Vitjanir Miðillinn ásamt látinni dóttur sinni.
Vitjanir Miðillinn ásamt látinni dóttur sinni. — Ljósmynd/Juliette Rowland
Það er ábyggilega tómt vesen að vera skyggn. Ég fór að hugsa um þetta meðan ég horfði á Vitjanir, nýja íslenska myndaflokkinn á RÚV, um daginn. Þar var Helga E.

Það er ábyggilega tómt vesen að vera skyggn. Ég fór að hugsa um þetta meðan ég horfði á Vitjanir, nýja íslenska myndaflokkinn á RÚV, um daginn. Þar var Helga E. Jónsdóttir, sem leikur miðil í þættinum, komin í kelerí með Ladda og þau orðin ansi líkleg til að rífa sig úr fötunum þegar löngu látin dóttir miðilsins birtist óvænt og gaf móður sinni fyrirmæli um að fara að gera eitthvað allt annað. Sem hún gegndi. Aumingja Laddi var bara: „Haaa?!“ Hann hafði engan húmor fyrir þessu, karlinn. Lái honum hver sem vill enda ekki á hverjum degi sem spéfuglar eins og hann fá að leika í erótískum atriðum í sjónvarpi.

Það er sjálfsagt stuð að hafa greiðan aðgang að framliðnum, enda getur verið margs að spyrja, en svo virðist samt sem þeir birtist bara þegar þeim hentar best og gildir þá einu hvað maður er að bauka sjálfur. Alltént ef marka má sjónvarpið. Það á raunar við víðar. Ég þekki til dæmis mann í raunheimum sem sefur stundum ekki heilu næturnar fyrir ærslum í önduðum. Það er eins og menn verði upp til hópa meiri grallarar eftir að þeir bregða sér yfir móðuna miklu.

Er þó ekki fulllangt gengið að bremsa af ástalífið hjá eldri borgurum?

Orri Páll Ormarsson