Reyðarfjörður Unnið við eldiskvíar Laxa fiskeldis í Reyðarfirði.
Reyðarfjörður Unnið við eldiskvíar Laxa fiskeldis í Reyðarfirði. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Veiran sem getur valdið blóðþorra í laxi hefur greinst í einu sýni úr kvíum Laxa fiskeldis á Sigmundarhúsum í Reyðarfirði. Engin merki eru um að fiskur sé veikur. Eigi að síður hefur fyrirtækið ákveðið í varúðarskyni að slátra öllum laxi upp úr kvíum þar en þar eru alin seiði frá því í haust, alls um milljón fiskar að meðaltali innan við hálft kíló að þyngd.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Veiran sem getur valdið blóðþorra í laxi hefur greinst í einu sýni úr kvíum Laxa fiskeldis á Sigmundarhúsum í Reyðarfirði. Engin merki eru um að fiskur sé veikur. Eigi að síður hefur fyrirtækið ákveðið í varúðarskyni að slátra öllum laxi upp úr kvíum þar en þar eru alin seiði frá því í haust, alls um milljón fiskar að meðaltali innan við hálft kíló að þyngd.

„Auðvitað eru þetta ekki góðar fréttir en við erum með allt til staðar sem þarf til að bregðast við svona áföllum og koma í veg fyrir meiri útbreiðslu,“ segir Guðmundur Gíslason, forstjóri Ice Fish Farm, sem varð til með sameiningu Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis.

Eitt sýni af þúsundum jákvætt

ISA-veiran sem getur valdið blóðþorra fannst í kvíum Laxa á Gripalda í Reyðarfirði í nóvember. Fiskur var veikur í að minnsta kosti einni kví. Fyrirtækið ákvað að slátra öllum laxi á staðnum og hvíla svæðið til að draga úr hættu á því að veiran bærist í aðrar kvíar. Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir að þá hafi verið gerð skimunaráætlun sem unnið hafi verið eftir síðan. Tekin hafi verið sýni í hverjum mánuði úr öllum kvíum fyrirtækjanna allt suður í Berufjörð. Sérstök áhersla hafi verið lögð á Sigmundarhús sem eru í 2-3 kílómetra fjarlægð frá Gripalda.

Gísli segir að öll sýni hafi reynst neikvæð þar til í þessum mánuði. Í fjölda sýna sem tekin voru um páskana hafi eitt sýni reynst jákvætt og hafi það verið staðfest með raðgreiningu á rannsóknarstofu í Þýskalandi. Niðurstöðurnar þaðan bárust síðdegis í fyrradag.

Segir Gísli að tekin hafi verið 1.100 sýni á þessum stað og aðeins þetta eina sýni greinst jákvætt. Fiskurinn sé við bestu heilsu, éti, vaxi og dafni vel.

Mest lítill fiskur

Gísli segir ómögulegt að segja til um hvernig málin hefðu þróast, til dæmis hvort veikin hefði farið að grassera í kvínni á næstu vikum eða mánuðum, eða kannski aldrei. Þetta sé óásættanleg óvissa. Til að gæta fyllstu varúðar og reyna áfram að útrýma veirunni á þessu svæði hafi fyrirtækið ákveðið, í samráði við Matvælastofnun, að slátra öllum fiski upp úr kvíunum.

Á Sigmundarhúsum eru seiði sem sett voru út í haust. Flest voru orðin um 400 grömm að þyngd. Í eina kví voru þó sett stórseiði og var sá fiskur orðinn 1-2 kíló. Meðaltalið er 476 grömm, samkvæmt tilkynningu Ice Fish Farm til kauphallarinnar í Osló.

Guðmundur segir að byrjað hafi verið á aðgerðum á Sigmundarhúsum í gær. Fiskurinn er fluttur með brunnbáti í sláturhús Búlandstinds á Djúpavogi. Þar eru litlu seiðin flokkuð frá en stærri fiski slátrað fyrir erlenda markaði. Það sem flokkað er frá fer í meltuvinnslu. Guðmundur segir að vegna mikillar eftirspurnar eftir laxi fáist gott verði fyrir afurðirnar. Áhrifin á rekstur fyrirtækisins hafa ekki verið metin til fulls en í tilkynningu fyrirtækisins segir að búast megi við minni framleiðslu á næsta ári en gert hefur verið ráð fyrir.

Líklegast er talið að ISA-veiran hafi borist frá Gripalda. Þriðja staðsetning á kvíum Laxa fiskeldis er Vattarnes en hún er mun utar, um 12 kílómetrum frá, þannig að lítil hætta er talin á að veiran berist þangað. Gísli segir þó að það svæði verði vakað áfram, eins og önnur svæði fyrirtækisins.