Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ekki er skilgreint í gildandi reglum hvar loftrýminu sem íslenska ríkið ber ábyrgð á sleppir og hvar geimurinn tekur við.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ekki er skilgreint í gildandi reglum hvar loftrýminu sem íslenska ríkið ber ábyrgð á sleppir og hvar geimurinn tekur við. Það er meðal ástæðna þess að Samgöngustofa treystir sér ekki til að veita leyfi til eldflaugaskota út í geiminn.

Nokkrar stofnanir þyrftu að koma að útgáfu leyfis til að skjóta eldflaug á loft, að mati Samgöngustofu, en hvað þá stofnun varðar sérstaklega kemur skortur á regluverki og heimildum í veg fyrir að hún telji sér fært að gefa út leyfi. Skoska fyrirtækið Skyrora hefur sótt um leyfi til að skjóta eldflaug á loft frá Langanesi í tilraunaskyni, í yfir 100 kílómetra hæð, en hefur ekki fengið til þess leyfi hjá íslenskum stjórnvöldum. Hefur það valdið töfum á tilrauninni og hefur fyrirtækið skorað á íslensk stjórnvöld að leysa úr málinu.

Samgöngustofa ber ábyrgð á skipulagi og stjórnun loftrýmis út frá gildandi reglum. Í svari við fyrirspurn vegna máls Skyrora kemur fram að um geiminn gilda önnur lög og sáttmálar, en íslensk löggjöf sé ennþá ófullkomin á þessu sviði. Þá séu engar reglur í gildi um hvaða kröfur skuli gera til eldflaugaskota og hvernig tryggja beri öryggi í lofti, á láði og legi. Jafnframt skorti skilgreiningu um efri mörk loftrýmisins sem íslenska ríkið beri ábyrgð á, það er að segja hvar loftrýminu sleppir og geimurinn tekur við. Á því séu mismunandi skilgreiningar. Þá liggi aðkoma Samgöngustofu við leyfisveitingar eldflaugaskota ekki fyrir í gildandi reglum.

Ein kæra hjá ráðuneytinu

Í svari stofnunarinnar er á það bent að unnt er að kæra ákvarðanir hennar til innviðaráðuneytisins. Fyrir liggi að ein umsókn um eldflaugaskot sé í kæruferli þar. Ekki fæst uppgefið hvort um sé að ræða kæru Skyrora.