Tvöföldun Taiwo Badmus úr Tindastóli sækir á Valsmennina Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij í Síkinu á Sauðárkróki í gærkvöldi.
Tvöföldun Taiwo Badmus úr Tindastóli sækir á Valsmennina Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij í Síkinu á Sauðárkróki í gærkvöldi. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
Körfuboltinn Aron Elvar Finnsson Jóhann Ingi Hafþórsson Tindastólsmenn sýndu og sönnuðu í gærkvöldi að heimavöllur þeirra í Síkinu er sá erfiðasti heim að sækja á landinu í dag.

Körfuboltinn

Aron Elvar Finnsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Tindastólsmenn sýndu og sönnuðu í gærkvöldi að heimavöllur þeirra í Síkinu er sá erfiðasti heim að sækja á landinu í dag. Tindastóll gerði sér nefnilega lítið fyrir og valtaði yfir Val í Skagafirði, 91:75, í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta.

Tapið var það fyrsta hjá Valsmönnum í úrslitakeppninni til þessa. Þeir áttu enga möguleika gegn vægðarlausum Skagfirðingum, sem náðu mest 24 stiga forskoti en Valur komst aldrei yfir í leiknum.

Líkt og í fyrsta leiknum spilaði Tindastóll mjög ákafa vörn, sem Valsmönnum líkaði ekki. Hinum megin hittu heimamenn vel og náðu snemma tíu stiga forskoti og voru Valsmenn ekki sérstaklega líklegir eftir það. Besti kafli Valsmanna kom snemma í seinni hálfleik er þeir minnkuðu muninn í tíu stig en Tindastóll átti alltaf svör, fyrir framan troðfulla stúku af mögnuðum stuðningsmönnum.

Gestirnir áttu engin svör

„Stemningin í Síkinu var hafin löngu fyrir leik og eiga Skagfirðingar og aðrir sem mættu þvílíkt hrós skilið fyrir stuðninginn sem þeir sýndu í kvöld. Spilamennska Tindastólsliðsins gerði svo akkúrat ekki neitt til að minnka stemninguna eftir að leikurinn hófst en gestirnir áttu engin svör hvorki í vörn né sókn,“ skrifaði Aron Elvar Finnsson um leikinn á mbl.is.

Taiwo Badmus skoraði 22 stig og tók átta fráköst fyrir Tindastól og Sigurður Gunnar Þorsteinsson kom með glæsilega innkomu af bekknum og skoraði 15 stig. Þá gerði Javon Bess 12 stig og gaf fimm stoðsendingar.

Hjá Val var Jacob Dalton stigahæstur með 16 stig og tók hann einnig sex fráköst. Callum Lawson og Kári Jónsson áttu einnig ágætan leik en reynsluboltar eins og Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij áttu ekki sinn besta dag.

Stóra spurningin núna er hvort Tindastóll nær að vinna útileik í þessu einvígi en rétt eins og Skagfirðingar eru Valsmenn einnig ósigraðir á heimavelli í úrslitakeppninni.