Sorg Vinir og vandamenn úkraínska hermannsins Oleh Skibík minnast hans við útför í Lvív í vesturhluta Úkraínu.
Sorg Vinir og vandamenn úkraínska hermannsins Oleh Skibík minnast hans við útför í Lvív í vesturhluta Úkraínu. — AFP/Yuriy Dyachyshyn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi í gær ráðamenn í Rússlandi fyrir það sem hann kallaði „kærulaus ummæli“ um mögulega beitingu kjarnavopna. Sagði Biden hótanir Rússa sýna örvæntingu þeirra.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi í gær ráðamenn í Rússlandi fyrir það sem hann kallaði „kærulaus ummæli“ um mögulega beitingu kjarnavopna. Sagði Biden hótanir Rússa sýna örvæntingu þeirra.

„Enginn ætti að koma með kærulaus ummæli um notkun kjarnavopna eða möguleikann að þeir myndu beita þeim. Það er óábyrgt,“ sagði Biden, en Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf til kynna í fyrradag að Rússar gætu beitt kjarnorkuvopnum ef aðrar þjóðir skiptu sér af innrás þeirra í Úkraínu.

Þá hafa aðrir rússneskir ráðamenn, þar á meðal Sergei Lavrov utanríkisráðherra, varað við því að Rússar líti á vopnasendingar frá vesturveldunum sem lögmæt hernaðarskotmörk, og að þeir kunni brátt að hefna fyrir árásir Úkraínumanna á hernaðarskotmörk í Rússlandi með árásum á miðstöðvar ríkisstjórnarinnar og Úkraínuhers í Kænugarði.

Míkhaíló Podoljak, ráðgjafi Úkraínuforseta, sagði hins vegar á Twitter-síðu sinni að heimsbyggðin viðurkenndi rétt Úkraínumanna til þess að verja sig, meðal annars með árásum á herstöðvar Rússa og birgðageymslur, í ljósi árása rússneska hersins á óbreytta borgara.

Veitir enn meiri aðstoð

Vesturveldin hafa hins vegar ekki dregið úr aðstoð sinni við Úkraínu þrátt fyrir þær hótanir, og tilkynnti Biden í gær að hann hygðist biðja Bandaríkjaþing um 33 milljarða bandaríkjadala, eða sem nemur um 4.300 milljörðum íslenskra króna, í aðstoð til viðbótar við það sem þegar hefur verið veitt til Úkraínu.

Þar af verða 20 milljarðar dala, eða um 2.600 milljarðar, settir í beina hernaðaraðstoð, um 8,5 milljarðar dala í efnahagsaðstoð og um 3 milljarðar bandaríkjadala í mannúðaraðstoð og til að takast á við hækkun á matvælaverði sem fylgt hefur innrás Rússa.

Í tillögum Bidens er einnig opnað fyrir þann möguleika að þær eignir rússneskra ólígarka sem gerðar hafa verið upptækar frá upphafi innrásarinnar verði nýttar í þágu Úkraínu. Ríki Evrópusambandsins hafa til dæmis fryst verðmæti sem nema um 30 milljörðum bandaríkjadala.

Þá verður saksóknurum í Bandaríkjunum gefinn rýmri rammi til þess að sækja menn til saka fyrir peningaþvætti og önnur efnahagsbrot í tengslum við refsiaðgerðir vesturveldanna.

Biden sagði þegar hann kynnti tillögurnar að það væri ekki ódýrt að verja Úkraínu, en að ekki væri hægt að sitja hjá í ljósi stríðsglæpa Rússa. Sagði Biden einnig að Bandaríkin væru ekki að ráðast á Rússland með því að aðstoða Úkraínu við að verjast innrásinni.

Óvissa um stöðu refsiaðgerða

Bandaríkjastjórn hyggst einnig senda meira af birgðum sínum af jarðgasi til Evrópu eftir að Rússar ákváðu að loka fyrir jarðgassendingar sínar til Póllands og Búlgaríu, þar sem þau ríki hefðu ekki greitt fyrir orkuna í rúblum.

Biden sagði að Bandaríkin myndu ekki leyfa Rússum að kúga Evrópu með jarðgasi og reyna þannig að grafa undan refsiaðgerðum vesturveldanna.

Merki voru þó á lofti um að einhver orkufyrirtæki í Evrópu væru reiðubúin að láta undan hótunum Rússa að einhverju leyti. Þýska orkufyrirtækið Uniper lýsti því yfir í gær að það væri reiðubúið að kaupa jarðgas af Rússum með því að leggja evrur inn á reikning í banka Gazprom-orkurisans, sem myndi svo umbreyta þeim í rúblur.

