Gazprom kynnir ofurhagnað og stríðinu virðist ekkert vera að linna

Kremlarbændur hafa lýst því yfir að vopnasendingar vestrænna ríkja til Úkraínu ógni öryggi Evrópu. Þetta væri auðvitað nokkuð brosleg yfirlýsing ef aðstæður væru ekki jafn grafalvarlegar og raun ber vitni.

Stríðið hryllilega virðist ekki vera að nálgast endalokin, þvert á móti gæti það verið að færast í átt til langtímaátaka þar sem stór hluti Úkraínu yrði allt að því lagður í eyði. Og efnahagslega stríðið er farið að bíta. Óljóst er hvert bitið er á almenning austan megin enda fáar áreiðanlegar fregnir sem þaðan berast. En vestan megin efnahagslegu víglínunnar sjást áhrifin orðið vel í vöruverði og minnkandi kaupmætti.

Hætt er við að þetta ástand fari versnandi áður en það lagast. Það að rússnesk stjórnvöld hafi ákveðið að skrúfa fyrir gas til tveggja ríkja Evrópu með tilheyrandi áhrifum á orkuverð var ekki til að bæta úr skák, en þó er lokun á gasviðskipti líklega það efnahagsvopn sem helst gæti bitið á Rússa. Lokun Rússa kann því að hafa verið hættuspil, ekki síst ef hún verður til þess að þjóðir vestan megin fara að átta sig á að þær geta ekki leyft sér að vera háðar Rússum um orku.

En hækkandi orkuverð skilar sér líka í auknum tekjum Rússlands, sem vissulega var ekki ætlunin vestan megin. Gasrisi Rússa, Gazprom, tilkynnti í gær um gríðarlega aukinn hagnað í fyrra. Orkuverðið nú ætti að tryggja áframhaldandi góða afkomu.

Þetta er öfugsnúið ástand og óskemmtilegt, en gæti líka orðið til að draga stríðið á langinn.