Veitingafólk Ísak Eldjárn og Sunna Mjöll við afgreiðsluborðið á kaffihúsinu sem var opnað á sumardaginn fyrsta.
Veitingafólk Ísak Eldjárn og Sunna Mjöll við afgreiðsluborðið á kaffihúsinu sem var opnað á sumardaginn fyrsta. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Húsið ber virðulegan svip og starfsemin þarf að vera við þess hæfi,“ segir Ísak Eldjárn Tómasson, veitingamaður í Konungskaffi á Selfossi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Húsið ber virðulegan svip og starfsemin þarf að vera við þess hæfi,“ segir Ísak Eldjárn Tómasson, veitingamaður í Konungskaffi á Selfossi. Staðurinn er í nýja miðbænum þar í bæ, en veitingastaðirnir þar nálgast tuginn. Hver þeirra hefur sína sérstöðu; í Konungskaffi býðst smurbrauð í dönskum stíl, brauðtertur, kökur og annað slíkt. Einnig kaffi og úrvalsbjór í sérmerktum glösum.

Smekklegt hús og hlýlegt

Ferðamenn flykkjast í miðbæinn nýja á Selfossi. Öll húsin þar eiga sér fyrirmyndir í eldri byggingum sem eru horfnar. Konungskaffi er til húsa í byggingu tilsvarandi þeirri sem var reist á Þingvöllum árið 1907 fyrir Íslandsheimsókn Friðriks 8. Danakonungs og Lovísu prinsessu. Húsið var upphaflega rétt fyrir neðan Öxarárfoss og kallað Konungshúsið . Það var seinna flutt og endurreist skammt frá Hótel Valhöll og var til að mynda bústaður Kristjáns konungs 10. og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni árið 1930.

Upp frá því hófu ráðherrar í ríkisstjórn Íslands að nota Konungshúsið sem sumarbústað. Húsið brann 10. júlí 1970. Þar létust Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Björnsdóttir kona hans og dóttursonur þeirra, Benedikt Vilmundarson.

Konungshúsið nýja á Selfossi er sunnanvert við torgið í miðbænum nýja. „Húsið er smekklega byggt og hlýlegt. Nú þarf ég bara myndir af Danakonungum og hengja hér upp. Slíkt rifjar upp þá sögu sem Konungshúsinu fylgdi,“ segir Ísak Eldjárn sem hefur starfað við veitingarekstur frá unglingsaldri. Samstarfskona hans í Konungskaffi er Sunna Mjöll Caird.

„Við opnuðum á sumardaginn fyrsta og viðtökurnar hafa verið góðar, enda þótt við höfum ekki kynnt okkur mikið. Staðurinn, sem tekur um 40 manns í sæti, hefur spurst vel út, sem er besta kynningin sem hægt er að fá,“ segir Ísak Eldjárn.

Meira byggt í nýjum miðbæ

Á árinu hefjast framkvæmdir við annan áfanga nýja miðbæjarins á Selfossi. Reist verða alls 22 hús, en 13 byggingar eru í þeim hluta miðbæjarins sem tekinn var í notkun síðasta sumar. Í þeim húsum eru meðal annars verslanir og veitingastaðir, en í þeim sem nú á að reisa verða m.a. hótel, skrifstofur og svo íbúðir. Uppbygging þessi mun taka næstu tvö til þrjú árin.