirin, Steinunn, lést í júní 2021. Eftirlifandi systur eru Inga, Guðrún Lilja og Brynhildur Erna. Það var mjög gestkvæmt á Mánagötunni, hvort heldur sem var í mat eða kaffi og það var ekki óalgengt að gestir utan af landi fengju að gista í lengri eða skemmri tíma. Á Mánagötunni var því oft glatt á hjalla. Afi minn rak trésmíðaverkstæði í Skólastræti og amma sá að mestu um barnauppeldi og heimilið auk þess sem hún saumaði nánast allt á börnin sín.

Það var fjölskyldunni mikið áfall þegar afi minn lést langt um aldur fram eftir stutt veikindi. Árni Jón var 10 ára gamall og það má geta sér þess til hversu mikil áhrif þetta hafði á drenginn. Sennilega hefur Árni eftir þetta alltaf ætlað sér að feta í fótspor föður síns því hann lærði húsgagnasmíði. Snemma á sjöunda áratugnum flutti hann til Danmerkur og var þar við nám og störf um tíma. Það er ekki ofsögum sagt að Árni Jón var einstaklega fær húsgagnasmíðameistari. Það bókstaflega lék allt í höndunum á honum, hvort sem það var að smíða bókaskápa úr gegnheilum viði, pússa upp útidyrahurðir, smíða innréttingar í íbúð eða gera við grindverk. Hann gekk fagmannlega að öllum smíðaverkefnum, stórum sem smáum. Hann kenndi mér að greina hvort húsgögn væru vönduð eða ekki. Orðinn mjög veikur var hann að dást að smíði innréttinga í nýlegri íbúð dóttur minnar.

Mín fyrsta minning um Árna er frá því hann, rúmlega tvítugur, heimsótti okkur fjölskylduna til Edinborgar. Hann kunni að gleðja litlu frænku sína með fallegum, myndskreyttum bókum úr Grimmsævintýrum. Seinna heimsótti hann okkur til Englands um páska og kom þá frá Danmörku. Árni var þannig persónuleiki að maður sóttist eftir því að vera í návist hans. Hann var mikil félagsvera og var frábær gestgjafi. Hjá Árna var alltaf stutt í glens og gaman. Hann dansaði nánast út í bílinn minn fyrir nokkrum mánuðum þótt fæturnir gætu varla borið hann. Spilakvöldin með vinunum voru Árna mikils virði. Mömmu minni og pabba var Árni mikil stoð og stytta og það gleymist ekki hversu mörgum klukkustundum hann varði hjá þeim og aðstoðaði þegar þau voru að minnka við sig. Í seinni tíð talaði Árni oft um árin sem hann var að vinna fyrir Loftleiðir. Ég tel að hjá því fyrirtæki hafi honum þótt einna skemmtilegast að vinna og þar eignaðist hann nokkra af sínum bestu vinum.

Á kveðjustundu viljum við mæðgur, ég og Valdís, þakka Árna móðurbróður mínum fyrir allar ógleymanlegu samverustundirnar. Megi ljós og kærleikur blessa minningu Árna og umvefja Eddu, börnin og aðra afkomendur.

Guðríður S. Sigurðardóttir.

Mig langar til að minnast elskulegs frænda míns, Árna Jóns Árnasonar, með fáum orðum nú þegar göngu hans er lokið í þessari jarðvist. Við vorum systrasynir, mæður okkar, Guðrún móðir Árna og Hróðný móðir mín, voru frá Hróðnýjarstöðum í Dölum, dætur Einars Þorkelssonar og Ingiríðar Hansínu Hansdóttur sem þar bjuggu. Þarna ólust þær upp í stórum og glaðværum barnahópi, alls níu systkin við gott atlæti foreldra sinna. Þegar þær voru orðnar fullorðnar fluttust þær báðar til Reykjavíkur og reyndar fleiri Hróðnýjarstaðasystkin og það var góður samgangur á milli heimila þeirra sem ég minnist alltaf með ánægju. Inn í þetta samfélag fæddist Árni um það leyti sem við fluttum austur í Hveragerði og þá var ég um 10 ára aldur. Það fækkaði svolítið samskiptum eftir þetta, en þær systur voru samt alltaf mjög tengdar og við fjölskyldan öll. Það var síðan mikið áfall fyrir Árna, þegar hann missti föður sinn, sem lést langt um aldur fram, 1949. Eftir þetta ólst hann upp með móður sinni í stórum systrahópi. Hann lærði húsgagnasmíði hjá móðurbróður sínum Helga Einarssyni og vann við þá iðn alla tíð. Það var svo um það leyti sem við Ragna fórum að búa að tengslin við Árna og móður hans urðu meiri. Það var alltaf gott að fá hann í heimsókn, spjalla og spyrja hann ráða um ýmislegt er varðaði heimilið. Hann var ráðagóður frændi. Ég minnist samt sérstaklega ferðarinnar sem við fórum vestur í Dali til að kanna veiðivötnin á Gaflfellsheiði. Það var ekki heiglum hent því við vorum báðir bíllausir. Þetta var á þeim tíma þegar menn áttu ekki almennt slík farartæki. Það varð því úr að ég fór með rútunni vestur með svefnpoka og tjald og kom við í Brautarholti hjá Gunnari og Steinunni systur Árna. Hann var þá kominn þangað og búinn að útvega okkur bílfar hjá Binna, mági Steinunnar, fram í Ljárskógarsel. Þetta var mikið tilhlökkunarefni. Meðan Binni stóð við veiddi hann strax vænan silung, en við tjölduðum og gerðum okkur klára. Nú skyldi aldeilis veitt. En það varð ekki svoleiðis. Allt kvöldið reyndum við og reyndum, en allt kom fyrir ekki. Hann vildi ekki bíta á. Við lögðumst loks til svefns og snemma næsta morgun bjuggumst við til langrar göngu alla leið niður að Hróðnýjarstöðum. Þetta var erfið ganga í miklu kjarrlendi og við vorum fegnir því að þurfa ekki að bera allan silunginn með okkur, sem við höfðum ætlað að veiða. Það var þó bót í máli.

Þetta var nokkurs konar pílagrímsganga og góð æfing fyrir lífið sem var framundan. Ég vil að lokum þakka Árna fyrir samfylgdina og við hjónin sendum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Svanur Jóhannesson.