Smári Hreiðarsson fæddist 17. október 1964. Hann varð bráðkvaddur 2. apríl 2022.

Útförin fór fram 11. apríl 2022.

Elsku fallegi Smári okkar hefur nú kvatt alltof of fljótt.

Frá því Smári kom í heiminn tveimur mánuðum fyrir tímann var hann alltaf á hraðferð og þó hann væri smár vantaði ekki kraftinn og orkuna í kauða og strax í fyrirburakassanum á spítalanum var krafturinn svo mikill að litla snáðanum tókst að sprikla af sér bleyjunni.

Þegar við vorum krakkar var Smári með eindæmum stríðinn. Í minningunni var það oftast Jolli sem varð fyrir barðinu á honum en við frændsystkinin fengum stundum okkar skammt. Það var oft líka glatt á hjalla hjá okkur í sveitinni hjá Helgu mömmu þegar ekki var verið á fullu í heyskap eða öðrum verkum.

Á fullorðinsárum breyttist stríðnin og varð meira góðlátleg grín og sprell enda var alltaf fjör í kringum Smára, hann elskaði gott tjútt og þurfti aldrei áfengi til að vera fjörugasti fýrinn á dansgólfinu og á Smiðjukaffi-árunum var margt brallað, fjöldi minninga af skrautlegum prakkarastrikum sem draga fram bros. Smári var líka afburðagestgjafi og það fór enginn svangur frá borðum þegar hann bauð til veislu.

En Smári var ekki bara einstaklega myndarlegur og glaðvær einstaklingur, Smári var góður drengur, alltaf tilbúinn til að aðstoða eða veita góð ráð og fjölhæfur til verka. Það sem ég dáðist mest að í fari Smári var hans óbilandi sjálfstraust, hvernig hann tókst á við lífið með það viðhorf að ekkert væri ómögulegt, sá ekki vandamál, bara lausnir. Síðasta ráð sem hann gaf mér var að maður mætti aldrei gefa sér neikvæða niðurstöðu fyrirfram og þó svo maður fengi nei þá færði hvert nei mann einu skrefi nær já-inu. „Maður á alltaf að sækja nei-ið,“ sagði hann.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson)

Minningin lifir þó maðurinn hverfi.

Hvíldu í friði. Þín frænka Búbbulína.

Birna Kolbrún

Gísladóttir.