Á sú aðferð að geta mætt kröfum Rússa, á sama tíma og hún brýtur ekki í bága við refsiaðgerðir Evrópusambandsins. Deilt er þó um þessa aðferð, þar sem hún þýðir á endanum að rússneski seðlabankinn verði að meðhöndla féð, en viðskipti við hann eru nú bönnuð samkvæmt refsiaðgerðunum.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í fyrradag að orkufyrirtæki sem færu þessa leið kynnu að gerast brotleg við refsiaðgerðirnar, og þótti því ríkja nokkur óvissa um hver afstaða sambandsins væri, þrátt fyrir að framkvæmdastjórnin hefði áður sjálf nefnt þann möguleika að láta Gazprom-bankann um að skipta evrunum yfir í rúblur.

Pólverjar hafa hins vegar kallað eftir því að þau ríki sem noti rúblur til að borga fyrir rússneska orkugjafa sæti refsingu þar til þau hætti að borga með rúblum.

Kiríl Petkov, forsætisráðherra Búlgaríu, hvatti í gær önnur aðildarríki ESB til að sýna „meiri styrk“ gagnvart Rússum og leita leiða til að þurfa ekki að treysta á rússneskt jarðgas. „Ef við getum það, ættu allir í Evrópu að geta það,“ sagði Petkov, en ákvörðun Rússa um að loka fyrir jarðgassendingar til Búlgaríu hefur hert stjórnvöld þar í afstöðu sinni gegn Rússum.

Reyna að ýta undir spennu

Nicu Popescu, aðstoðarforsætis- og utanríkisráðherra Moldóvu, varaði við því í gær að landið stæði nú frammi fyrir mikilli hættustund, þar sem vissir aðilar væru að reyna að ýta undir spennuástand í Transnistríu, héraði þar sem rússneskir aðskilnaðarsinnar hafa ráðið lögum og lofum frá árinu 1992.

Þar hafa nokkrar sprengjuárásir verið gerðar á síðustu dögum, og komu þær í kjölfar þess að Rústam Minnekajev, undirhershöfðingi í rússneska hernum, lýsti því yfir fyrir helgi að eitt af stríðstakmörkum Rússa í Úkraínu væri að mynda landbrú yfir til héraðsins.

Sakaði Minnekajev stjórnvöld í Moldóvu um að kúga rússneska minnihlutann í Transnistríu, en þær yfirlýsingar eiga við engin rök að styðjast. Ríma þær hins vegar við yfirlýsingar sem gefnar voru fyrir innrás Rússa árið 2014 í Donbass-héruðin tvö.

Sagði Popescu að greining stjórnvalda hefði ekki enn leitt í ljós hverjir bæru ábyrgð á sprengjuárásunum, og að verið væri að skoða nokkra möguleika. Sagði hann að gögnin sýndu að mismunandi öfl innan héraðsins greindi á um hvaða stefnu ætti að taka. Sagði Popescu þó ljóst að meirihluti Moldóva, bæði innan sem utan Transnistríu, vildi halda sér utan átakanna í Úkraínu.

NATO muni verja Finna og Svía

• Von á ákvörðun Finna mjög fljótlega Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði í gær að Finnar myndu taka ákvörðun um mögulega aðild sína að Atlantshafsbandalaginu mjög fljótlega. Hún var þá í heimsókn í Grikklandi og fundaði með Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands. „Skilaboð okkar til NATO eru þessi: Ef Finnland gengur til liðs við NATO munum við styðja við öryggi allra bandalagsríkjanna,“ sagði Marin, en umræður standa nú yfir á finnska þinginu um kosti og galla aðildar.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, þakkaði í gær Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins, fyrir að gefa loforð um að Finnar myndu njóta verndar bandalagsins frá mögulegum inngripum Rússa á meðan aðildarumsókn landsins verður tekin fyrir, en óttast er að Rússar kynnu að reyna netárásir eða jafnvel að fara inn fyrir landamæri Finnlands á meðan aðildarumsóknin er tekin fyrir á vettvangi bandalagsríkjanna.

Sagði Stoltenberg í gær að hann væri sannfærður um að bandalagsríkin myndu finna leiðir til að verja Finnland og Svíþjóð fyrir ágangi Rússa á meðan umsóknarferlið er í gangi.

Sænskir og finnskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í vikunni að ríkin tvö hefðu komist að samkomulagi um að þau myndu senda inn sameiginlega umsókn um miðjan maí, ef þau ákveða að sækja um, og gæti umsóknin þá verið tekin fyrir á leiðtogafundi bandalagsins í júní.

Sérhvert aðildarríki verður að samþykkja aðild nýs ríkis, og er talið að það ferli geti tekið allt frá fjórum mánuðum og upp í ár. Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir stuðningi sínum við umsókn ríkjanna, og að þau muni greiða fyrir samþykki þeirra á þingi.